24 sep Vogunarsjóður
Nýlega vakti varaseðlabankastjóri athygli á því að afborganir óverðtryggðra íbúðalána gætu hækkað um allt að 50 prósent ef stýrivextir hækkuðu. Tugþúsundir heimila hafa tekið slík lán undafarin ár. Krónan hefur hrunið um 20 prósent á undanförnum vikum sem mun óhjákvæmilega leiða til hækkunar á verðtryggðum lánum. Neytendasamtökin bentu á það um daginn að íbúðalán með breytilegum vöxtum væru ólögleg þar sem bankarnir hefðu ekki lagað þau að breyttum stýrivöxtum og vaxtaþróun.
Samkvæmt þessu þurfa heimilin í landinu að vera rekin eins og vogunarsjóður, þar sem stanslaust er verið að meta áhættuna af lántökunni og engin leið er að sjá fyrir um kollsteypur og breyttar forsendur. Heimilin þurfa að hafa yfirsýn og þekkingu á fjármálum eins og áhættustýringarfyrirtæki. Með vísitölulánum erum við að borga húsin okkar mörgum sinnum. Hver er skýringin á þessum ósköpum?
Hollenskur vinur minn sagði mér frá því í fyrra að hann hefði fagnað því með veislu þegar hann greiddi síðustu afborgun af húsnæðisláninu sínu sem hann tók fyrir 40 árum, en flestir landa hans fara skuldlausir inn í eftirlaunaárin. Fjörutíu ára greiðsluáætlun bankans stóðst algjörlega, vextir voru stöðugir og síðasta afborgunin hljóðaði upp á sömu upphæð og hann fékk að vita 40 árum fyrr.
Ísland og Holland eru bæði með þjóðarframleiðslu sem byggir á um 70 prósenta hlut verslunar og þjónustu, hafa svipaða þjóðarframleiðslu á mann og svipað skattkerfi og velferðarþjónustu. Eini munurinn er að gjaldmiðillinn í Hollandi hefur verið nánast stöðugur allan þennan tíma.
Myndi stöðugur gjaldmiðill hugsanlega gera vogunastjóra heimilanna óþarfa? Maður spyr sig.