Blindgata opnuð

Þorsteinn Pálsson

Sennilega er ekki of djúpt í árinni tekið að Björn Bjarnason og Hlédís Sveinsdóttir hafi opnað blindgötu í umræðum um landbúnaðarmál með nýju umræðuskjali, sem þau unnu fyrir stjórnvöld og birt var fyrir skömmu.

Í fyrrahaust tilkynnti landbúnaðarráðherra að í mars á þessu ári yrði sett fram fullmótuð stefna, sem gerði Ísland að forystulandi í heiminum öllum í heilnæmum, sjálfbærum og samkeppnishæfum landbúnaði.

Skipbrot

Þessi yfirlýsing ráðherrans var dæmi um þá blindgötu, sem landbúnaðarumræðan hefur verið í um langan tíma. Umræðan hefur byggst á upphöfnum yfirlýsingum um bestu afurðir í heimi. Sú staðhæfing hefur síðan verið notuð til þess að herða fjötra um lokað óbreytt miðstýringarkerfi.

Allir sem höfðu eitthvað annað fram að færa voru úthrópaðir óvinir landbúnaðarins. Umræða, sem var föst í þessu fari, gat ekki leitt til framfara.

Skýrasta dæmið um árangur ríkjandi stefnu birtist í fyrrahaust. Skömmu áður en ráðherra talaði um forystu Íslands var frá því greint að fyrir dýrasta kjöt í allri Evrópu fengju íslenskir bændur lægstu laun allra kjötframleiðenda í álfunni.

Skipbrot stefnunnar gat ekki verið augljósara. En tíðindin komu engum á óvart.

Ekki ný tíðindi

Í febrúar á síðasta ári skrifaði Guðni Ágústsson, fyrrum landbúnaðarráðherra og formaður Framsóknar: „Margir telja að landbúnaðurinn verði horfinn atvinnugrein nema vakning verði og viðsnúningur.“

Nokkrum dögum síðar kom Daði Már Kristófersson, prófessor og núverandi varaformaður Viðreisnar, fram í sjónvarpi og sagði: „Ég held að núverandi kerfi sé þannig að síðasti bóndinn slekkur ljósið.“

Enginn getur efast um sterkar taugar beggja þessara manna til landbúnaðarins. Þeir komast að sömu niðurstöðu um það sem blasir við. En sýn þeirra á hitt, hvað skuli til bragðs taka, hefur lengi verið ólík.

Menn færast nær

Guðni Ágústsson telur að vanda landbúnaðarins megi fyrst og fremst rekja til þess að landbúnaðarráðuneytið var lagt niður sem sjálfstæð stjórnsýslueining. Helsta ráð hans hefur því verið að endurvekja það.

Veruleikinn er þó sá að í áratugi hafa fjármálaráðuneytið og utanríkisráðuneytið farið með þau mál, sem eru uppistaðan og ívafið í núverandi landbúnaðarkerfi, ríkisstyrki og tollavernd.

Daði Már Kristófersson hefur á hinn bóginn talað árum saman fyrir mörgum þeirra grundvallar breytinga, sem fram koma í nýja umræðuskjalinu. Og það ánægjulega er að Guðni Ágústsson hallmælir ekki skjalinu og viðurkennir það sem grundvöll umræðu.

Kálið er ekki sopið

Það var hyggilegt að setja fram umræðuskjal fremur en fastmótaða stefnu. Pólitísk umræða um það er eftir. Kálið er ekki sopið þótt í ausuna sé komið.

En tímamótin felast í því að nú er búið að opna umræðu um þetta efni á miklu víðtækari grundvelli en áður mátti. Þetta er því afar jákvætt framlag inn í kosningaumræður.

Landbúnaðurinn stendur mjög nálægt hjarta flestra Íslendinga. Það kemur fram í því að kjósendur hafa ekki verið mjög ósáttir við há framlög til bænda.

En hitt er í raun ófært, hvort heldur horft er til bænda, neytenda eða skattgreiðenda, að jafn háir ríkisstyrkir og jafn rík tollvernd skili hæsta kjötverði í Evrópu og lægstu launum.

Gefa þarf rúman aðlögunartíma

Athyglisvert er að horfa til Breta í þessu samhengi. Útganga þeirra úr Evrópusambandinu virðist ætla að leiða til grundvallarbreytinga á búskaparháttum svipuðum þeim sem lýst er í umræðuskjalinu.

Aukin skriffinnska veldur breskum bændum erfiðleikum með útflutning. Pólitíkin þar í landi stendur auk þess andspænis köldu vali. Til þess að gera nýja fríverslunarsamninga þarf hún væntanlega að slaka á þeim ströngu heilbrigðiskröfum, sem Evrópureglurnar setja og bændur og neytendur þar í landi hafa verið sáttir við eins og hér.

Þá virðist verð á ræktuðu landi í Bretlandi lækka í hlutfalli við land sem betur er fallið til þeirra breytinga sem í vændum eru.

Mikilvægt er að gefa breytingum góðan tíma. En við erum þó í svipaðri stöðu og Bretar að því leyti að þær þurfa að gerast hraðar en í Evrópusambandinu.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 27. maí 2021