16 feb Höfuðhögg í heimabyggð
Stelpan sem hékk höfuðhögg í fótbolta í Fellabæ á Austurlandi þurfti ekki að bíða lengi á biðstofu heilsugæslunnar á Egilsstöðum. Hún kvartaði undan höfuðverk og svima eftir leikinn og þjálfarinn skutlaði henni á heilsugæsluna. Læknirinn þar taldi ástæðu til að kanna nánar hvort blætt hefði inn á heilann, en á heilsugæslunni í höfuðstað Austurlands er ekki aðstaða til bráðagreiningar. Fótboltastelpan unga þurfti því að fara á sjúkrahúsið í Neskaupstað til að komast í sneiðmyndatöku. Þangað eru tæplega 70 km eða um 45 mínútna akstur. Það á reyndar við þegar færð er í lagi. Fólk á Austurlandi getur hins vegar fengið höfuðáverka allan ársins hring, líka þegar það er erfið vetrarfærð og jafnvel ófærð.
Fótboltastelpan var heppin. Sneiðmyndatakan leiddi ekki í ljós alvarlegan áverka á heila og sjúkrahúsið í Neskaupstað gat sinnt málinu. Hefði hins vegar komið í ljós að áverkinn af höfuðhögginu væri slíkur að hún þyrfti að komast í sérhæfða bráðaþjónustu þá hefði leiðin legið aftur til Egilsstaða og þaðan með flugi til Reykjavíkur. Þetta ferðalag og tíminn sem það tekur fer sannarlega ekki vel saman við æskilega meðhöndlun bráðatilvika. Og þá er ótalin líðan sjúklinga og aðstandenda þeirra.
Það er ekki einfalt mál í fámennu og dreifbýlu landi að tryggja landsmönnum öllum aðgang að fullkomnustu heilbrigðisþjónustu sem á hverjum tíma eru tök á að veita, eins og stjórnvöldum er skylt að gera samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu. Margt hefur verið gert mjög vel í þeirri viðleitni, annað má gera mun betur.
Framangreind lýsing er því miður langt frá því að vera eina dæmið um hvernig fólk er sett í þá stöðu að þurfa að afsala sér aðgengi að heilbrigðisþjónustu ef það velur sér búsetu á landsbyggðinni. Sér í lagi í höfuðstað Austurlands. Sneiðmyndatækið sem íbúar þar eru að kalla eftir kostar 70 m.kr. Í hinu stóra samhengi er illskiljanlegt að sú fjárfesting standi í yfirvöldum þegar það myndi auka öryggi og lífsgæði íbúanna umtalsvert.
Við vitum öll að samgöngur og aðgengi að grunnþjónustu ráða oft úrslitum þegar fólk velur sér búsetu. Sneiðmyndatæki á heilsugæsluna í höfuðstað Austurlands væri lítið, sanngjarnt og mikilvægt skref í þá átt að auðvelda fólki búsetu á svæðinu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 16. febrúar 2021