16 des Bakslag í jafnréttismálum?
Ísland trónir efst á lista Alþjóðaefnahagsráðsins, World Economic Forum, um kynjajafnrétti. Sá góði árangur sem Ísland státar af náðist ekki bara með tímanum. Við eigum framsækin fæðingarorlofslög, lög um jafnlaunavottun sem og lög um kynjakvóta í stjórnum. Við erum meðvituð um þýðingu þess að dagvistun sé aðgengileg. Í þessu ljósi ættum við að sjá frumvarp um fæðingarorlof sem lengir fæðingarorlof foreldra og tryggir báðum foreldrum sjálfstæðan rétt til orlofs, í þeim tilvikum þar sem tveir foreldrar eru til staðar.
Öll Norðurlöndin hafa fært foreldrum 12 mánaða fæðingarorlof og þessi breyting er þess vegna tímabær. Ísland hefur rekið lestina. Það skiptir sömuleiðis máli að tekjuhámark verði hækkað svo foreldrar verði ekki fyrir miklu tekjufalli við töku fæðingarorlofs. Vitaskuld er í þágu barna að foreldrar þurfi ekki að láta hluta fæðingarorlofs niður falla. Forsenda fæðingarorlofslaganna er að réttur til launa í fæðingarorlofi sé einstaklingsbundinn og nálgunin er að barn, sem á tvo foreldra, eigi rétt til samvista við þá báða á fyrstu mánuðum lífsins. Jafn réttur tryggir hagsmuni barns sem og foreldra.
Þá er grundvallaratriði fyrir jafnrétti á vinnumarkaði að gert sé ráð fyrir að mæður jafnt sem feður hverfi um tíma af vinnumarkaði vegna fæðingarorlofs. Nú eru 20 ár frá því að gildandi lög um fæðingar- og foreldraorlof voru sett. Með þeirri lagasetningu var feðrum í fyrsta sinn tryggður sjálfstæður réttur til fæðingarorlofs. Lögin voru þýðingarmikil réttarbót fyrir karlmenn og fólu í sér viðurkenningu á hlutverki þeirra.
Þegar fæðingarorlofslögin voru sett var litið til Íslands fyrir framsækna jafnréttislöggjöf. Verði sjálfstæður réttur hvors foreldris aðeins 4 mánuðir eins og virðist stefna í en afgangur framseljanlegur er það til þess fallið að stuðla að bakslagi í jafnréttismálum, framkalla þau neikvæðu áhrif að karlar taki styttra fæðingarorlof, veikja hlut kvenna á atvinnumarkaði og skerða rétt barna til samvista við báða foreldra á fyrstu mánuðum ævinnar.