08 okt Engin plön um hagvöxt
Fjármálaáætlun til fimm ára felur í sér þá nýlundu að stjórnarflokkar ganga til kosninga með sameiginlega stefnu í ríkisfjármálum og efnahagsmálum fyrir allt næsta kjörtímabil.
Stefnuræða forsætisráðherra fyrir viku og þær umræður um fjárlög og fjármálaáætlun, sem fylgt hafa í kjölfarið, staðfesta að ríkisstjórnin er ekki með nein plön um að örva vöxt í þjóðarbúskapnum á næsta kjörtímabili.
Stjórnin gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði nær 4% á næsta ári, sem er viðunandi. En strax árið þar á eftir á hann að snarlækka og verður orðinn nærri helmingi minni á miðju kjörtímabili. Umfram það eru engin markmið sett.
Með þessu móti ná menn ekki tökum á skuldakreppunni. Þetta dugar ekki til þess að hefja nýja lífskjarasókn. Og vandséð er að velferðarkerfið verði varið.
Í blindgötu
Áður fyrr gat Sjálfstæðisflokkurinn við aðstæður eins og þessar haft forystu um margvíslegar kerfisbreytingar til að örva verðmætasköpun og framleiðni. Á síðustu árum hefur flokkurinn aftur á móti þrengt pólitíska stöðu sína þannig að hann getur ekki veitt slíka forystu.
Í sögulegu samhengi má nefna nokkur atriði:
Í fyrsta lagi alþjóðlegt samstarf í peningamálum til þess að tryggja stöðugleika og skapa grundvöll fyrir nýsköpun. Í öðru lagi stór skref í fjölþjóðasamvinnu til þess að efla frjáls viðskipti og auka samkeppni. Í þriðja lagi ráðstafanir til þess að nýta markaðsöflin með virkari hætti í landbúnaði og sjávarútvegi í þeim tilgangi að auka framleiðni.
Kerfisbreytingar af þessu tagi eru nú eins og áður nauðsynlegar til að stækka þjóðarkökuna. En pólitísk þrenging hefur leitt kjölfestuflokk ríkisstjórnarinnar inn í blindgötu. Hann á einfaldlega of lítinn efnivið í hagvaxtarplan.
Báðir fórna skattahugmyndafræðinni
Skattalækkun er eina kerfisbreytingin, sem Sjálfstæðisflokkurinn ræðir. Hún getur vissulega verið mikilvægur þáttur í að örva hagvöxt. Klípan er bara sú að í núverandi skuldakreppu er svigrúmið til skattalækkunar lítið sem ekkert.
VG er í sömu klípu á hinum endanum. Nú er ekki tími skattahækkana.
Í öllum kosningum í meira en tvo áratugi hefur VG boðað stórhækkun skatta á hálaunafólk til að margfalda útgjöld til heilbrigðismála. Nú stefnir VG inn í annað kjörtímabil með fjármálaáætlun án skattahækkana og sama hlutfall útgjalda af landsframleiðslu til heilbrigðismála eins og var um aldamótin.
Í fjármálaáætluninni fórna báðir flokkarnir skattahugmyndafræði sinni allt næsta kjörtímabil. Það er í sjálfu sér raunsætt. En þetta gerir aðrar kerfisbreytingar þeim mun mikilvægari og brýnni.
Sjálfstæðisflokkurinn fórnar einnig þeirri stefnu að bæta skilvirkni í heilbrigðiskerfinu með auknu frelsi og festir sig við harðari ríkisvæðingu VG út næsta kjörtímabil.
Vöxtur og velferð í stað kyrrstöðu
Forystumenn Viðreisnar og Samfylkingar, sem liggja næst miðjunni frá hægri og vinstri, hafa öndvert við málflutning ríkisstjórnarflokkanna talað mjög skýrt fyrir alhliða kerfisbreytingum nú í þingbyrjun.
Í eðli sínu eru þetta svipaðar kerfisbreytingar og Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur stóðu að bæði í Viðreisnarstjórninni og Engeyjarstjórninni.
Eftir síðustu skoðanakönnun eru Viðreisn og Samfylking saman talsvert stærri en Sjálfstæðisflokkurinn. Tveggja flokka stjórn þeirra er þó fjarlæg. En nái þeir saman um kjarnaatriði nauðsynlegra kerfisbreytinga eiga þeir möguleika á að sprengja upp kyrrstöðuna.
Þessi nýja staða á miðju stjórnmálanna dugar til að koma í veg fyrir að kyrrstöðustjórnin verði endurnýjuð með Miðflokknum. Með slíkt fylgi og samvinnu um lykilatriði geta Samfylking og Viðreisn einnig tryggt að næsta ríkisstjórn verði mynduð frá miðju um vöxt og velferð í stað kyrrstöðu.
Biðin er dýr
Umræður á Alþingi þessa fyrstu þingdaga vetrarins benda til þess að kjósendur hafi að þessu leyti nokkuð skýrt val í komandi kosningum: Vörn eða sókn.
En fyrst ríkisstjórnin kemur ekki með hagvaxtarplan er of dýrt að bíða með kosningar í heilt ár. Breytingar taka tíma. Kjósi þjóðin vöxt og velferð fremur en kyrrstöðu skiptir máli að byrja sem fyrst.