09 mar Nám barna við einstaka náttúru
Hjallastefnunni var á síðasta borgarráðsfundi veitt vilyrði fyrir lóð til að byggja upp skóla við Perluna í Öskjuhlíðinni. Hjalli hefur rekið Barnaskólann í Reykjavík og leikskólann Öskju við Hlíðarfót frá árinu 2009 við mikla ánægju foreldra.
Skólar Hjalla hafa verið á tímabundinni lóð. Því var brýnt að finna skólunum nýja, varanlega lóð og eyða þannig óvissu foreldra, barna og starfsmanna. Vilyrðið er háð því að á lóðinni megi einungis rísa húsnæði til skólareksturs. Við erum líka meðvituð um að Öskjuhlíðin er mikilvægt útivistarsvæði fyrir okkur öll. Sú lóð sem hér um ræðir er við bílastæði Perlunnar og því vel tengd gatnagerð. Skólahúsnæðið sem þarna getur risið verður áfram í nálægð við einstaka náttúru en skerðir hana ekki.
Viðreisn hefur ætíð talað fyrir mikilvægi þess að foreldrar hafi frelsi til að velja það sem er best fyrir börnin sín. Börn hafa ólíka styrkleika og ólíkar þarfir, sem einungis er hægt að mæta með því að bjóða upp á fjölbreytta skóla. Þannig tryggjum við bestu menntunina og þjónustuna fyrir alla. Í Reykjavík eru í dag starfandi 6 sjálfstæðir grunnskólar og 17 sjálfstæðir leikskólar sem foreldrar hafa val um að skrá börnin sín í. Að auki hafa foreldrar val um að sækja um skóla fyrir börn sín hvar sem er í borginni.
Á þessu kjörtímabili hefur meirihlutinn í Reykjavík samið við sjálfstæða skóla um aukið framlag vegna frístundastarfs, um pláss fyrir reykvísk börn í nýjum sjálfstæðum skóla fyrir börn með sérþarfir og um pláss fyrir fleiri börn á leikskólum. Á sama tíma höfum við samþykkt metnaðarfulla menntastefnu fyrir alla skóla í Reykjavík, fjölgað leikskólum Reykjavíkur og samþykkt áætlun um að efla íslenskukennslu barna sem hafa annað móðurmál en íslensku.
Menntun allra barna í Reykjavík, sama hvaða skóla foreldrar kjósa, á að veita börnum tækifæri til að þroska sína hæfileika og öðlast hæfni til að móta sér farsælt líf.