ESB-trú, trúarhiti og ofsatrú

Þorsteinn Pálsson

Með sann­fær­ing­ar­krafti skrif­ar vin­ur minn Guðni Ágústs­son í Morg­un­blaðið 15. apríl í til­efni hug­leiðinga, sem ég setti fram á dög­un­um, um það sem líkt væri með miðjumoði Evr­ópu­sam­bands­ins og sam­vinnu­hug­sjón­inni.

Guðni tel­ur að sam­lík­ing þessi beri vott um ESB-trú, trú­ar­hita og ofsa­trú. Þess­um nafn­gift­um er ugg­laust ætlað að draga úr gildi hug­leiðinga minna. Ég læt það liggja milli hluta en gengst við því að skrifa ekki annað en það sem ég hef trú á að sé gagn­legt fyr­ir þjóðina.

 

Fyrsta rök­semd

Fyrsta rök­semd Guðna er byggð á því að sam­lík­ing­in stand­ist ekki skoðun vegna þess að SÍS og kaup­fé­lög­in hafi orðið að öf­ug­snún­um ris­um, sem hafi riðlast og fallið um sjálfa sig. Ég ætla ekki að and­mæla því og vel má vera að að því komi að Evr­ópu­sam­bandið leys­ist upp þó að það blasi ekki við í dag.

En spurn­ing­in, sem Guðni þarf að svara, er þessi: Féll sam­vinnu­hug­sjón­in með SÍS?

Ég var ekki að segja annað en að Evr­ópu­sam­bandið væri miðju­banda­lag, sem byggði á mála­miðlun­um milli markaðshyggju og fé­lags­hyggju.

Ég hef þá trú að það sé skyn­sam­leg hóf­söm póli­tík og að sam­vinna þjóða á þeim grund­velli hafi reynst far­sæl.

 

Önnur rök­semd

Önnur rök­semd Guðna gegn alþjóðlegu miðju­sam­starfi er sú ákvörðun Breta að ganga úr Evr­ópu­sam­band­inu. Það er kór­rétt hjá Guðna að meg­in­rök­semd­in fyr­ir út­göngu var sú að Bret­land ætti að nýta afl sitt sem fimmta stærsta efna­hags­veldi í heimi til að hafa bet­ur í tví­hliða samn­ing­um við minni þjóðir.

Við finn­um fyr­ir því. Bret­land er ekki jafn opið fyr­ir Íslend­inga og áður. Bresk­ir sjó­menn og bænd­ur eiga nú erfiðara um vik að selja vör­ur á Evr­ópu­markað vegna auk­ins skri­fræðis. Þó að Guðni líti á það sem aukið frelsi sér maður á um­mæl­um bænda og sjó­manna að þeir upp­lifa þessa breyt­ingu á ann­an veg.

Bret­ar eiga sam­eig­in­lega fiski­stofna í Norður­sjó með nokkr­um Evr­ópu­sam­bandsþjóðum. Sam­kvæmt Haf­rétt­ar­sátt­mál­an­um, sem Ísland á aðild að, verða þeir að semja eft­ir ákveðnum regl­um um skipt­ingu þeirra.

Regl­ur Evr­ópu­sam­bands­ins kveða á um að eng­in þjóð fær veiðirétt í lög­sögu annarr­ar nema á grund­velli veiðireynslu. Þar af leiðir að eng­in er­lend skip kæmu hingað til veiða við inn­göngu í sam­bandið.

 

Þriðja rök­semd

Þriðja rök­semd Guðna er sú full­yrðing að Evr­ópu­sam­bandið sé eitt og EES-samn­ing­ur­inn annað. Innri markaður Evr­ópu­sam­bands­ins er kjarn­inn í starf­semi þess. Sú lög­gjöf, sem ríki með fulla aðild að Evr­ópu­sam­band­inu setja, án þess að við eig­um sæti við borðið, spann­ar nær öll svið í þjóðarbú­skap okk­ar. Við erum þannig hluti af Evr­ópu­sam­band­inu þó að við séum ekki full­ir aðilar. Nær öll efna­hags­starf­semi okk­ar bygg­ist á þeirri lög­gjöf.

Frá fyrsta degi hafa verið deil­ur um það hvort þessi skip­an mála stæðist stjórn­ar­skrá. Guðni vill bregðast við því með því að virða þess­ar sam­eig­in­legu leik­regl­ur að vett­ugi. Ég vil breyta stjórn­ar­skránni svo að sam­starf af þessu tagi sé heim­ilt án nokk­urra tví­mæla.

Full­veldið á ekki bara að tryggja frelsi þing­manna. Þeir eiga að nota full­veldið til þess að tryggja ein­stak­ling­um og fyr­ir­tækj­um þeirra at­hafna­frelsi á jafn­rétt­is­grund­velli á einu stærsta markaðssvæði heims­ins. Þarna grein­ir okk­ur á.

 

Fjórða rök­semd

Fjórða rök­semd Guðna felst í þeirri full­yrðingu að þjóðin hafi kosið Ices­a­ve af sér, ekki einu sinni held­ur tvisvar. Þessi deila stóð ekki um skuld Lands­bank­ans held­ur ábyrgð rík­is­sjóðs.

Veru­leik­inn er sá að Bret­ar og Hol­lend­ing­ar héldu kröf­um sín­um um ábyrgð rík­is­sjóðs til streitu eins og eng­ar þjóðar­at­kvæðagreiðslur hefðu farið fram. Þær kröf­ur stóðu þar til EFTA-dóm­stóll­inn hafnaði þeim á grund­velli aðild­ar Íslands að regl­um Evr­ópu­sam­bands­ins.

Það voru regl­ur Evr­ópu­sam­bands­ins, sem réðu úr­slit­um í þessu máli. Ef Bret­ar hefðu ekki verið bundn­ir af þeim hefðu þeir getað neitt afls­mun­ar sem fimmta stærsta efna­hags­veldi í heimi. Hefði það verið betra?

Það er svo annað mál að á end­an­um var öll skuld­in greidd með full­um vöxt­um og áfölln­um kostnaði.

Ég hef stund­um velt því fyr­ir mér hvort Guðni vin­ur minn hafi aldrei fundið til þjóðlegs stolts yfir því að þrota­búið og nýi rík­is­bank­inn hafi staðið við þær skuld­bind­ing­ar sem stofnað var til. Einu sinni var það helsta tákn um full­veldi þjóða.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. apríl 2021