Trygging stöðugleika í gjaldeyrismálum yrði stórt framfaraskref sem mundi hafa víðtæk áhrif.
Málamiðlun í gjaldeyrismálum
Nýverið kynnti Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra frumvarp til fjárlaga ársins 2021 og fjármálaáætlun til áranna 2021-2025. Í kynningunni fjallaði Bjarni um áætlun stjórnvalda um útgjaldaaukningu til þess að mæta því mikla áfalli sem hagkerfið hefur orðið fyrir. Jafnframt ræddi Bjarni um mikilvægi þess að jafnvægi yrði aftur skapað í tekjum og útgjöldum hins opinbera. Í áætluninni eru kynntar hugmyndir um hvernig því markmiði verði náð. Bjarni benti einnig á að afleiðingar þess að ná jafnvægi í rekstri ríkissjóðs væru mjög háðar hagþróun komandi ára. Því meiri hagvöxtur sem verður í kjölfar þess að núverandi samdrætti lýkur því minna sársaukafullar verða aðgerðir til að ná jafnvægi að nýju. Taka verður undir þessi orð Bjarna.
Til hvaða aðgerða gætu stjórnvöld gripið til þess að styðja við hagvöxt þegar samdráttarskeiðinu lýkur? Mikið hefur verið ritað um forsendur hagvaxtar. Frumforsenda er framleiðniaukning. Framleiðni má auka með fjárfestingu í tækni, menntun og innviðum og hvötum til nýsköpunar. Ábyrg hagstjórn og stöðugleiki skipta einnig miklu máli.
Ríkisstjórnin hefur lagt áherslu á fjárfestingu í innviðum og menntun í núverandi samdrætti. Það er vel. Hagstjórn á Íslandi undanfarinn áratug hefur verið ábyrg. Fjármálaáætlun gerir ráð fyrir að áframhald verði á því.
Krónan er ennþá vandamál
Þrátt fyrir ábyrga hagstjórn búa Íslendingar við óstöðugleika á einu sviði. Krónan er ennþá óstöðug samanborið við gjaldmiðla nágrannalandanna. Nærtækast er að benda á verulega lækkun hennar á þessu ári þrátt fyrir mjög stóran gjaldeyrisvaraforða og takmarkanir á erlenda fjárfestingu lífeyrissjóða. Fyrir lítið opið hagkerfi, sem er eins háð milliríkjaviðskiptum og Ísland, eru slíkar sveiflur dýrkeyptar.
Gengissveiflur leiða til óvissu og ófyrirséðra sveiflna í tekjum og kostnaði. Þær gera áætlanagerð erfiða og torvelda samkeppnisstöðu útflutningsatvinnuvega. Þær leiða til verðlagssveiflna og ýta undir verðbólgu. Óvissan, sveiflurnar og smæð myntarinnar leiða til viðvarandi hærra vaxtastigs, sem eykur kostnað og fækkar arðbærum fjárfestingum fyrirtækja og einstaklinga, hækkar verðlag og skerðir hag heimila. Stöðugur gjaldmiðill er því afar mikilvægur fyrir framtíðarhorfur í efnahagsmálum á Íslandi.
Valkostir í gjaldeyrismálum
Mikið hefur verið rætt og ritað um fyrirkomulag gjaldeyrismála á Íslandi. Ísland hefur reynt margar leiðir til að ná markmiðum stöðugleika, án þess að það hafi tekist nema tímabundið. Í ágætri skýrslu Seðlabanka Íslands, Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum, frá 2012 er farið yfir þá valkosti sem standa Íslandi til boða í gjaldeyrismálum. Niðurstaða hennar er að allar leiðir hafi sína kosti og galla.
Í fyrrnefndri skýrslu Seðlabankans er fjallað um möguleikana á upptöku evru. Tvær leiðir eru þar nefndar, einhliða upptaka og þátttaka í myntsamstarfi Evrópusambandsins, ERM II. Einhliða upptöku fylgja verulegir gallar sem raktir eru í skýrslunni og gera þann kost ófýsilegan. Þátttaka í ERM II mundi krefjast inngöngu í Evrópusambandið, sem er stórt og umdeilt mál. Þar með virðist upptaka evru fjarlægari kostur.
