18 des Að vernda póstinn eða Póstinn
Er það merki um frjálsa og heilbrigða samkeppni þegar fyrirtæki í eigu ríkisins nýtir yfirburðarstöðu sína til undirverðlagningar? Að sjálfsögðu ekki. Sér í lagi þegar staðan er komin til vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að veita umræddu fyrirtæki stuðning upp á hundruð milljóna króna.
Einkaréttur Póstsins á tiltekinni póstþjónustu féll úr gildi um síðustu áramót. Samtímis tók fyrirtækið tímabundið, til eins árs, við hlutverki svonefnds alþjónustuveitanda á grunni samnings við ríkið, sem kaus að fara þá leið í stað þess að bjóða þjónustuna út. Nú hefur samningurinn verið framlengdur til næsta áratugar. Á þeim tímapunkti er rétt að skoða hvernig hafi tekist til síðastliðið ár. Hver voru áhrifin á hag neytenda? Hvernig er farið er með skattfé landsmanna og kannski ekki síst, hvernig tókst stjórnvöldum til við að losa tökin?
Þegar lögin voru afgreidd vorið 2019 var ætlunin að láta gjald fyrir bréf undir 50 gr að þyngd vera hið sama fyrir allt landið. Það var sú þjónusta sem engin samkeppni hafði verið um, enda hafði Pósturinn notið einkaréttar á dreifingunni. Í meðförum meirihluta þingsins bættist hins vegar við sú illa ígrundaða setning að hið sama skyldi ná yfir pakkasendingar allt að 10 kg. Sama verð fyrir allt land. Þar kaus meirihlutinn að líta fram hjá því að heilbrigð samkeppni hafði ríkt á þessum markaði, sérstaklega á landsbyggðinni, þar sem fjöldi smærri vöruflutningafyrirtækja hefur sinnt þjónustu við tiltekin svæði með sóma síðustu ár og áratugi. Til að flækja málin svo enn frekar var líka bundið í þessi sömu lög að gjaldið skyldi taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði.
Til að undirbúa sig undir nýtt starfsumhverfi breytti Pósturinn gjaldskrá sinni í upphafi þessa árs. Fór hann eftir tilmælum um sama gjald á pakkasendingum um land allt, en hunsaði með öllu tilmæli um að gjaldið tæki mið af raunkostnaði. Gjaldið varð hið sama á öllum fjórum skilgreindum markaðssvæðum Póstsins og tók mið af því lægsta, höfuðborgarsvæðinu. Í stað þess að taka til dæmis mið af meðaltalsgjaldi fyrir allt landið hækkaði Pósturinn gjaldið örlítið á höfuðborgarsvæðinu, en lækkaði um tugi prósenta fyrir önnur svæði landsins. Vissulega hefði meðaltalsgjaldið líklega leitt til þess að Pósturinn hefði orðið undir í samkeppninni á höfuðborgarsvæðinu þar sem margir aðrir eru um hituna. En samkeppnin úti á landi hefði lifað áfram góðu lífi.
Heilbrigð samkeppni barin niður …
Ég er sannfærð um að þingmenn sem stóðu að þessum breytingum sáu ekki fyrir þá atburðarás sem fór af stað í kjölfarið. Breytingarnar voru sennilega gerðar af góðum hug, í nafni þjónustu við landsbyggðina. Annað hefur þó komið á daginn. Niðurgreiðslan sem Pósturinn stundar er einfaldlega aðför að starfsemi þeirra fyrirtækja á landsbyggðinni sem hafa boðið upp á sambærilega þjónustu árum saman.
Vöruflutningafyrirtækið Auðbert og Vigfús í Vík í Mýrdal er eitt þeirra fyrirtækja sem hefur orðið illa fyrir barðinu á ríkisstyrktri samkeppni Póstsins. Vigfús Páll Auðbertsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, var ómyrkur í máli þegar hann lýsti því í samtali við mig hvernig fyrirtækið sem hefur séð um dreifingu á pökkum til Víkur og síðan innansveitar í fjöldamörg ár á nú verulega undir högg að sækja vegna undirverðlagningar Póstsins.
