10 feb Borgarlína í gullflokki
Borgarlínan getur hæglega orðið eitt af tíu bestu BRT-hraðvagnakerfum í heimi. Að sama skapi, ef við gefum of mikinn afslátt af kröfum, getur Borgarlínan hæglega orðið sá „strætó með varalit“ sem sumir saka hana um að vera.
Samkvæmt skýrslu BRT Plan ráðgjafafyrirtæksins skorar Borgarlínan á bilinu 62-90 stig af 100 á BRT Standard-kvarðanum. Til eru níu kerfi sem skora yfir 85 stig og teljast því vera í „gullflokki“, flest í Suður- og Mið-Ameríku.
Grunnforsenda BRT-kerfa eru sérrýmin. Til að kerfið teljist alvöru BRT-kerfi þarf minnst helmingur leiðarinnar að liggja í sérrými og að í heild að minnsta kosti 3 km. Frumdrög borgarlínu gera ráð fyrir 14 km kafla sem er upp undir 80% í sérrými. Borgarlína uppfyllir því lágmarksviðmiðin og gott betur. Þá er að auki gert ráð fyrir að stærsti hluti leiðarinnar verði á miðjum veginum (ekki sem hliðarakrein) og að stöðvarnar verði upphækkaðar.
Allt þetta er í samræmi við bestu viðmið BRT-kerfa. Á sama tíma heyrist frá helstu efasemdarmönnum að slaka eigi á kröfum: að hætta að taka akreinar og bílastæði undir Borgarlínu á Suðurlandsbrautinni. „Þrengja ekki að annarri umferð,“ eins og sagt er.
Þetta er röng áhersla. Við eigum að stefna upp ekki niður. Að mati BRT Plan þarf meðal annars eftirfarandi til að tryggja að Borgarlínan uppfylli silfurviðmiðin:
- Að Borgarlínan keyri á hreinni orku.
- Að greitt sé fyrir ferðina utan vagnanna.
- Færa stöðvar a.m.k. 26 m frá gatnamótum.
- Fjölga hjólastæðum á stöðvum.
Þessar kröfur kunna að kosta peninga en eru nokkuð óumdeildar. Því ætti það að vera lágmarkskrafa að Borgarlínan uppfylli silfurviðmið BRT Standard staðalsins strax á fyrsta degi.
Til að Borgarlínan uppfylli gullviðmiðin gæti þurft að hækka skorið, til dæmis með því að:
- Fjölga enn frekar sérrýmum, sér í lagi í kringum Tjörnina og á Hverfisgötu.
- Fækka vinstribeygjum yfir sérrými.
- Koma fyrir sjálfvirkum rennihurðum á stöðvunum.
Þessi hlutir eru ekki lagðir til í frumdrögum Borgarlínu og því má reikna með að Borgarlínan nái silfurviðmiðum þegar hún opnar. Vel má vera að sumar af „gulltillögunum“ séu of róttækar nú, til dæmis frekari takmörkun umferðar á Hverfisgötu. En við eigum klárlega að stefna þangað, frekar heldur en að gefa afslátt á fyrirliggjandi drögum í von um „breiðari sátt“ sem skilar okkur mun verri samgöngum.
Höfundur er borgarfulltrúi Viðreisnar og varaformaður skipulags- og samgönguráðs.