19 mar Þögla stjórnarskráin
Í umræðum um stjórnarskrá er ýmist talað um gömlu stjórnarskrána eða þá nýju. Nýlegt frumvarp forsætisráðherra er hins vegar þriðji skólinn: þögla stjórnarskráin. Stundum felast sterkustu skilaboðin nefnilega í því sem ekki er sagt. Í þögninni sjálfri. Þannig háttar til um auðlindaákvæði í stjórnarskrárfrumvarpi forsætisráðherra. Ákalli þjóðarinnar um sanngjarna auðlinda pólitík er ekki mætt, því auðlindaákvæðið er þögult um þá þætti sem mesta þýðingu hafa.
Sem grundvallarlöggjöf þjóðarinnar verðskuldar stjórnarskráin að vera föst í sessi og stöðug. Þar eiga að vera skrásettar grundvallarreglur samfélagsins sem öll önnur löggjöf þarf að standast. Til þess að stjórnarskráin geti staðið stöðug þarf hins vegar að ríkja um hana sátt.
Þess vegna verður hún líka að fá að þróast með tímanum. Getur þetta tvennt farið saman? Já, í raun getur hvort án hins verið. Stjórnarskráin verðskuldar þá virðingu að fá að standa þar sem hún getur staðið og um leið að við lagfærum hana og bætum þar sem þess er þörf. Þannig verður hún bæði endingarbetri og sterkari. Það er í mínum huga inntak hennar sem er það sem máli skiptir, en ekki hvort hún er að grunni ný eða gömul.
Lögð hafa verið fram allnokkur frumvörp til stjórnskipunarlaga á Alþingi þar sem gert er ráð fyrir auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Raunar hefur verið unnið að mótun slíks ákvæðis nú nánast óslitið frá 1998. Í því ljósi eru enn meiri vonbrigði að sjá að eðlileg krafa um tímabindingu nýtingarréttar sé virt að vettugi í frumvarpi forsætisráðherra. Þessari kröfu er mætt með þögninni. Veiting heimilda er ekki tímabundin í frumvarpinu heldur segir aðeins um þetta atriði að það skuli grundvallast á lögum. Þetta atriði er það sem öllu máli skiptir í hinu pólitíska samhengi. Og þar eru vonbrigðin mest.
Tímabundnir samningar
Hafi markmiðið verið að tryggja rétt almennings umfram það sem fiskveiðistjórnunarlöggjöfin okkar gerir nú þá hefur sú niðurstaða ekki verið tryggð með skýrum hætti. Til þess að ná fram efnislegri breytingu hefði átt að bæta því við að um tímabundin réttindi sé að ræða. Þannig væri í reynd komið í veg fyrir að um varanlegan rétt sé að ræða, því með því skapast sú krafa á löggjafann að lagasetning verði að fela í sér tímabundna samninga. Með því yrði stjórnarskráin skýr um að það sé ekki heimilt fyrir löggjafann eða framkvæmdarvaldið að afhenda auðlindir nema með tímabundnum samningum.Tímabinding réttinda er meginregla þegar stjórnvöld úthluta takmörkuðum gæðum til einstaklinga eða félaga þeirra til hagnýtingar á náttúruauðlindum í þjóðareign. Það á við um heimild sveitarfélaga til að selja einkaleyfi til að starfrækja hitaveitu, rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu, rekstrarleyfi til fiskeldis og svo mætti lengi telja. Nýtt auðlindaákvæði myndi því vera á skjön við lagasetningu um flestar aðrar auðlindir. Hvers vegna er það svo? Er það gert til að tryggja að ekki verði í reynd breyting á reglum í lögum um nýtingu sjávarauðlinda?
Meginreglur um auðlindir
Rík þörf er á að fjalla um auðlindir í stjórnarskrá og mæla þar fyrir um vissar meginreglur sem stjórnvöld og löggjafinn verða að hafa í heiðri við reglusetningu og umsjón auðlindanýtingar til frambúðar. Formaður Viðreisnar hefur lagt fram breytingartillögu við frumvarpið með tveimur einföldum en þýðingarmiklum breytingum. Þar er lagt til að heimildir verði tímabundnar annars vegar og hins vegar að með lögum skuli kveða á um eðlilegt endurgjald fyrir tímabundnar heimildir til nýtingar í ábataskyni.Eftir áralanga vinnu og yfirferð virðist niðurstaðan hafa orðið sú af hálfu ríkisstjórnarflokkanna þriggja að leggja fram áferðarfallegt en fremur opið ákvæði sem skilar ekki skýrlega þeirri niðurstöðu sem að var stefnt og ákall hefur verið um. Sé ætlunin að ná fram breytingum þá er óskandi að meirihlutinn á Alþingi beri gæfu til að gera það með skýrum hætti. Að öðrum kosti verður afleiðingin hæglega sú að sjávarauðlindin verður áfram í eigu og á forræði hinna fáu en ekki á forsendum þjóðarinnar. Eftir stendur að það sem kallað hefur verið eftir – það er bara því miður ekki í því ákvæði sem forsætisráðherra hefur nú lagt til.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 19. mars 2021