04 ágú Skref fyrir skref
Planið var að verja fyrri hluta dags í að finna réttu fylgihlutina fyrir opnunarhátíð Hinsegin daga sem átti að fara fram í kvöld. Fara í hefðbundið fyrirpartý með góðum vinum og njóta þess sérstaklega að opnunarhátíðina átti í ár að bera upp á afmælisdaginn minn. Fylkja svo liði niður á Listasafn Reykjavíkur þar sem opnunin var fyrirhuguð með pompi og prakt. Verja kvöldinu með vinum og kunningjum úr hinsegin-samfélaginu og hlakka til vikunnar fram undan, stútfullrar dagskrár af fræðslu og skemmtun.
Það eina sem stendur eftir er afmælisdagurinn. Hann tekur kóvítið ekki af mér. En að öllu gamni og svekkelsi slepptu, þá tekur kóvítið heldur ekki hinsegin-hátíðina af okkur. Hún verður vissulega öðruvísi að þessu sinni, látlausari og varkárari, en skilaboð Hinsegin daga eiga við sem aldrei fyrr.
Gleðigangan hefur verið hápunktur Hinsegin daga á ári hverju. Ganga fjölbreytileika, sýnileika og baráttu þar sem við fögnum hverju skrefi sem gengið hefur verið í átt að bættum réttindum hinsegin fólks á Íslandi og minnum á þau skref sem enn á eftir að stíga. Hvert einasta skref geymir sögu fólks sem hefur verið óþreytandi við að berjast fyrir tilverurétti sínum og um leið tilverurétti annarra. Sem hefur barist fyrir frelsinu, hvað sem það hefur kostað. Hinsegin dagar í ár eru tileinkaðir þessu fólki.
Gleðigangan hefur fyrir löngu fest sig í sessi í íslensku þjóðlífi. Það er ekki bara hinsegin fólk sem fagnar, meginþorri þjóðarinnar tekur undir, enda fátt sem staðfestir betur stöðu okkar sem opið, frjálslynt og umburðarlynt samfélag en akkúrat gleðigangan og önnur hátíðarhöld sem fylgja Hinsegin dögum.
Kóvítið kemur í veg fyrir að við göngum öll saman í ár. Við munum samt ganga áfram. Skref fyrir skref. Í sömu átt, hvert á sínum tíma og hvert á sínum hraða. Það skiptir máli að vera ekki ein. Það eru skilaboð Hinsegin daga. Í ár líkt og önnur ár fögnum við fjölbreytileikanum og frelsinu. Stolt í hverju skrefi. Af hverju ættum við að vera eitthvað annað?