20 mar Silkislaufa um tóman kassa
Ég hef sjaldan verið jafn sammála Katrínu Jakobsdóttur og þegar ég las þessa setningu í grein hennar í Morgunblaðinu í fyrri viku um auðlindaákvæðið: „Nú er tækifæri til raunverulegra breytinga ef við leyfum þeim ekki að ráða sem líður svo vel í gömlum skotgröfum að þeir mega ekki hugsa sér að málið leysist.“
Þetta er einmitt kjarni málsins. Í fyrsta lagi er kominn tími á raunverulegar breytingar. Og í öðru lagi er kominn tími á ljúka skotgrafahernaðinum.
Ástæðan fyrir gagnrýni minni á auðlindaákvæðið er sú að það rímar ekki við þessi orð forsætisráðherra.
Framlag til sátta
Í umræðum formanna flokkanna undanfarin þrjú ár hef ég lagt mig alla fram við ná sáttum.
Þegar lagt var af stað með þetta verkefni um heildarendurskoðun stjórnarskrár lofaði forsætisráðherra að nýtt ákvæði um framsal valdheimilda í alþjóðasamstarfi, og rétt þjóðarinnar til að taka þær ákvarðanir, yrði hluti breytinganna í fyrsta áfanga.
Þetta loforð var ein af forsendunum fyrir því að ég féllst á málsmeðferðina. Þegar í ljós kom að forsætisráðherra ætlaði ekki að standa við þetta loforð tók ég samt þá ákvörðun að láta það ekki trufla mig.
Í upphafi stóð til að flytja aðskilin frumvörp um einstaka efnisþætti. Ég bauðst til að styðja þau öll nema auðlindaákvæðið. Því boði var hafnað. Þó að ég hefði ýmsar athugasemdir um hin frumvörpin ákvað ég eigi að síður að leggja mitt af mörkum til sátta.
Ég hef ekki enn séð formann VG leggja sitt af mörkum í þeim tilgangi.
Spurning um afnám sérreglu
Auðlindaákvæðið er eitt af stærstu prinsippmálum samfélagsins. Leyfi til nýtingar á sameiginlegum auðlindum eru í öllum tilvikum, nema í sjávarútvegi, bundin við tiltekinn tíma. Eina sérreglan í almennum lögum er ótímabundinn nýtingarréttur fiskistofna. Hin almenna regla er því og hefur verið sú að verja auðlindir með því að tímabinda nýtingu.
Eina leiðin til að eyða þeirri mismunun og tryggja réttlæti er að festa almennu regluna í stjórnarskrá. Ástæðan er sú að kjósendur eiga óbeina aðkomu að setningu stjórnskipunarreglna því þær þarf að staðfesta á nýju þingi að undangengnum kosningum.
Ríkisstjórnin hefur ríflegan meirihluta fyrir auðlindaákvæði formanns VG. Stjórnarandstaðan ræður engu um það. Kjósendur ráða svo hvort hún fær umboð til að staðfesta það óbreytt að kosningum loknum.
Vitnisburður um áhrifaleysi tillögunnar
Enginn hefur með jafn skýrum hætti og Katrín Jakobsdóttir sjálf sýnt fram á að í tillögu hennar að auðlindaákvæði felast engar efnislegar breytingar. Í greinargerð með frumvarpi hennar segir:
„Tekið skal fram að verði frumvarpið að stjórnskipunarlögum raskar ákvæðið ekki sjálfkrafa réttindum sem kunna að felast í nýtingarheimildum sem þegar hefur verið stofnað til gagnvart auðlindum og landsréttindum í eigu ríkisins eða í þjóðareign.“
Með gleggri og ákveðnari hætti er ekki unnt að lýsa því að tillagan felur ekki í sér að tækifærið hafi verið nýtt til raunverulegra breytinga. Og hér eru enn afdráttarlausari orð:
„Að því er varðar fiskveiðistjórnarkerfið felur frumvarpið í sér áréttingu þess fyrirvara sem 3. málsl. 1. mgr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006, hefur að geyma og felur því ekki í sér sjálfkrafa breytingu á stöðu úthlutaðra aflaheimilda.“
Gamalt vín á nýjum belgjum
Til viðbótar má nefna að fyrir meira en tuttugu árum komst Hæstiréttur í svokölluðum Vatneyrardómi að þeirri niðurstöðu „að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar“ með vísun í 1. grein fiskveiðistjórnarlaganna.
