17 jún Þversögnin um lausasölulyf
Lyfjalög eru nú til meðferðar á Alþingi og þar eru ýmsar breytingar í farvatninu. Þar með talið í tengslum við lausasölulyfin. En verið alveg róleg, það er ekkert verið að slaka of mikið á forræðishyggjunni. Ekkert of mikið vald til fólksins. Stjórnvöld eru enn hrædd um að almenningur hér fari sér að voða með íbúfeni, ofnæmislyfjum, magabólgulyfjum eða vægum verkjalyfjum. Nema íbúar í litlum plássum þar sem ekki eru starfræktar lyfjabúðir eða lyfjaútibú. Þar má, samkvæmt tillögu stjórnvalda, veita undanþágur og selja lausasölulyf á sama hátt og þau eru seld í flestum löndum í kringum okkur, í almennri verslun.
Þetta er fín tillaga að öllu leyti nema einu. Hún gengur of skammt. Eðlilegra væri að sýna þá framsýni að afnema þessar miklu takmarkanir sem enn gilda um lausasölulyfin. Í tengslum við afgreiðslu lyfjalaga nú hef ég lagt fram breytingartillögu þess efnis. Til að gæta fyllstu varúðar felur tillagan í sér að Lyfjastofnun skuli birta lista á heimasíðu sinni yfir þau lyf, styrkleika og pakkningar, sem heimilt verður að selja.
Samkeppniseftirlitið hefur bent á að reynsla nágrannalanda okkar af því að heimila sölu lausasölulyfja í almennum verslunum sé sú að neytendur hafi notið meira úrvals ódýrra lausasölulyfja. Víða í nágrannalöndum okkar er hægt að nálgast helstu lausasölulyf í sjálfsölum. Að mati Samkeppniseftirlitsins væri tilefni til að skoða notkun sjálfsala hér. Ég er sammála því, en í ljósi ríkjandi forræðishyggju er réttara að taka hér eitt skref í einu. Byrjum á því að treysta fólki og frjálsri samkeppni.