24 nóv Þversögn
Alþýðusambandið hefur áhyggjur af aukinni verðbólgu. Það leiddi hugann að þeirri þversögn að Ísland er eina landið í Evrópu um þessar mundir sem glímir samtímis við kreppu og verðbólgu.
Í öðrum löndum stæðu öll spjót á stjórnendum seðlabanka ef svo öfugsnúin staða kæmi upp í þjóðarbúskap þeirra. En við getum ekki tekið Ásgeir Jónsson á beinið því þetta verður ekki skrifað á hans reikning.
Verðbólgan er ekki að aukast vegna kreppunnar, sem sóttvarnaráðstafanir okkar og annarra þjóða hafa leitt til. Við fáum á okkur meiri skell en aðrar þjóðir vegna krónunnar og þeirra miklu galla sem henni fylgja. Þessi þversögn um verðbólgu í kreppu sýnir einfaldlega grundvallarveikleika í kerfinu. Við sjáum reyndar þversagnirnar víða. Á sama tíma og ríkisstjórnarflokkarnir samþykkja tug milljarða árlegan kostnað við krónuna setja þeir á þessum tímum milljarða niðurskurðarkröfu á Landspítalann. Við megum ekki loka augunum fyrir þeirri brotalöm og það væri ábyrgðarleysi að benda ekki á þessa vankanta. Gjaldmiðillinn er of smár til þess að unnt sé að tryggja nægjanlegan stöðugleika á alþjóðlegum, opnum og frjálsum fjármagnsmarkaði. Og án stöðugleika fær atvinnulífið ekki nauðsynlega viðspyrnu til þess að hlaupa hraðar. Og án stöðugleika bætum við ekki lífskjör heimilanna á ný. Og án stöðugleika verjum við ekki velferðarkerfið.
Frá mínum bæjardyrum séð sýnir þessi þversögn að við megum ekki láta íhaldssemi og fordóma verða að hindrunum á vegi okkar Íslendinga. Viðspyrna efnahagslífsins byggist ekki á nauðsynlegum skammtímaráðstöfunum einum saman. Eftir veiruna þurfum við að horfa til lengri tíma og þora að takast á við kerfisuppfærslur, sem geta hjálpað okkur í því sameiginlega verkefni að sækja fram á ný og skapa meiri verðmæti í stöðugu efnahagsumhverfi.
Á næsta kjörtímabili verður ekkert svigrúm til að dæla út peningum. Við þurfum að segja fólkinu í landinu hvernig við ætlum að bregðast við til þess að geta staðið vörð um velferðarkerfið. Það er ný staða, sem kallar á nýjar lausnir.