17 okt Mældu rétt!
Umræður um tolla, nauðsyn þeirra og áhrif er klassískt umræðuefni og þrætuepli í samskiptum þjóða og í umræðum um einstakar atvinnugreinar, ekki síst í tengslum við landbúnað og samkeppnisstöðu hans og jafnan er þá talað um tollvernd í því samhengi.
Hér takast á hagsmunir neytenda um það að vöruverð sé lágt og vöruúrval gott annars vegar og hins vegar hagsmunir þeirra sem framleiða innlendar vörur. Alþjóðleg þróun hefur lengi verið í þá átt að draga úr tollum og öðrum samskiptahindrunum. Mín skoðun er eindregið sú að það sé rétt stefna. Samtímis verður að gæta þess að starfsumhverfi og umgjörð innlendrar framleiðslu sé með því móti að unnt sé að mæta erlendri samkeppni. Um það held ég að flestir séu sammála, ekki síst þegar íslenskur landbúnaður á í hlut. Rétta leiðin til þess er hins vegar ekki sú að slá um hann skjaldborg með innflutningshindrunum og tollum sem leiða til hækkaðs verðs til neytenda og minna vöruúrvals. Aðrar leiðir eru skynsamlegri en þá þarf að hafa hugrekki til þess til þess að styðja og styrkja bændur, með öðrum hætti en nú er gert, til að sinna þeim búskap, nýsköpun og landnýtingu sem þeir kjósa sjálfir.
Það breytir ekki því að Ísland á aðild að margvíslegum alþjóðlegum samningum um viðskipti, þar á meðal um tolla í viðskiptum. Þá samninga eins og aðra á að virða að fullu og framfylgja eftir efni þeirra án undanbragða. Það eru þjóðréttarlegar skyldur samningsaðila sem viðkomandi ríki verða að gæta fyrir sitt leyti. Inn- og útflytjendur verða að fara að settum reglum og yfirvöld að staðreyna að það sé gert.
Í fjölmiðlum hefur undanfarið verið fjallað nokkuð um tollasamning Íslands og ESB um landbúnaðarvörur. Þar hefur komið fram að sterkur grunur er um að farið sé á svig við þær reglur sem gilda með þeim afleiðingum að meira er flutt inn af landbúnaðarafurðum með lægri tollum en samið var um og það valdið íslenskum landbúnaði búsifjum.
Formaður Framsóknarflokksins hefur lýst þeirri skoðun sinni á opinberum vettvangi að rétt viðbragð við þessari stöðu sé að segja upp tollasamningnum við Evrópusambandið. Í umræðu um málið vilja sumir stilla málinu þannig upp að Evrópusambandið sé að svindla á Íslandi. Það er auðvitað fjarri öllu lagi. Ef farið er á svig við reglurnar með rangri tollflokkun, t.d. að hreint kjöt sé flokkað sem kjöt á beini, þá er við innflytjandann að sakast sem ber ábyrgð á réttri tollflokkun. Svo má í framhaldinu spyrja sig að því hvort eftirlit íslenskra yfirvalda sé ábótavant með þessum innflutningi.
Þetta er því íslenskt vandamál sem verður leyst á innlendum vettvangi. Það er fráleitt að nota það sem skálkaskjól til þess að segja upp tollasamningnum við Evrópusambandið.
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.