03 des Pólitík og dómstólar
Mikilvægustu atriðin í dómi Yfirnefndar Mannréttindadómstólsins í Landsréttarmálinu eru tvö:
Annars vegar er sú meginniðurstaða Hæstaréttar staðfest með afdráttarlausum rökum að þáverandi dómsmálaráðherra braut íslensk lög við skipan dómaranna.
Hins vegar virðast áhrif dómsins ekki leiða til ógildingar þeirra mála, sem dómararnir umdeildu áttu aðild að. Þetta kemur í veg fyrir réttaróvissu, sem ella blasti við.
Framvirk áhrif
Yfirnefndin hefur greinilega lagt meira upp úr því að senda skýr skilaboð um framtíðina en að valda glundroða í réttarkerfinu. Það er í samræmi við mat Hæstaréttar.
Dómurinn kallar ekki á lagabreytingar. Áhrif hans liggja fremur í því að hér eftir verður túlkun gildandi lagareglna strangari. Sú ábyrgð hvílir bæði á veitingavaldshöfum og dómstólum.
Þetta eru líka skýr skilaboð til annarra landa. Hugsanlega eru það ríkustu áhrifin.
Túlkun lagatexta
Fyrrverandi dómsmálaráðherra telur Mannréttindadómstólinn vera í pólitísku ati gegn sér og Íslandi. Hún telur að dómstóllinn stundi skapandi lögfræði og fari út fyrir það sem menn höfðu í huga þegar texti mannréttindasáttmálans var undirritaður.
Þetta er þekkt álitaefni við túlkun lagatexta. Óumdeilt er að túlkun Mannréttindadómstólsins á texta sáttmálans hefur þróast eins og það alþjóðasamfélag, sem hann nær til. Sumir halda því fram að hann hafi gengið lengra og búið til nýjar réttarreglur. Ekki verður séð að það eigi við í þessu máli.
Lýðræðisleg öfugþróun í Evrópu
Hér þarf líka að hafa í huga að í Evrópu eftir stríð ríkti mikil eining um hvernig tryggja ætti lýðræðislegt réttarkerfi í álfunni. Með uppgangi popúlista er þessi eining ekki til staðar lengur.
Pólland og Ungverjaland liggja nú í hjarta Evrópu. Þar eru valdhafar aðildarríkja sáttmálans að grafa undan sjálfstæði dómstóla og ýmsum öðrum grunnstoðum lýðræðisins. Það eru með öðrum orðum pólitísk átök um hugmyndafræði, sem til skamms tíma hefur verið óumdeild.
Þessi þróun kallar óhjákvæmilega á skýrari kröfur um sjálfstæði dómstóla. Það er þáttur í varðstöðunni um þær hugsjónir sem lágu til grundvallar mannréttindasáttmálanum á sínum tíma.
Íslensk umræða
Enginn íslenskur stjórnmálaflokkur hefur beint varið öfugþróunina í þessum efnum í Póllandi og Ungverjalandi. Það er því auðvelt fyrir Ísland að fylgja ítrustu kröfum um mannréttindi í því alþjóðasamfélagi, sem við tilheyrum.
En hér hefur eigi að síður farið fram umræða, sem endurspeglar að ákveðnu marki breytt viðhorf í þessum efnum í álfunni. Í Sjálfstæðisflokki og Miðflokki, rétt eins og til dæmis í hægri armi breska Íhaldsflokksins, er talað um að aðild að mannréttindasáttmála Evrópu skerði fullveldið. Þau sjónarmið heyrast einnig að rétt sé að aflétta ýmsum gildandi takmörkunum á valdi ráðherra, þar á meðal við skipan dómara.
Tveir ráðherrar dómsmála þurftu, með aðeins fimm ára millibili, að segja af sér af því að þeir virtu ekki valdmörk. Í fyrra tilvikinu var það þó trúlega fremur fyrir óafsakanleg mistök en pólitískan ásetning.
Upplýsingum haldið leyndum
Ráðherrar geta tapað dómsmálum án þess að það þurfi að vera til marks um ámælisverða háttsemi. Í hverju tilviki þarf að skoða hvort þeir hafi vísvitandi eða fyrir stórfellt gáleysi brotið gegn lögum.
Óumdeilt er að ráðherra hafði rétt til að víkja frá áliti dómnefndar. Ákvörðun Sigríðar Andersen fullnægði hins vegar ekki lagaskilyrðum um nægjanlegan rökstuðning. Þegar dómur Hæstaréttar féll kom í ljós að hún hafði fengið aðvörun um það efni frá embættismönnum. Brotalömin var að hafa þau ráð að engu.
Pólitískur trúnaðarbrestur Sigríðar Andersen fólst í því grófa broti á starfsskyldum að halda upplýsingum um athugasemdir embættismanna leyndum fyrir þáverandi ríkisstjórn áður en tillaga hennar var send til Alþingis og að halda þeim síðan leyndum fyrir Alþingi.
Þessi trúnaðarbrestur gagnvart ríkisstjórn og Alþingi kallaði á afsögn. Að réttu lagi hefði forsætisráðherra átt að knýja afsögnina fram strax og hann kom í ljós með dómi Hæstaréttar.