Þessi staða er enn grátlegri í ljósi þess að vaxandi verslun landsmanna á netinu ætti, undir eðlilegum kringumstæðum, að leiða til þess að þessi litlu vöruflutningafyrirtæki á landsbyggðinni blómstruðu. Hjá fyrirtæki Vigfúsar Páls í Vík í Mýrdal starfa 8 manns, vörumóttakan í bænum er opin hjá þeim kl. 8-15 virka daga vikunnar og fyrirtækið dreifir daglega vöru í sveitirnar.
Svona fyrirtæki eru víðar, á Hvolsvelli, Grundarfirði og Stykkishólmi, svo dæmi séu tekin. Þessi fyrirtæki heyja nú öll harða baráttu fyrir tilveru sinni í ósanngjarnri samkeppni við ríkisfyrirtæki sem nýtir yfirburðastöðu sína í skjóli óljósrar og óvandaðrar lagasetningar.
Stjórnvöld eru nú að festa þetta kerfi í sessi til næstu 10 ára. Af hverju er þessi þjónusta ekki boðin út? Það er nóg af gamalgrónum smærri vöruflutningafyrirtækjum um allt land sem geta, vilja og hafa sinnt pakkasendingum til þessa. Ef svarið er að stjórnvöld óttist að út af standi einhver svæði sem ekki yrði sinnt, þá er hægt að bregðast við því á sanngjarnari og ódýrari hátt en nú er gert, til dæmis með því að dreifa alþjónustustuðningi á fleiri hendur. Við afgreiðslu nýju póstlaganna, vorið 2019, lagði ég fram breytingartillögu þess efnis að ráðherra gæti boðið út þjónustuna til eins fyrirtækis eða fleiri og að útboðið mætti afmarka við tiltekna landshluta, póstnúmer og/eða tiltekna þætti póstþjónustu. Með mér á breytingartillögunni voru fulltrúar Samfylkingar og Pírata í umhverfis- og samgöngunefnd þingsins. Þessi hugmynd var felld af varðmönnum kerfisins í Sjálfstæðisflokki, VG, Framsókn og Miðflokki. Það er orðið augljóst að sú varðstaða hefur reynst bæði dýrkeypt og skaðleg.
… og tapið sótt í vasa skattgreiðenda
Undirverðlagningin hefur núna bæði skaðað smærri þjónustuveitendur á landsbyggðinni og leitt til verulegs rekstrartaps hjá Póstinum. Það var fyrirsjáanlegt um leið og gjaldskrá Póstsins leit dagsins ljós, enda fékk hann þá fljótlega 250 milljónir kr. sem innborgun upp í alþjónustubyrði ársins 2020. Hvort sá fjórðungur úr milljarði, beint úr vasa skattgreiðenda, dugði til að létta byrðina nægilega eða hvort sækja þarf frekar í fé almennings kemur væntanlega í ljós á allra næstu dögum.
Þessi staða er óboðleg fyrir þá sem hafa lifibrauð sitt af því að bjóða þjónustu og skapa atvinnu um allt land og búa nú við niðurgreidda ríkissamkeppni. Hún er ekki síður óboðleg fyrir skattgreiðendur sem á endanum borga fyrir tapreksturinn af þessari niðurgreiddu ríkissamkeppni.
Það er tímabært að stjórnvöld taki á þessum málum af fullri alvöru. Það er eðlilegt að Samkeppnisyfirvöld skoði stöðuna. Jafnframt þarf að skerpa á lögunum þannig að stjórnvöld séu ekki að bjóða upp á markaðsmisnotkun í skjóli óskýrrar og lítt ígrundaðrar lagasetningar. Hvorki pósturinn né Pósturinn eiga skilið að búa við svona meingallað kerfi. Eitt er alla vega víst, það tapa allir á þessari stöðu.
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar.