Sísyfos og krónan

Starri Reynisson

Íeinni af fjölmörgum áhugaverðum sögum grískrar goðafræði má lesa um Sísyfos, konung af Kórinþu. Sísyfos var grimmur, gráðugur og undirförull, en með eindæmum gáfaður. Svo gáfaður að honum tókst, í það minnsta um stund, að svíkjast undan dauðanum. Sísyfos var líka ákaflega hrokafullur og drambsamur, en hann leit svo á að hann væri guðunum æðri.

Þegar loksins tókst að koma honum endanlega fyrir kattarnef þótti guðunum við hæfi að refsa honum sérstaklega fyrir hrokann og drambið og dæmdu hann til þess að ýta stórum grjóthnullungi upp bratta fjallshlíð áður en hann færi til Hadesar. Seifur, sem Sísyfos hafði móðgað sérlega illa, sá sér þá leik á borði og lagði bölvun á grjótið þannig að alltaf þegar Sísyfos væri að nálgast fjallstoppinn myndi hnullungurinn renna úr greipum hans og velta aftur niður hlíðina. Sísyfos var því dæmdur til þess að ýta grjótinu upp hlíðina aftur og aftur og aftur til eilífðarnóns. Síendurtekið erfiði sem alltaf endar á sama veg, að öllu leyti tilgangslaust.

Við sem þjóð erum undir sömu bölvun og Sísyfos, íslenska krónan er okkar grjóthnullungur. Í hvert skipti sem krónan hrynur þarf almenningur að taka höggið, ásamt því að leggja á sig þyngstu vinnuna við endurreisn hennar. Mér finnst við ekki eiga þessa bölvun skilið, þó annað megi kannski gilda um Sísyfos. Stóri munurinn er hins vegar sá að engir guðir lögðu þessa bölvun á okkur, heldur gerðum við það sjálf, og það er alfarið undir okkur komið að losa okkur undan henni. Hvernig gerum við það? Með inngöngu í Evrópusambandið og upptöku evru. Þar liggja okkar hagsmunir og þar liggur okkar framtíð.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 19. janúar 2021