Skólakerfið, umbreyting­ar og samkeppnishæfnin

Allt okkar umhverfi er að taka stórum tæknibreytingum. Því skiptir máli sem aldrei fyrr að stjórnvöld styðji við og hvetji til nýsköpunar og tækniframþróunar til þess að efla samkeppnishæfni Íslands á heimsvísu. Fyrir litla þjóð mun sú verðmætasköpun sem fylgir stórum stökkum í tækniþróun skipta öllu máli í efnahagslegu tilliti.

Kyrrstaða þýðir að við komum til með að standa höllum fæti til framtíðar þegar kemur að samkeppnishæfni á vinnumarkaði. Tæknin mun leiða til umbreytinga í öllum atvinnugreinum með einum eða öðrum hætti auk nýrra starfa sem hún mun leiða af sér og enginn veit enn hver verða.

Því skiptir mjög miklu máli að tæknimenntun verði efld á öllum stigum skólakerfisins, allt frá leik- og grunnskóla upp í háskóla. Tæknilæsi er færni sem íslenskt menntakerfi verður að innleiða þannig að við öll öðlumst jöfn tækifæri til þátttöku í samfélagi örra breytinga.

Skólakerfið tekur breytingum eins og hvað annað í samfélagi manna. Oftar en ekki þykir okkur kerfið silast áfram og breytingar utan veggja skólastofnana hreyfast mun hraðar en skólakerfið sjálft.

Tímar örra tæknibreytinga og viðbragða við heimsfaraldri COVID-19 kalla á aukna kröfu um tæknilæsi og færni til að takast á við það óþekkta. Geta til að sýna frumkvæði og sjálfstæði en umfram allt til að geta unnið á árangursríkan hátt í samvinnu eru þættir sem vitað er að skipta gríðarlega miklu máli fyrir það umhverfi sem við sem þjóð erum þegar farin að lifa og starfa í.

Ísland þarf heildstæða menntastefnu sem byggir á framtíðarsýn með tilliti til þessara umbyltinga.

Einnig þarf að fylgja fjármagn og markviss aðgerðaáætlun svo Ísland verði samkeppnishæft á alþjóðavísu og efli sig sem þjóð á sama tíma og við stuðlum að dýrmætri verðmætasköpun fyrir þjóðarbúið.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 24. júlí 2020