Tillaga að málamiðlun
En bíðum við. Það er til önnur leið, sem ítrekað hefur verið bent á, m.a. í eftirfarandi greinum eftir Guðmund Magnússon og Stefán Má Stefánsson: Aukaaðild Íslands að Myntbandalagi Evrópu? (Morgunblaðið, 7. október 2001), greinaröðin Einmana króna (Vísbending, 2007) og EES og krónan (Morgunblaðið 23. mars 2008). Þar er bent á að þrátt fyrir að þátttaka í ERM II krefjist aðildar að Evrópusambandinu sé ekkert því til fyrirstöðu að Ísland geri tvíhliða samning við Evrópusambandið um samstarf í gjaldeyrismálum í tengslum við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í fyrrnefndum greinum er bent á að ekkert í lögum Evrópusambandis banni slíkt samstarf. Bent er á að fyrirmynd mætti sækja í fyrirrennara ERM II, Peningakerfis Evrópu (e. European Monetary System, EMS), og Evrópska gengissamstarfsins (e. European Exchange Rate Mechanism, ERM). Samstarf þetta hófst árið 1979 og lauk þegar ERM II tók yfir hlutverk þess. Því var ætlað að tryggja innbyrðis stöðugleika á gjaldmiðlum Evrópuþjóðanna.
Tvíhliða samningur við Evrópusambandið gæti orðið grunnur að fyrirkomulagi sem væri hliðstætt gjaldeyrisfyrirkomulagi Dana. Í slíku fyrirkomulagi væri krónunni einungis leyft að sveiflast á mjög þröngu bili gagnvart evru og yrði gengið sameiginlega varið af Seðlabanka Íslands og Seðlabanka Evrópu. Ísland mundi væntanlega þurfa að undirgangast kröfur um ábyrga hagstjórn, en það hafa íslensk stjórnvöld þegar gert með lögum um opinber fjármál. Á móti væri gengissveiflum gagnvart okkar stærsta viðskiptasvæði varanlega eytt.
Er málamiðlun raunhæf?
Er slíkur samningur pólitískt raunhæfur? Fyrirfram er ekkert því til fyrirstöðu að láta á það reyna. Bent skal á að öll rök sem studdu gerð EES-samningsins sem og ERM á sínum tíma mundu einnig styðja þetta skref. Hvoru tveggja var ætlað að auðvelda viðskipti innan Evrópu. Markmið EES-samningsins er einkum að tryggja fjórfrelsi og eðlilega samkeppni innan Evrópska efnahagssvæðisins. Aðilar samningsins ættu því að styðja heilshugar skref sem styrkja samninginn og auka virkni hans. Við blasir að stöðugt gengi krónunnar gagnvart evru auðveldar gríðarlega að markmið samningsins náist.
Trúverðugleiki Íslands sem viðsemjanda hefur aldrei verið meiri. Hagstjórn á Íslandi hefur verið mun betri en margra aðildarríkja Evrópusambandsins undanfarinn áratug. Hinn gríðarlegi gjaldeyrisvaraforði Íslands mundi einnig auka mjög trúverðugleika Íslands í samningaviðræðunum og styrkja fyrirkomulagið, yrði það tekið upp.
Til mikils að vinna
Trygging stöðugleika í gjaldeyrismálum yrði stórt framfaraskref sem mundi hafa víðtæk áhrif. Það mundi styrkja samkeppnisstöðu íslenskra útflutningsfyrirtækja. Það mundi opna landið fyrir erlendri fjárfestingu. Það mundi lækka vexti. Það mundi auðvelda samkeppni á mörkuðum þar sem samkeppni er nú erfið, s.s. um bankaþjónustu og tryggingar. Það mundi auðvelda fjárfestum, t.d. lífeyrissjóðum, að dreifa áhættu sinni án þess að taka um leið gjaldeyrisáhættu. Síðast en ekki síst mundi það bæta hag almennra Íslendinga með minni verðbólgu, aukinni samkeppni um framboð á vöru og þjónustu og lægri vöxtum.
Full ástæða er til þess að íslensk stjórnvöld kanni hvort raunhæft sé að gera slíkan samning. Til mikils er að vinna.
Eftir Daða Má Kristófersson og Stefán Má Stefánsson
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 10. október 2020