Takmörkun á valdi Alþingis

Þorsteinn Pálsson

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um Hálendisþjóðgarð skilgreinir hálendi Íslands sem náttúruauðlind í þjóðareign. Umhverfisráðherra og varaformaður VG hefur í opinberri umræðu um málið lýst því að með nýjum lagareglum verði unnt að stórauka verðmætasköpun ferðaþjónustu á hálendinu.

Þingmenn stjórnarflokkanna hafa deilt um flest ákvæði frumvarpsins. Þær deilur eru ekki umfjöllunarefni í þessari grein. Aftur á móti vekur það athygli mína að eitt ákvæði frumvarpsins virðist vera algjörlega óumdeilt.

Frumvarpið geymir leikreglur um þá atvinnustarfsemi, sem fyrirheit varaformanns VG um aukna verðmætasköpun byggist á. Þar er skorinort sagt að óheimilt sé að reka atvinnustarfsemi í Hálendisþjóðgarði án þess að gerður sé tímabundinn samningur um slíka starfsemi.

Meginreglan

Nú kann einhver að spyrja hvers vegna í ósköpunum samstaða um ákvæði af þessu tagi veki athygli. Tímabinding réttinda er meginregla þegar stjórnvöld úthluta takmörkuðum gæðum til einstaklinga eða félaga þeirra til hagnýtingar á náttúruauðlindum í þjóðareign. Ella er þjóðareignin óvirk.

Mest öll orkuframleiðsla í landinu er á höndum ríkis eða sveitarfélaga. En orkulög heimila þó sveitarfélögum að framselja einkaleyfi til að starfrækja hitaveitu um ákveðið tímabil í senn.

Í lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu er ákvæði um tímabundin leyfi til allt að 65 ára. Í lögum um fiskeldi er mælt fyrir um rekstrarleyfi til 16 ára.

Í öllum lýðræðisríkjum gildir þessi sama aðalregla að nýtingarréttur takmarkaðra auðlinda í þjóðareign er tímabundinn.

VG hafnar meginreglu í stjórnarskrá

Þetta ákvæði fangar sem sagt ekki athygli fyrir þá sök að vera í fullkomnu samræmi við ríkjandi hugmyndir um úrlausnarefni af þessu tagi. Það er áhugavert vegna þess að á sama tíma flytur formaður VG tillögu um auðlindaákvæði í stjórnarskrá þar sem því er með öllu hafnað að gera þessa grundvallarreglu algilda í íslenskum rétti.

Ástæðan er sú að VG telur nauðsynlegt að Alþingi hafi svigrúm til þess að viðhalda sérreglu um nýtingu sjávarauðlinda í almennum lögum.

Eftir þriggja ára umfjöllun hefur formaður Sjálfstæðisflokksins ekki gefið upp hvort flokkur hans styður tillögu formanns VG. Hann hefur hins vegar sagt að þjóðareignarhugtakið hafi ekki mikla þýðingu að því leyti að samþykkt tillögunnar breyti í engu ríkjandi ástandi eins og fram komi í greinargerð með frumvarpinu.

Vilja halda möguleika á mismunun

Fjórir flokkar í stjórnarandstöðu hafa lagt fram tvær breytingatillögur við auðlindaákvæðið. Þær eru misumfangsmiklar en eiga það sameiginlegt að tímabundin nýting náttúruauðlinda verði algild regla.

Formenn stjórnarflokkanna hafna þeim báðum. Þeir gera það ekki með þeim rökum að tímabinding sé óskynsamleg.

Það myndi stangast á við tillögu þeirra sjálfra um tímabindingu atvinnuleyfa í náttúruauðlind hálendisins. Auk þess var tímabinding nýtingarréttar í sjávarútvegi prinsippmál VG og Framsóknar fyrir myndun núverandi ríkisstjórnar.

Sameiginleg rök formanna stjórnarflokkanna eru þau að tillögurnar séu óþarfar af því að þessu megi breyta með almennum lögum.

Valdatakmörkun hindrar mismunun

Hér komum við að kjarna málsins. Hann snýst um hlutverk stjórnskipunarreglna. Eitt meginhlutverk þeirra er að takmarka og tempra vald Alþingis, ríkisstjórnar og dómstóla. Tilgangurinn með stjórnarskrárbundnum takmörkunum á valdi Alþingis er einatt sá að tryggja jafna stöðu borgaranna og koma í veg fyrir hvers kyns mismunun.

Engin rök hafa verið færð fram fyrir því að nýting sjávarauðlinda sé svo afbrigðileg að víkja þurfi frá meginreglunni um tímabundinn nýtingarrétt til að tryggja arðsemi. Varðstaðan um ótímabundinn nýtingarrétt er því varðstaða um sérhagsmuni.

Deilan um tillögu formanns VG að auðlindaákvæði snýst um það hvort vald Alþings til sérhagsmunagæslu á þessu sviði á að vera ótakmarkað. Hún snýst ekki um fiskveiðistjórnun eða upphæð auðlindagjalds. Einungis um hitt hvort Alþingi hafi stjórnskipulegt svigrúm til að ákveða mismunandi grundvallarreglur um nýtingu náttúruauðlinda.

Til þess að auðlindaákvæði í stjórnarskrá verði virkt þarf það að takmarka vald Alþingis til mismununar eins og á svo mörgum öðrum sviðum. Það er málið.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 11. febrúar 2021