Til hvers er sparað?

Líf­eyr­is­sparnaður lands­manna er í aðal­atriðum með tvennu móti og ákveðinn með lög­um. Ann­ars veg­ar eru greidd iðgjöld í sam­eign­ar­sjóði sem standa und­ir líf­eyri af ýmsu tagi en eru ekki eig­in­leg eign þess sem greiðir iðgjöld til sjóðsins held­ur skapa til­tek­in rétt­indi. Hins veg­ar er það sér­eign­ar­líf­eyr­is­sparnaður sem gerður er sér­stak­ur samn­ing­ur um og er sér­eign þess sem greiðir iðgjöld. Hafi sér­eign ekki verið tek­in út að hluta eða öllu fell­ur hún til erf­ingja.

Hugs­un­in að baki sér­eign­ar­líf­eyr­is­sparnaði, eins og nafnið bend­ir til, er sú að gefa fólki kost á viðbót­ar­líf­eyr­is­sparnaði til efri ára. Gera þannig eldri borg­ara framtíðar­inn­ar bet­ur í stakk búna og létta eft­ir at­vik­um álag hins op­in­bera af líf­eyr­is­greiðslum. Skatt­greiðslur af þess­um sér­eign­ar­líf­eyri, ásamt vöxt­um, falla ekki til fyrr en við út­tekt, sem get­ur fyrst orðið við 60 ára ald­ur. Frá þess­ari reglu hafa hins veg­ar verið gerðar veiga­mikl­ar und­an­tekn­ing­ar sem vert er að gefa gaum og velta fyr­ir sér hvort séu í sam­ræmi við þær for­send­ur sem voru lagðar til grund­vall­ar í upp­hafi. Hvort þær séu skyn­sam­leg­ar þegar heild­ar­mynd­in er skoðuð.

Frá 1. júlí 2014 hef­ur verið heim­ilt að ráðstafa iðgjaldi sér­eign­ar­sparnaðar til greiðslu á höfuðstól lána vegna öfl­un­ar íbúðar­hús­næðis til eig­in nota. Þá hef­ur frá sama tíma verið heim­ilt að taka út viðbót­ariðgjald sem greitt hef­ur verið til kaupa á fyrstu íbúð. Þess­ar út­tekt­ir eru skatt­frjáls­ar. Loks var gert heim­ilt að sækja um, á tíma­bil­inu 1. apríl á þessu ári til 31. janú­ar, að taka út allt að 12 millj­ón­ir af sér­eign­ar­líf­eyr­is­sparnaði. Útborg­un get­ur dreifst á allt að 15 mánuði eft­ir fjár­hæðum. Þessi ráðstöf­un er ein af aðgerðum rík­is­stjórn­ar­inn­ar í til­efni kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins. Sam­kvæmt sam­an­tekt Skatts­ins hef­ur þegar verið sótt um út­tekt­ir sem nema um 23,5 millj­örðum króna, en enn eru rúm­ir tveir mánuðir eft­ir af gefn­um um­sókn­ar­fresti. Gera má ráð fyr­ir að þessi upp­hæð eigi eft­ir að hækka nokkuð. Útgreiðslur eru þegar orðnar langt um­fram það sem reiknað var með. Þess­ar greiðslur eru ekki skatt­frjáls­ar og er skatt­ur greidd­ur við út­tekt. Ljóst er að a.m.k. fjórðung­ur renn­ur beint í rík­is­sjóð í formi skatta.

Þetta eru veru­leg­ar fjár­hæðir hvernig sem á það er horft. Óvíst er hver lang­tíma­áhrif af þess­um breyt­ing­um verða. Það er orðið meira en tíma­bært að taka til skoðunar hvaða áhrif þessi þróun hef­ur á stöðu fólks þegar kem­ur að starfs­lok­um, sér­stak­lega þegar und­an­tekn­ing­arn­ar eru metn­ar heild­stætt. Hvaða áhrif þró­un­in haf­ur á skatt­tekj­ur rík­is­sjóðs í nútíð og framtíð, og ekki síst hver áhrif henn­ar eru og verða inn­an bóta­kerfa hins op­in­bera.

Viðreisn mun beita sér fyr­ir því á vett­vangi Alþing­is að þessi þróun verði met­in heild­stætt og hvernig hún sam­ræm­ist upp­haf­leg­um mark­miðum sér­eign­ar­líf­eyr­is­sparnaðar. Ekki má van­meta hversu stórt hags­muna­mál ráðstöf­un­ar­tekj­ur og lífs­skil­yrði fólks á eft­ir­laun­um er hjá þjóð sem stöðugt eld­ist.

Sam­hliða á að skoða með hvaða hætti er hægt að búa þannig um hnúta að fólk geti nýtt sparnað til þess að fjár­festa í at­vinnu­rekstri, beint eða óbeint, og hvaða hvat­ar, skatta­leg­ir eða aðrir koma til álita. Þar á einnig líta til þess hvort breyt­ing­ar á regl­um á sér­eign­ar­líf­eyri, ráðstöf­un og skatta­lega meðferð hans komi inn í þá mynd.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. október 2020