06 mar Leyfum heiminum að endurnærast í Reykjavík
Keflavíkurflugvöllur hefur verið nánast lokaður í heilt ár, með tilheyrandi áhrifum á efnahagslíf þjóðarinnar og atvinnuleysi. Á þessum tíma hafa Íslendingar verið duglegir að ferðast, eins og sást um allt land síðasta sumar. Eins hafa íslenskir vetraráfangastaðir verið vinsælir og skíðasvæði full.
Nú er hins vegar kominn tími til að huga að opnun landsins í kjölfar fjölda bólusetninga um heim allan. Þar bíða óþreyjufullir erlendir gestir, fullir af þrá til að upplifa eitthvað nýtt eða heimsækja aftur sína uppáhaldsstaði. Rétt eins draumur um utanlandsferðir er farinn að kitla okkur.
Borgarráð styður við ferðaþjónustuna
Á fundi borgarráðs á fimmtudaginn fjölluðum við um tvö mál sem snúa að því að styðja ferðaþjónustuna til fyrri styrkleika og vinna saman með fólkinu sem vinnur við ferðaþjónustu til að bjóða upp á spennandi áfangastað til að endurnærast, tengjast aftur og upplifa.
Annars vegar var kynning á nýju markaðsátaki, sem er ein af Covid-aðgerðum borgarinnar, þ.e að kynna Reykjavík sem ferðamannastað og verja til þess að lágmarki 150 m.kr. Síðasta sumar var átakinu beint að Íslendingum sem voru hvattir til að sækja Reykjavík heim. Nú virðist sem rétti tíminn sé að koma til að beina átaki að erlendum gestum. Markaðsátakið hefur verið í undirbúningi undanfarna mánuði í samvinnu við Íslandsstofu og aðila innan ferðaþjónustunnar.
Áfangastaðurinn Reykjavík
Hins vegar fjölluðum við um þá hugmynd að stofna nýja áfangastaða- og markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins fyrir höfuðborgarsvæðið allt sem á að taka til starfa nú um mitt ár. Við vitum að erlendir gestir gera ekki greinarmun á því innan hvaða sveitarfélags þeir eru þegar þeir koma til landsins, ekki frekar en við þegar við fljúgum til Helsinki eða London. Gestir sem koma til landsins fljúga til Reykjavíkur en lenda í Keflavík. Þeir fara í Smáralind, heimsækja víkinga eða skoða hvar nóbelsskáldið bjó og hvar forsetinn býr án þess að gera sér grein fyrir nokkrum hreppamörkum.
Þess vegna er það skynsamlegt fyrir sveitarfélögin hér að taka höndum saman í uppbyggingu höfuðborgarsvæðisins sem ferðamannastaðar og markaðssetningu í samstarfi við ferðaþjónustuna. Sjálfstæðan áfangastað, sem hefur upp á margt að bjóða, bæði fyrir gesti og heimamenn í stað þess að vera lendingarstaður á leið í náttúru Íslands.
Samstarf við alla hagaðila
Á höfuðborgarsvæðinu eru mörg stærstu og öflugustu ferðaþjónustufyrirtækin sem hafa mikla möguleika á að eflast enn frekar þegar heimurinn fer aftur á flug. Því er mikilvægt að áfangastaðastofa höfuðborgarsvæðisins verði í samstarfi við alla hagaðila. Þar munu koma að öll sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og fylgja þar eftir sóknaráætlun 2020-2024. Í samstarfinu verða einnig Ferðamálasamtök höfuðborgarsvæðisins, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök verslunar og þjónusta, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Ferðamálastofa.
Öflug ferðaþjónusta upp úr kófinu
Vinna við undirbúning áfangastaðastofu, athugun á áhuga sveitarfélaga og hagaðila í ferðaiðnaði hófst síðastliðið haust, í kjölfar þess að við samþykktum ferðamálastefnu Reykjavíkurborgar. Stofnun áfangastaðastofu höfuðborgarsvæðisins er sameiginlegt verkefni sem nú er komið í sóknaráætlun samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Samtökin munu fylgja því eftir og sjá til þess að öll sveitarfélögin hafi jafna aðkomu að því starfi. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar allra hér á svæðinu að öflug ferðaþjónusta rísi upp úr kófinu og að fleiri erlendir gestir muni uppgötva að hér er náttúruvænt og grænt borgarumhverfi þar sem menning, sköpun og mannlíf þrífst á höfuðborgarsvæðinu öllu.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. mars 2021