27 nóv Fjárfestum skynsamlega til framtíðar
Fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir árið 2021 er í vinnslu. Fyrri umræðan fór fram á miðvikudaginn en sú seinni fer fram í desember. Það er mikilvægt að við náum að sigla nokkuð klakklaust í gegnum þessa Kórónukreppu og vonandi sjáum við ástandið batna á næsta ári.
Á samdráttartímum er hlutverk sveitarfélaga m.a. að örva atvinnulífið með því að flýta þeim framkvæmdum sem þegar hefur verið ákveðið að fara í. Þar þarf ábatagreining að liggja fyrir áður en framkvæmdir hefjast. Það er mikilvægt að vanda vel til verka og huga að því að framkvæmdir auki ekki á óþarfa rekstrarkostnað til framtíðar. Þannig getum við með markvissum hætti fjárfest til hagsbóta fyrir íbúa Hafnarfjarðar.
Viðreisn hefur lagt fram eftirfarandi tillögur í fjárhagsáætlun Hafnarfjarðar fyrir næsta ár. Þær miða að því að koma í veg fyrir viðvarandi útgjaldaaukningu vegna ástandsins, auka tekjur sveitarfélagsins til framtíðar og að bæta þjónustu við íbúa með aukinni stafrænni þjónustu.
- Fjárfestingar verða að vera mjög hnitmiðaðar. Þær verða skila okkur hagræðingu á útgjaldahliðinni nokkuð fljótt. Dæmi um slíkt væri ákvörðun um að hraða innleiðingu stafrænnar þjónustu sveitarfélagsins og snjallvæðingar.
- Fara verður í fjárfestingar sem munu skila Hafnarfjarðarbæ auknum tekjum. Dæmi um slíkt væri að auka lóðaframboð á markvissan hátt. Stærsti tekjustofn bæjarfélagsins eru útsvarstekjur og vandi sveitarfélagsins undanfarinn áratug má rekja til þess að þessi langstærsti tekjustofn okkar hefur vaxið of hægt. Þessu þarf að breyta strax.
- Fara verður varlega í þær fjárfestingar sem munu auka rekstrarútgjöld bæjarfélagsins. Því er mikilvægt að leggja fram nákvæma áætlun um það hvernig söluandvirði HS Veitna verður varið. Verði það ekki gert aukast líkurnar á því að þessar einskiptistekjur verði meðhöndlaðar eins og lottóvinningur, að farið verði í kosningavæn verkefni sem mun hækka rekstrarkostnað Hafnarfjarðarbæjar verulega til framtíðar.
- Fjárfesta verður markvisst í félagsauði. Það er mikilvægt að við fjárfestum í unga fólkinu sem við sjáum að ráða ekki við ástandið. Snemmtæk íhlutun og stuðningur margborgar sig. Áfram verkefnið er vettvangur sem hefur sannað gildi sitt og beina þarf fjárfestingu þangað. Einnig er ljóst að Hamarinn unglingahús hefur bjargað mörgu ungmenninu, fjárfestum í mannauði okkar.
- Okkur ber skylda að passa upp á eldri borgara okkar og sjá til þess að félagsleg einangrun sé rofin.
- Fjárfesting í göngu-, hjóla og hlaupastígum er fjárfesting í heilsu bæjarbúa. Nú, þegar eina hreyfing fjölmargra bæjarbúa, hefur færst út á stígana er mikilvægt að halda þeim vel við og fjölga þeim til muna. Heilsubærinn Hafnarfjörður verður að standa undir nafni.
Auðvitað viljum við gera miklu meira. Við vonum að vel verði tekið í hugmyndir okkar Viðreisnarfólks.
Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar