Meira frí – betra líf

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir

Það eru nú tímamót á íslenskum vinnumarkaði. Breytingin sem er að verða með styttingu vinnuvikunnar er svo stór að við höfum ekki sambærileg dæmi frá nálægum tíma. Fyrir hálfri öld var vinnuvikan ákveðin 40 klukkustundir og nú er kominn tími til að taka enn stærra skref að bættu starfsumhverfi og auknu jafnrétti með því að fækka stundum vinnuvikunnar.

Við munum hér sjá umbyltingu, samfélaginu til mikilla bóta. Breytingu sem verður hornsteinn þróunar vinnumarkaðs inn í komandi framtíð. Starfsfólk og vinnuveitendur geta haft gagnkvæman ávinning af bættum vinnutíma og því þurfum við að ræða það hvernig við viljum nýta breytinguna sem best.

Markmiðið er að auka lífsgæði starfsmanna. Reykjavíkurborg hóf tilraunaverkefni um styttingu vinnuvikunnar árið 2015 og mætum við því vel undirbúin til að takast á við þetta áhersluatriði Lífskjarasamninganna. Tilraunaverkefnið sýndi að stytting vinnuvikunnar leiddi til betri andlegrar, líkamlegrar og félagslegrar heilsu starfsfólks. Aukinn frítími hjálpaði til við að skerpa skil milli vinnu og einkalífs og kom fólk endurnærðara til vinnu. Þetta bætir líka mjög starfsumhverfi kvenna sem bera að jafnaði meiri ábyrgð á heimilishaldi en karlar.

Stytting vinnuvikunnar krefst þess líka að breyta vinnustaðamenningu og nýtingu vinnutíma. Því þurfa vinnustaðir að taka samtalið lengra en svo að ræða hvenær er unnið. Það þarf einnig að ræða hvernig er unnið.

Með færri vinnustundum getum við dregið úr umferð, þar sem færri eru að koma til og frá vinnu á sama tíma. Við getum líka dregið úr hraða og streitu í samfélaginu því við höfum þá meiri tíma til að lifa og njóta og sinna okkar nánustu. Með færri vinnustundum getur íslenskt samfélag tekið stór skref í átt að hinum norræna afslappaða lífsstíl. Eftir stendur þá spurningin. Hvernig viljum við nýta fleiri frístundir

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 22. janúar 2021