Hver er afstaða barnamálaráðherra til þess að börnum sé vísað úr landi?

Þorbjörg S Gunnlaugsdóttir

Enn á ný eru sagðar fréttir af því að senda eigi úr landi börn sem hér hafa dvalið um lengri tíma. Í þetta sinn er um að ræða fjöl­skyldu sem hefur verið hér í rúm tvö ár en fjöl­skyldan kom til lands­ins í ágúst­byrjun 2018. Börnin hafa gengið hér í leik­skóla og skóla og fest hér ræt­ur. Rúm tvö ár eru langur tími í lífi barna, en börnin eru frá 12 ára til 2 ára ald­urs. Eitt þess­ara barna hefur sam­kvæmt þessu ekki búið ann­ars staðar en á Íslandi, það er fætt hér á landi. Um þessa nið­ur­stöðu kæru­nefndar útlend­inga­mála hefur Áslaug Arna Sig­ur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra sagt að hún vilji ekki breyta reglu­gerð til að „bjarga ein­staka fjöl­skyldum sem fara í fjöl­miðla“. Það hlýtur að mega að gera ráð fyrir að það sé ekki ákvörð­unar­á­stæða um nálgun rík­is­stjórn­ar­innar hvort umrædd fjöl­skylda hafi fengið við­tal í fjöl­miðlum eða ekki. Þetta orða­lag er hins vegar óþægi­legt.

Reglu­gerð dóms­mála­ráð­herra frá því í lok síð­asta árs, um að veita skuli dval­ar­leyfi af mann­úð­ar­á­stæðum ef máls­með­ferð hefur varað lengur en í 16 mán­uði, átti ekki við um fjöl­skyld­una. Einmitt af þeirri ástæðu mætti staldra við og skoða hvort verið getur að reglu­gerðin nái ekki utan um aðstæður fólks sem jafn­vel hefur verið hér árum sam­an? Er þá ekki full­gild ástæða til að skoða það? Hvort reglu­gerðin dugi til almennt séð? Það kæmi þess­ari fjöl­skyldu vissu­lega mjög til góða en myndi um leið geta spornað við því að fleiri svona sorg­ar­mál komi upp. Í næstu viku verður þetta reglu­verk til umfjöll­unar í alls­herj­ar­nefnd að ósk þriggja þing­manna stjórn­ar­and­stöð­unn­ar.

Á mið­viku­dag­inn stendur til að vísa þess­ari fjöl­skyldu úr landi. Dóms­mála­ráð­herra seg­ist ekki ætla að beita sér og aðrir ráð­herrar hafa ekki tjáð sig, að manni virð­ist. Það er auð­vitað alveg rétt hjá dóms­mála­ráð­herra að ein­stök mál eru ekki á hennar könnu, en reglu­verkið sem leiðir til nið­ur­stöð­unnar er það. Nið­ur­staða eins og þessi ætti að vekja eft­ir­tekt og áhyggj­ur.

 

Aftur og aftur ger­ist það að almenn­ingur fær í mag­ann við að heyra fréttir í fjöl­miðlum af örlögum barna sem vísa á úr landi. Umfjöllun fjöl­miðla hefur í ein­staka málum náð að koma því til leiðar að stjórn­völd hafa lagt við hlustir og börn hafa í kjöl­farið fengið að halda áfram skóla­göngu sinni og dag­legu lífi á Íslandi. Þetta ein­staka mál og reglu­verkið er auð­vitað ekki bara mál dóms­mála­ráð­herra. Útlend­ingapóli­tíkin sem birt­ist í fram­kvæmd stofn­ana er póli­tík rík­is­stjórn­ar­innar allr­ar.  Í júní­mán­uði átti ég sam­tal við Ásmund Einar Daða­son félags- og barna­mála­ráð­herra í þing­sal vegna útlend­inga­frum­varps sem þá var til umræðu, en náði bless­un­ar­lega ekki í gegn. Ég spurði hann hvort ein­hugur væri um útlend­inga­frum­varpið í rík­is­stjórn­inni og hvort hann sem barna­mála­ráð­herra styddi það mál. Í svari hans kom fram að málið væri rík­is­stjórn­ar­mál og: „rík­is­stjórnin hefur lagt það fram og þar af leið­andi er rík­is­stjórnin í grófum dráttum sam­mála um það. En hins vegar hef ég lagt áherslu á það, bæði í máli mínu við dóms­mála­ráð­herra og opin­ber­lega, að mik­il­vægt sé að styrkja sér­stak­lega stöðu barna á flótta, fylgd­ar­lausra barna og ann­arra. Við höfum verið með marg­vís­leg verk­efni í gangi í ráðu­neyt­inu til þess að gera betur í þeim efn­um. Ég tel að við getum gert betur í þeim efnum en við erum að gera í dag.“

Munum við heyra hvort barna­mála­ráð­herra styðji reglu­verk sem leiðir til þess að börn sem hér hafa verið búsett í rúm tvö ár verði vísað úr landi á mið­viku­dag? Telur hann að við getum ekki gert betur í þeim efn­um?

Höf­undur er þing­maður Við­reisn­ar.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 11. september 2020