Í óbreyttu auðlindaákvæði felast því engin nýmæli. Það raskar ekki þeirri sérreglu að þeir sem hafa einkarétt á nýtingu Íslandsmiða eru og verða einir undanþegnir meginreglunni um tímabundinn afnotarétt. Alveg eins og SFS og Sjálfstæðisflokkurinn vilja hafa það.
Það má tímabinda veiðiréttinn. Það er bara ekki gert í almennum lögum og gerist ekki heldur með stjórnarskrártillögu Katrínar Jakobsdóttur. Hún er gamalt vín á nýjum belgjum.
Minnist ekki á málamiðlun Viðreisnar
Katrín bendir á umsagnir Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, Verslunarráðs, Samtaka atvinnulífsins, Stjórnarskrárfélagsins og Þorvaldar Gylfasonar til marks um fólk, sem hefur svo mikla ánægju af skotgrafahernaði, að það vilji engu breyta.
Þögn Katrínar Jakobsdóttur um málamiðlunartillögu Viðreisnar er hins vegar athyglisverð. Ég hef ekki viljað blanda deilum um upphæð auðlindagjalda eða aðferðafræði við fiskveiðistjórnun inn í efnislega umræðu um auðlindaákvæðið. Ég ætla ekki að skilgreina tillögur stjórnlagaráðs sem skotgrafahernað. En þær ganga vissulega það langt að samþykkt þeirra gæti raskað þjóðhagslegri hagkvæmni veiðanna.
Hagsmunasamtök útgerðanna eru andvíg öllum breytingum. En í umsögnum sínum halda þau því hvergi fram að tillagan leiði til breytinga. Hitt er rétt að þau vilja stoppa þá umræðu, sem áhrifalaus tillaga hefur vakið. Það er gömul saga og ný.
Viðreisn vill varðveita þjóðhagslega hagkvæmni fiskveiðistjórnarkerfisins. En um leið viljum við tryggja réttlæti. Innan þessara marka felst málamiðlun okkar í því að fallast á tillögu formanns VG með því að skjóta inn einu orði: „Tímabundin.“
Spurning um lýðræði
Þetta mál er um leið spurning um lýðræði. Fyrir síðustu kosningar töluðu sex af átta flokkum, sem fengu kjörna þingmenn, fyrir því að meginreglan um tímabundinn afnotarétt að auðlindum í þjóðareign ætti einnig að ná til fiskveiða. Þessir flokkar fengu tvo þriðju hluta þingsæta.
Ég hef sjálf setið í tveimur ríkisstjórnum og veit að í samstarfi þurfa menn að semja. Þetta er hins vegar í fyrsta skipti sem stjórnarsamstarf bindur hendur stjórnarflokka við breytingar á stjórnarskrá.
Miðflokkurinn, sem getur fallist á auðlindatillöguna, hefur þó varað við því að knýja hana fram í ágreiningi. Sjálfstæðisflokkurinn með fjórðung atkvæða í þinginu er eini flokkurinn, sem hefur það beinlínis á stefnuskrá að viðhalda því ranglæti sem felst í sérreglu útgerða um nýtingu fiskimiðanna. Og fékk til þess umboð í síðustu kosningum.
Í svo stóru prinsippmáli verður skýrum úrslitum síðustu kosninga hins vegar ekki breytt nema með nýrri ákvörðun kjósenda. Þá er unnt að kjósa á milli Sjálfstæðisflokksins og þeirra flokka, sem nú eru tilbúnir að viðhalda sérreglunni, og annarra sem tala fyrir þeirri einföldu breytingu að sama regla gildi fyrir alla.
Annaðhvort er að virða úrslit síðustu kosninga eða leyfa kjósendum að taka nýja ákvörðun. Katrín Jakobsdóttir þarf að gera þetta upp við sig.
Auðlindaákvæði hennar breytir engu. Það er eins og snotur silkislaufa, sem hnýtt er um tóman kassa. Fallegar umbúðir án innihalds.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 20. mars 2021