17 apr ESB-trú, trúarhiti og ofsatrú
Með sannfæringarkrafti skrifar vinur minn Guðni Ágústsson í Morgunblaðið 15. apríl í tilefni hugleiðinga, sem ég setti fram á dögunum, um það sem líkt væri með miðjumoði Evrópusambandsins og samvinnuhugsjóninni.
Guðni telur að samlíking þessi beri vott um ESB-trú, trúarhita og ofsatrú. Þessum nafngiftum er ugglaust ætlað að draga úr gildi hugleiðinga minna. Ég læt það liggja milli hluta en gengst við því að skrifa ekki annað en það sem ég hef trú á að sé gagnlegt fyrir þjóðina.
Fyrsta röksemd
Fyrsta röksemd Guðna er byggð á því að samlíkingin standist ekki skoðun vegna þess að SÍS og kaupfélögin hafi orðið að öfugsnúnum risum, sem hafi riðlast og fallið um sjálfa sig. Ég ætla ekki að andmæla því og vel má vera að að því komi að Evrópusambandið leysist upp þó að það blasi ekki við í dag.
En spurningin, sem Guðni þarf að svara, er þessi: Féll samvinnuhugsjónin með SÍS?
Ég var ekki að segja annað en að Evrópusambandið væri miðjubandalag, sem byggði á málamiðlunum milli markaðshyggju og félagshyggju.
Ég hef þá trú að það sé skynsamleg hófsöm pólitík og að samvinna þjóða á þeim grundvelli hafi reynst farsæl.
Önnur röksemd
Önnur röksemd Guðna gegn alþjóðlegu miðjusamstarfi er sú ákvörðun Breta að ganga úr Evrópusambandinu. Það er kórrétt hjá Guðna að meginröksemdin fyrir útgöngu var sú að Bretland ætti að nýta afl sitt sem fimmta stærsta efnahagsveldi í heimi til að hafa betur í tvíhliða samningum við minni þjóðir.
Við finnum fyrir því. Bretland er ekki jafn opið fyrir Íslendinga og áður. Breskir sjómenn og bændur eiga nú erfiðara um vik að selja vörur á Evrópumarkað vegna aukins skrifræðis. Þó að Guðni líti á það sem aukið frelsi sér maður á ummælum bænda og sjómanna að þeir upplifa þessa breytingu á annan veg.
Bretar eiga sameiginlega fiskistofna í Norðursjó með nokkrum Evrópusambandsþjóðum. Samkvæmt Hafréttarsáttmálanum, sem Ísland á aðild að, verða þeir að semja eftir ákveðnum reglum um skiptingu þeirra.
Reglur Evrópusambandsins kveða á um að engin þjóð fær veiðirétt í lögsögu annarrar nema á grundvelli veiðireynslu. Þar af leiðir að engin erlend skip kæmu hingað til veiða við inngöngu í sambandið.
Þriðja röksemd
Þriðja röksemd Guðna er sú fullyrðing að Evrópusambandið sé eitt og EES-samningurinn annað. Innri markaður Evrópusambandsins er kjarninn í starfsemi þess. Sú löggjöf, sem ríki með fulla aðild að Evrópusambandinu setja, án þess að við eigum sæti við borðið, spannar nær öll svið í þjóðarbúskap okkar. Við erum þannig hluti af Evrópusambandinu þó að við séum ekki fullir aðilar. Nær öll efnahagsstarfsemi okkar byggist á þeirri löggjöf.
Frá fyrsta degi hafa verið deilur um það hvort þessi skipan mála stæðist stjórnarskrá. Guðni vill bregðast við því með því að virða þessar sameiginlegu leikreglur að vettugi. Ég vil breyta stjórnarskránni svo að samstarf af þessu tagi sé heimilt án nokkurra tvímæla.
Fullveldið á ekki bara að tryggja frelsi þingmanna. Þeir eiga að nota fullveldið til þess að tryggja einstaklingum og fyrirtækjum þeirra athafnafrelsi á jafnréttisgrundvelli á einu stærsta markaðssvæði heimsins. Þarna greinir okkur á.
Fjórða röksemd
Fjórða röksemd Guðna felst í þeirri fullyrðingu að þjóðin hafi kosið Icesave af sér, ekki einu sinni heldur tvisvar. Þessi deila stóð ekki um skuld Landsbankans heldur ábyrgð ríkissjóðs.
Veruleikinn er sá að Bretar og Hollendingar héldu kröfum sínum um ábyrgð ríkissjóðs til streitu eins og engar þjóðaratkvæðagreiðslur hefðu farið fram. Þær kröfur stóðu þar til EFTA-dómstóllinn hafnaði þeim á grundvelli aðildar Íslands að reglum Evrópusambandsins.
Það voru reglur Evrópusambandsins, sem réðu úrslitum í þessu máli. Ef Bretar hefðu ekki verið bundnir af þeim hefðu þeir getað neitt aflsmunar sem fimmta stærsta efnahagsveldi í heimi. Hefði það verið betra?
Það er svo annað mál að á endanum var öll skuldin greidd með fullum vöxtum og áföllnum kostnaði.
Ég hef stundum velt því fyrir mér hvort Guðni vinur minn hafi aldrei fundið til þjóðlegs stolts yfir því að þrotabúið og nýi ríkisbankinn hafi staðið við þær skuldbindingar sem stofnað var til. Einu sinni var það helsta tákn um fullveldi þjóða.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. apríl 2021