03 nóv Dagur vonar
Fyrir fjórum árum var litið á forseta Bandaríkjanna sem leiðtoga hins frjálsa heims. Leiðtogi á að vera fyrirmynd, hann eflir virðingu fyrir góðum gildum og gætir þess að stofnanir samfélagsins standi vörð um þau. Trump hefur þvert á móti markvisst dregið úr trausti manna á milli og á stofnunum samfélagsins. Það gera þeir líka sem feta í fótspor hans og gera lítið úr vísindum, tortryggja sífellt hina vönduðustu fjölmiðla og búa til hliðstæðan veruleika með „annars konar staðreyndum“.
Svona fólk er líka til á Íslandi. Búið er til bull um „djúpríkið“ sem vinnur gegn alvöru stjórnmálamönnum eins og Trump, bandalag sem er svo ósýnilegt og leynilegt að þeir sem eru hluti af því hvorki sjá það sjálfir né vita af því.
Alið er á vantrausti í garð „andlitslausra embættismanna“ sem dragi úr valdi kjörinna fulltrúa. Embættismenn eiga einmitt að gæta þess að lögum sé fylgt og að sömu reglur gildi um alla. Þegar menn eins og Trump ná kjöri er einmitt þörf á stofnunum sem geta gripið inn í þegar þeir virða reglur að vettugi. Þar brást stjórnkerfið í Bandaríkjunum, en sem betur fer ekki allir fjölmiðlar.
Sumum þótti lítið til George W. Bush koma því hann væri mikill hægri maður, sem kannski er rétt. Hann varaði við þremur hættum sem steðjuðu að samfélaginu, ólánsþríburarnir: Einangrunarstefna, verndarstefna og þjóðernishyggja. Allt þetta hefur Trump ástundað. Sumir hægri menn á Íslandi telja að þeir eigi að halda með Trump, manni sem er andsnúinn öllum hugsjónum um frjáls viðskipti, alþjóðlega samvinnu og virðingu fyrir jafnrétti. Í raun er hann holdgerfingur sérhagsmuna – fyrst og fremst eiginhagsmuna.
Sú mynd sem hefur stimplast skýrust inn í huga minn um Trump er meðferðin á börnum þeirra sem reyndu að komast inn í Bandaríkin. Forsetinn gaf skipun um að aðskilja þau frá foreldrum sínum. Morgunblaðið flutti fréttir af þessu fyrir tveimur árum: „Börnin, sem meðal annars eru geymd í búrum, gráta og biðja um foreldra sína.“
Þegar einhver vill hrósa Trump, segir að hann tali mannamál og standi við orð sín, hugsum þá um 545 börn sem enn eru í slíkum búðum vegna þess að foreldrar þeirra finnast ekki. Forsetinn sjálfur sagði að „það væri svo vel séð um þessi börn“. Í greininni var sagt frá heimsókn í athvarf í Texas þegar blaðamaður kemur að tveggja ára grátandi stúlku sem liggur á dýnu: „Starfsmaður reynir að færa henni leikföng og bækur og að róa hana niður, án árangurs. Enda mega starfsmennirnir ekki snerta börnin, þeir mega ekki taka litlu stúlkuna upp og reyna að hugga hana.“
Sumir telja að Trump tapi vegna þess að hann hefur reynst skemmdarverkamaður í faraldrinum. Kannski dugir það til, en þá sannast máltækið: Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 3. nóvember 2020