07 júl Krónan hennar Kötlu
Við þrettán ára dóttir mín vorum að koma úr Kringlunni og sátum í bílnum á Miklubrautinni þegar hún spurði mig: „Pabbi hvort er gott eða slæmt þegar gengið á krónunni lækkar?“
Ég fæ stundum flóknar spurningar frá börnunum mínum og geri venjulega mitt besta til að svara þeim. „Þegar verðgildi krónunnar lækkar, er það gott fyrir suma, en slæmt fyrir aðra. Ef þú átt þúsund tonn af frosnum fiski sem þú ætlar að selja til útlanda er það gott, en ef þú þarft að kaupa bensín á bílinn þinn, eða vilt fara í frí til útlanda, er það slæmt.“
„Ég skil ekki þessi peningamál,“ sagði Katla þá og ég fór eftir bestu getu að útskýra fyrir henni eðli peninga sem geymslustaðar fyrir starfsorku og hvers vegna varaliturinn frá Kylie Jenner, sem hana langar svo mikið í, kostar stundum þrjú þúsund og stundum fjögur þúsund.
Fljótlega fór hún að skilja samhengið og spurði „væri ekki einfaldara fyrir okkur að vera bara með sama gjaldmiðil og önnur lönd?“. Góð spurning. Auðvitað „meikar það engan sens“ fyrir 350 þúsund manns að hafa annan gjaldmiðil en restin af heimsálfunni. Auðvitað er það bara þjónkun við hagsmuni hinna sterku í bland við einhvers konar Bjarts-í-sumarhúsum-þrjósku að halda í gjaldmiðil sem er minni en Disneydollarinn.
Á næstu árum þurfum við Katla og aðrir Íslendingar að verja þau lífskjör sem við höfum vanist. Skapa þarf nýjar tekjur í þjóðarbúið upp á milljarð á viku. Sá milljarður verður síður til á meðan við höfum gjaldmiðil sem hamlar nýsköpun og hrekur af burðafólk af eyjunni okkar.
Ég vona allavega að þegar Katla velur sér land til að búa í, verði krónan ekki lengur eitthvað sem hún þarf að taka með í reikninginn. Og að sveiflurnar í efnahagslífinu sem hafa gert líf minnar kynslóðar óþarflega flókið og dýrt verði þannig úr sögunni.