Vogunarsjóður

Ný­lega vakti vara­seðla­banka­stjóri at­hygli á því að af­borganir ó­verð­tryggðra í­búða­lána gætu hækkað um allt að 50 prósent ef stýri­vextir hækkuðu. Tug­þúsundir heimila hafa tekið slík lán unda­farin ár. Krónan hefur hrunið um 20 prósent á undan­förnum vikum sem mun ó­hjá­kvæmi­lega leiða til hækkunar á verð­tryggðum lánum. Neyt­endasam­tökin bentu á það um daginn að í­búða­lán með breyti­legum vöxtum væru ó­lög­leg þar sem bankarnir hefðu ekki lagað þau að breyttum stýri­vöxtum og vaxta­þróun.

Sam­kvæmt þessu þurfa heimilin í landinu að vera rekin eins og vogunar­sjóður, þar sem stans­laust er verið að meta á­hættuna af lán­tökunni og engin leið er að sjá fyrir um koll­steypur og breyttar for­sendur. Heimilin þurfa að hafa yfir­sýn og þekkingu á fjár­málum eins og á­hættu­stýringar­fyrir­tæki. Með vísi­tölu­lánum erum við að borga húsin okkar mörgum sinnum. Hver er skýringin á þessum ó­sköpum?

Hollenskur vinur minn sagði mér frá því í fyrra að hann hefði fagnað því með veislu þegar hann greiddi síðustu af­borgun af húsnæðis­láninu sínu sem hann tók fyrir 40 árum, en flestir landa hans fara skuld­lausir inn í eftir­launaárin. Fjöru­tíu ára greiðslu­á­ætlun bankans stóðst al­gjör­lega, vextir voru stöðugir og síðasta af­borgunin hljóðaði upp á sömu upp­hæð og hann fékk að vita 40 árum fyrr.

Ís­land og Holland eru bæði með þjóðar­fram­leiðslu sem byggir á um 70 prósenta hlut verslunar og þjónustu, hafa svipaða þjóðar­framleiðslu á mann og svipað skatt­kerfi og vel­ferðar­þjónustu. Eini munurinn er að gjald­miðillinn í Hollandi hefur verið nánast stöðugur allan þennan tíma.

Myndi stöðugur gjald­miðill hugsan­lega gera voguna­stjóra heimilanna ó­þarfa? Maður spyr sig.

Greinin birtist í Fréttablaðinu 24. september 2020