04 des Lítið sjávarþorp, Akureyri og svo Ísland?
Einu sinni spurði Happdrætti Háskólans fólk í auglýsingu hvað það myndi gera við stóra vinninginn. Einn sagðist vilja kaupa lítið sjávarþorp á Vestfjörðum. Svarið ýfði upp reiði hjá sumum sem töldu að þarna væru happdrættið og auglýsingastofan að gera lítið úr Vestfirðingum og þeirra heimabyggð. Aðrir tóku auglýsinguna sem græskulaust grín.
Veltum þessu andartak fyrir okkur. Hve mikið ætli sjávarþorp á Vestfjörðum gæti kostað? Við getum nálgast markaðsvirði allra íbúðarhúsa á Vestfjörðum í opinberum gögnum. Með smávægilegum útreikningum finnum við út að það er nálægt 80 milljörðum króna. Ef við bætum við öllu atvinnuhúsnæði, vélum, bílum, vegum, virkjunum, höfnum og öðrum eignum má tvöfalda þessa tölu fyrir Vestfirði í heild.
Til hvers er allur þessi talnaleikur sem skilar svo háum tölum að fæstir skilja þær vel? Jú, setjum þær í samband við gróða útgerðarmanna undanfarinn áratug. Samkvæmt tölum sem kynntar voru á sjávarútvegsdeginum í haust nam núvirtur hagnaður þeirra rúmlega 480 milljörðum, eða um 50 milljörðum króna á ári. Á sama tíma hafa útgerðarmenn borgað sér liðlega 100 milljarða króna í arð.
Hvað segja þessar tölur okkur? Þær gefa til kynna að á þremur árum nægði afgangur útgerðanna til þess að kaupa alla Vestfirði, hús, vegi og virkjanir. Þetta eru miklir peningar því að þarna búa 2% þjóðarinnar.
Með svipuðum útreikningum má sjá að útgerðarmenn gætu keypt öll íbúðarhús á Akureyri fyrir hagnað átta ára. Þeir græða nefnilega um 130 milljónir króna á dag. Hvern einasta dag. Í tíu ár.
Munum líka að hér erum við að tala um afkomuna eftir að tekið hefur verið tillit til þess að flestar útgerðir hafa endurnýjað skipastól sinn og verksmiðjur á sama tíma.
Nú er ég ekki í hópi þeirra sem telja að gróði sé slæmur. Þvert á móti er gott þegar fólk auðgast á hugviti sínu og dugnaði. Mér finnst kvótakerfið gott, því að það hefur leitt til hagræðingar og skynsamlegri nýtingar fiskistofna. Því fer fjarri að ég hafi horn í síðu starfsmanna útgerðanna eða telji að útgerðarmenn séu óalandi og óferjandi.
Nei, vandinn felst í því að útgerðarmenn eru í einokunaraðstöðu í lokuðu kerfi. Enginn fær að nýta fiskimiðin, sameign þjóðarinnar að lögum, nema tiltekin útgerðarfélög. Enginn unnandi frjálsrar samkeppni ver einokunarhagnað. Eigandi auðlindarinnar, þjóðin sjálf, á að njóta síns eðlilega hlutar af arðinum. Markaðstengt gjald sér um það.
Eftir að greinar mínar um þetta mikla óréttlæti birtast fæ ég stundum símtöl, pósta eða orðsendingar með ónotum í minn garð. Ég ali á öfund og illvilja í garð greinarinnar. Ekkert er fjær sanni. Ég vil einfaldlega að þjóðin fái sinn sanngjarna skerf. Sátt skapast fyrst þegar auðlindagjald ræðst á markaði.
Allt sem við viljum er sanngirni.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. desember 2020