29 apr Umræðan Rekstur Hafnarfjarðar ekki sjálfbær
Það er nú ljóst að Kófið hafði ekki þau neikvæðu áhrif sem meirihluti bæjarstjórnar óttaðist frá fyrsta degi faraldursins þar sem tekjufall var talið óhjákvæmilegt ásamt gríðarlegri aukningu útgjalda vegna Kófsins. Ársreikningurinn sýnir hins vegar allt aðra niðurstöðu. Reglulegar tekjur jukust og sala á lóðum jókst.
Reglulegur rekstur A hluta bæjarsjóðs, þegar einskiptis söluhagnaður HS veitna er tekinn út fyrir sviga, skilar 1,7 milljarða taprekstri þrátt fyrir hækkun skatttekna. Ástæður taprekstrar er fyrst og fremst vegna hækkunar launaliðar og endurútreiknings á lífeyrisskuldbindingum. Þessi hækkun nemur um þremur milljörðum. Reglulegur rekstur er því ekki lengur sjálfbær.
Það er því ljóst að ekki er hægt að rekja nema að litlu leyti hækkun rekstrarkostnaðar til Kófsins.
Lántökur jukust um hálfan milljarð milli ára og fjárfestingar voru rúmlega milljarði minni en árið 2019, en ein helsta röksemdarfærslan fyrir sölunni á hlut bæjarins í HS veitum var sú að halda þyrfti uppi fjárfestingarstiginu í þessari krísu.
Ársreikningur Hafnarfjarðar fyrir árið 2020 markast fyrst og síðast af bókhaldslegum fegrunaraðgerðum til að breiða yfir vangetu Sjálfstæðisflokksins undanfarin sjö ár til að leiða Hafnarfjörð til velmegunar og velsældar. Það má draga þá ályktun að Kófið hafi verið nýtt sem fullkomin afsökun til að selja innviðafyrirtæki á einokunarmarkaði á undirverði.
Höfundur er oddviti Viðreisnar í bæjarstjórn Hafnarfjarðar