30 nóv Skrúfurnar losna nú hver af annarri
Ein af fjölmörgum tillögum Viðreisnar til að bæta stjórnkerfi fiskveiða miðar að því að loka smugu í gildandi lögum til að koma í veg fyrir að útgerðir geti sniðgengið það ákvæði laganna að engin útgerð ráði yfir meir en 12% af heildaraflanum. Við höfum lagt fram frumvarp þess eðlis en stjórnarflokkarnir og bakhjarlar þeirra hafa hins vegar tryggt að það fái ekki afgreiðslu á þingi.
Við höfum verið sannfærð um að breyting af þessu tagi gæti stuðlað að meira gegnsæi og aukinni sátt um kerfi, sem reynst hefur þjóðhagslega hagkvæmt. En við höfum mætt harðri andstöðu þingmanna Sjálfstæðisflokksins og VG og setið undir stóryrðum og háðsglósum þeirra í hvert sinn, sem hugmyndir um lagfæringar hafa verið nefndar á nafn.
Nú bregður svo við að leiðtogi sjálfstæðismanna á Suðurlandi, Páll Magnússon, hefur flutt frumvarp, sem miðar að því að koma í veg fyrir að 12% hámarksreglan verði sniðgengin. Og Páll staðhæfir að margir þingmenn flokksins fylgi honum að máli.
Við fögnum nýjum liðsmanni. Og Viðreisn er sannarlega tilbúin til að greiða fyrir slíkri lagabreytingu fyrir kosningar.
Á þessu kjörtímabili hafa VG og Sjálfstæðisflokkurinn verið skrúfaðir saman gegn hugmyndum um minnstu breytingar og lagfæringar á stjórnkerfi fiskveiða. En frumvarp Páls Magnússonar er merkilegt af því að það sýnir að farið er að losna um skrúfurnar.
Í janúar skrifaði Karen Elísabet Halldórsdóttir bæjarfulltrúi í Kópavogi og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins grein í Morgunblaðið þar sem hún sagði að hinn almenni sjálfstæðismaður vildi sjá skref í þá átt að fjölga tækifærum nýrra og smærri útgerða með endurskoðun á kerfinu.
Í október skrifaði Gunnar Birgisson fyrrum alþingismaður Sjálfstæðisflokksins og bæjarstjóri bæði í Kópavogi og á Siglufirði grein í Morgunblaðið. Þar talaði hann um nauðsyn breytinga til að skiptingin yrði sanngjarnari fyrir ríkissjóð.
Jón Gunnarsson alþingismaður og fyrrum samgönguráðherra hefur einnig reifað tillögur um uppboð á aflaheimildum.
Skrúfurnar um varðstöðuna fyrir óbreyttu ástandi í sjávarútvegsmálum losna þannig hver af annarri í Sjálfstæðisflokknum. Það er vel. Nú er bara spurning hvenær skrúfurnar fara að losna í VG.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. nóvember 2020