14 jan Móðir, systir, dóttir, amma og vinkona
Í byrjun árs voru breytingar gerðar á framkvæmd skimana fyrir krabbameinum í kjölfar ákvörðunar heilbrigðisráðherra þess efnis. Fréttirnar komu mörgum á óvart. Landspítala hefur nú verið falin framkvæmd skimana fyrir krabbameinum í brjóstum í samvinnu við Sjúkrahúsið á Akureyri og heilsugæslunni hefur verið falin framkvæmd skimana fyrir krabbameini í leghálsi. Samhliða því að þetta samfélagslega mikilvæga verkefni flyst nú alfarið yfir til hins opinbera voru gerðar breytingar á framkvæmdinni. Aldursviðmiðum var breytt fyrir skimun brjóstakrabbameins og tíðni skimana fyrir leghálskrabbameini minnkuð. Skimun fyrir krabbameini í brjóstum og leghálsi er mikilvæg forvörn sem býðst einkennalausum konum og ég held að það sé óhætt að segja að konur og aðstandendur þeirra séu þakklát fyrir hana.
Algengasta krabbamein kvenna
Viðbrögðin bera með sér að fréttirnar veki kvíða og ugg. Eðlilega, vil ég leyfa mér að segja, enda eru miklir hagsmunir í húfi og röksemdirnar að baki hafa ekki verið kynntar almenningi nema að takmörkuðu leyti. Heilbrigðisstarfsfólk hefur á síðustu dögum líka lýst yfir efasemdum. Ég viðurkenni að mér fundust þessar fréttir óþægilegar. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein sem konur greinast með. Þær tölur þekkjum við öll. Að jafnaði greinast rúmlega 200 konur á ári. Öll gleðjumst við og getum verið stolt af því að 90% kvenna eru á lífi 5 árum eftir greiningu. Hina hliðina þekkjum við líka því miður öll, að margar konur hafa látist vegna brjóstakrabbameins. Mæður, systur og dætur, vinkonur, ömmur, vinnufélagar og grannar. Konur sem greinst hafa með brjóstakrabbamein eru allt um kring. Þess vegna stendur okkur ekki heldur á sama þegar breytingar eru gerðar á aðgengi að skimunum og fyrirkomulagi þeirra. Málið stendur mörgum svo nærri. Það er þess vegna sem svo miklu skiptir að forsendur og röksemdir fylgi og að samtal fái að eiga sér stað um hvort við viljum yfirleitt fara í breytingar á borð við þær að hækka aldursviðmið brjóstaskimunar um heil 10 ár. Og ég viðurkenni að ég er í hópi þeirra sem eru smeyk við þá breytingu.
Tugir yngri kvenna á hverju ári
Hingað til hefur konum á aldrinum 40-69 ára verið boðið í skimun fyrir krabbameini í brjóstum en nú verður konum á aldrinum 50-74 ára boðið í skimun. Konum stendur því til boða að fara í þessa skimun lengur en verið hefur en skimun hefst hins vegar 10 árum seinna. Þá verður skimun fyrir leghálskrabbameini á 5 ára fresti í stað 3 ára, án þess að almenningur heyri rökin að baki. Mér sýnist sem sú breyting að hefja brjóstaskimun ekki fyrr en við 50 ára aldur sé ekki í samræmi við evrópsk tilmæli og fram hefur komið að fagráð um brjóstaskimun hafi mælst til þess að aldursviðmiðið yrði 45 ár. Það eitt vekur spurningar. Hingað til hafa stjórnvöld talið ástæðu til þess að miða við 40 ár og í ljósi þeirra hagsmuna sem eru í húfi þarf þetta samtal að fá að eiga sér stað. Á vef Krafts, stuðningsfélags fyrir ungt fólk með krabbamein og aðstandendur, segir að á árunum 2015-2019 hafi að meðaltali 31 kona á aldrinum 40-49 ára greinst árlega með brjóstakrabbamein. Þar til viðbótar eru þær konur sem greinast með brjóstakrabbamein undir 40 ára aldri. Að jafnaði greinast því einhverjir tugir ungra kvenna með brjóstakrabbamein á ári hverju. Það er því ekki alveg svo að brjóstakrabbamein hjá konum undir 50 ára aldri sé aðferðafræðilegur útlagi eða veruleiki sem við könnumst ekki við.
Forsendur og upplýsingar skortir
Eftir stendur hversu mikilvægt það er fyrir öryggi kvenna og jákvæða upplifun af eftirliti að skimun hefjist fyrr frekar en seinna. Strax af þessari ástæðu er það grundvallarskylda stjórnvalda að útskýra forsendur að baki þessum breytingum en verulega hefur skort á upplýsingar um forsendur og röksemdir, annars vegar hvað varðar breytingar um aldursviðmið og tíðni skimana og hins vegar um flutning þessa verkefnis yfir til heilsugæslunnar og Landspítala. Eðlileg spurning í þessu sambandi er til dæmis hvort heilsugæslan hafi bolmagn til þess að bæta þessum verkefnum við sig? Heilsugæslan er þegar mjög verkefnum hlaðin. Hvað verður um þá fagþekkingu sem byggst hefur upp? Og hvers vegna er þessi leið betri en sú að Sjúkratryggingar semji við fagaðila sem geta veitt viðurkennda þjónustu? Hvers vegna er betra að bæta þessum verkefnum á heilsugæsluna og auka álag á Landspítalann?
Markmiðið hlýtur að vera að eftirlit sé eins og best verður á kosið og að fólk upplifi að svo sé. Forsendur og röksemdir þarf að kynna rækilega þegar svona veigamiklar breytingar eru gerðar. Samtal við almenning verður líka að fá að eiga sér stað og á að snúast um hvernig við getum tryggt skimun, eftirlit og meðferð þannig að við náum besta mögulega árangri. Þetta mál stendur okkur öllum nærri, snertir víða sára taug og getur ekki átt sér stað með þessum hætti að breyting sé kynnt án nokkurs samtals.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 14. janúar 2021