12 feb Sérrýmin tryggja betra flæði
Borgarlínan snýst ekki um þvingun heldur val. Öll framtíðarplön gera ráð fyrir að flestir ferðist áfram á bíl en því fleiri sem velja aðra kosti, þeim mun betur mun umferðin ganga. Þetta snýst um skynsemi. Í nágrannalöndum ferðast nemar upp til hópa ekki á eigin bíl í skólann. Hér neyðist ungt fólk oft til þess.
Borgarlínan verður svokallað BRT-kerfi. Í BRT-staðlinum eru sett lágmarksviðmið um að slík kerfi þurfi að hafa 3 km af sérrýmum og að sérrýmin þurfi að vera helmingur allrar leiðarinnar. Fyrsti áfangi Borgarlínu verður 14 km, þar af rúmlega 10 km í sérrými, eða 71% leiðarinnar. Sem er flott.
Mestu munar þar um 5 km kafla frá Ártúnshöfða og niður að Hlemmi og 3 km kafla í Vatnsmýri og yfir Fossvoginn. Á tveimur köflum, á Hverfisgötu og á Borgarholtsbraut, er gert ráð fyrir sérrými í aðra áttina en blandaðri umferð í hina. Þá gera fyrstu áætlanir ráð fyrir að Borgarlínan keyri í kringum Tjörnina í blandaðri umferð.
Meðfram Borgarlínunni verða breiðir hjólastígar. Hjólasamgöngur á höfuðborgarsvæðinu munu stórbatna. Göturnar sjálfar hætta að vera eins og stórfljót og verða í staðinn að borgarvænum breiðstrætum. Það verður allt annað fyrir gangandi að fara yfir slíkar götur en nú er.
Frumdrög að Borgarlínu hafa nú verið birt. Hægt er að skoða þau á borgarlinan.is og senda inn athugasemdir. Í vinnunni fram undan er mikilvægt að standa vörð um sérrýmin. Ef þeim er fækkað verður ávinningurinn enginn og umferðin batnar ekki. Það ætti raunar að fjölga sérrýmunum ef eitthvað er.
Að lokum: Af umræðunni að dæma mætti stundum halda að hægt sé að gera brautir fyrir Borgarlínu án þess að nokkurt einasta bílastæði eða götubútur þurfi að víkja. Það er auðvitað ekki þannig. Borgin mun breytast. En í því felast bara tækifæri. Tökum þeim fagnandi.