20 maí Hugsum eins og ALDI
Eitt af því sem Covid-19 hefur leitt af sér er að líf okkar hefur einfaldast að vissu leyti. Fjarkennsla, fjarvinna og streymisviðburðir hafa fækkað ferðum og skuldbindingum. Á sama tíma hefur verslun með raftæki, útivistarvörur, húsgögn og aðra hluti til heimilisins aukist verulega. Sorpa hefur fyllst af gömlu dóti og skipti/nytjamarkaðir eru virkari en nokkru sinni fyrr. Í LA Times var nýlega sagt frá því að meðalheimili í BNA er með um 300 þúsund hluti, frá bíl niður í pappírsklemmu. Aðeins um 300 hlutanna eru notaðir reglulega.
Flestir bílskúrar eru notaðir sem dótageymsla og heimilisgeymslur eru fullar. Kannast þú við þetta, ágæti lesandi? Ekki gleyma því að allt þetta dót sem við erum ekki að nota kostar peninga og peningar eru í raun sá vinnutími sem fór í að afla þeirra. Tími er ekki bara peningar… peningar eru tími! ALDI-verslanakeðjan er með aðeins 1.400 vörunúmer í dæmigerðri verslun. Með því að halda vörutegundum í lágmarki hefur ALDI tekist að lækka vöruverð.
Ef ný vörutegund er tekin inn í búðina, þarf að hætta með aðra vörutegund. Þannig eru vörutegundirnar alltaf 1.400. Næst þegar þú kaupir þér dót, hugsaðu eins og ALDI: losaðu þig við einn hlut í staðinn með því að gefa hann til Góða hirðisins eða Nytjamarkaðarins. Við getum einfaldað líf okkar með því að kaupa minna af dóti sem við notum ekki. Við getum líka prófað að nota nytsömu hlutina lengur eða fá þá lánaða eða leigða í stað þess að kaupa þá. Þannig minnkum við kolefnisspor á íbúa með því að eiga minna af óþarfa dóti!