28 okt Tökum stór skref inn í bjartari framtíð
Staða sveitarfélaga í dag er snúin. Þau standa misvel en þurfa nú öll að takast á við það stóra verkefni að halda uppi öflugri þjónustu þrátt fyrir efnahagslegt högg í kjölfar heimsfaraldurs. Fjárhagsleg umgjörð sveitarfélaga byggir fyrst og fremst á skatttekjum sem eru um 80% tekna þeirra. Því gefur það augaleið að það er f ljótt að taka í fjárhag sveitarfélaga þegar atvinnuleysi eykst og þörfin fyrir aukna þjónustu vex. Tekjur þeirra dragast hratt saman og útgjöldin aukast. Vissulega eru áhrifin mismikil eftir stöðu og stærð sveitarfélaga.
Mannauðurinn sem aldrei mun hverfa
Störfin sem aldrei munu hverfa, sama hvaða mynd tæknibreytingar taka á sig í samfélagi manna, eru störf bundin við grunnþjónustu sveitarfélaga. Skólakerfið okkar þarf að búa yfir framúrskarandi mannauði á öllum sviðum til þess að undirbúa æskuna fyrir það óþekkta. Framtíðina sjálfa. Félagsþjónustan þarf sömuleiðis að búa yfir mannauði sem getur veitt alla þá fjölbreyttu þjónustu sem þar er undir fyrir fjölskyldur og einstaklinga í ólíkum aðstæðum. Þetta er þjónusta sem hvílir á herðum sveitarfélaga að tryggja. Því skiptir máli að sveitarfélögin geti laðað til sín framúrskarandi starfsfólk til að tryggja framúrskarandi þjónustu fyrir alla.
Stærri skref
Nú er lag og nú er tími fyrir breytingar. Það þarf að taka stór skref til að endurhugsa kerfin okkar í kringum þá þjónustu sem sveitarfélögin veita. Það þarf að endurskoða störfin innan kerfisins og nýta þau betur í þágu bættrar þjónustu. Það þarf að uppfæra þjónustuna til nútíma, rafræns umhverfis sem við tökum langflest þátt í nú þegar. Við vitum þess vegna að það er hægt að einfalda ótrúlegustu þætti í daglegu lífi, sem sparar okkur tíma og jafnvel peninga. Þessa reynslu þarf að yfirfæra yfir á kerfi sveitarfélaganna. Til að það verði að raunveruleika verða sveitarfélögin að taka stærri skref og fjárfesta í innviðum sínum til að mæta þeim aukna þunga í þjónustu sem fram undan er.
Fjárfestum í innviðum til framtíðar
Við, sem þjóð, eigum mikið af einstaklega færum sérfræðingum í tækni og kerfum sem sjá nú fram á samdrátt eins og svo margar aðrar atvinnugreinar. Nýtum þessa auðlind og fjárfestum til framtíðar. Um leið geta sveitarfélögin varið þau mikilvægu störf sem ekkert samfélag verður án. Þannig tryggjum við að opinberum fjármunum sé eins vel varið og kostur er og lágmörkum þá spennu sem myndast, til að mynda við hverja nýja kjarasamninga, með því að vera tilbúin. Með því að taka núna til í kerfum sveitarfélaga munum við spara bæði tíma og mannafla.
Og fyrir lýðræðið
Með stafrænum tæknilausnum getum við gert íbúana ábyrgari fyrir yfirsýn sinna mála hverju sinni. Slíkar lausnir bjóða jafnframt upp á lýðræðislegri umgjörð þar sem íbúar geta hvenær sem er komist inn í sín mál til að fylgja þeim eftir, í stað þess að bíða eftir því að það henti kerfinu að svara. Biðin getur verið bæði dýrmætur tími og fjármunir.
Tekjulind sveitarfélaganna er takmörkuð og því skiptir máli að rýna vel í kerfin sjálf. Hvar eru þau að þjóna tilgangi sínum og hvar er sóun, þar sem peningum væri betur varið í að tryggja besta og færasta fólkið í mikilvæg störf grunnþjónustunnar: inn í skólana, í kennslu, í sérfræðiþjónustu fyrir fjölskyldur eða í umönnun þeirra sem á þurfa að halda.
Nú er lag fyrir sveitarfélög að hugsa til framtíðar og hugsa stórt. Og þar getur ríkisvaldið líka séð tækifærin til að leggja framlengingunni af sjálfu sér liðstyrk með fjármagni og greiðum leiðum, svo að sveitarfélögin geti fjárfest í innviðum til framtíðar.