Hver er framtíðarsýn íbúa Austurlands í samgöngumálum?

Eiríkur Björn Björnsson Oddviti 1. sæti Norðausturkjördæmi Alþingiskosningar 2021

Austurland hefur ætíð verið byggt upp af harðduglegu fólki sem hefur lagt mikið á sig til að geta starfað og búið í þessum gjöfula landshluta. Það hefur ekki alltaf verið auðvelt en þó hefur íbúum tekist að byggja upp fyrirmyndarþjónustu á ýmsum sviðum.

Eftir samtöl við fjölda íbúa þá heyrist mér þeir almennt sammála um ágæti helstu þjónustuþátta þó gera megi betur; að heilbrigðisþjónusta reynist góð en þurfi að vera fjölbreyttari, að ferðaþjónusta standi undir merkjum en sé fallvölt, verslun veiti góða þjónustu en helst til einhæfa og að velferðarþjónusta þyki öflug en virki einsleit á köflum.

Mín upplifun af því að búa á Austurlandi er að almennt ríki ákveðin fjölbreytni í atvinnuháttum. Aðgengi íbúa að þjónustu reynist á móti misgott. Íbúar Austurlands hafa sannarlega byggt upp mikilvæga innviði en innviðirnir þurfa að fá tækifæri til að eflast og blómstra enn frekar. Til að svo megi verða þarf að tryggja betra aðgengi að grunnþjónustu fyrir alla.

Ég tel að til að þessir þjónustuþættir geti eflst og dafnað sé mikilvægt að treysta tengingar milli svæða með betri samgöngum. Þetta er gömul saga og ný. Fjölmargar tillögur hafa komið fram í gegnum árin frá íbúum svæðisins og hafa flestar snúið að bættum samgöngum.

Þar má m.a. nefna hugmyndina um Draumalandið Austurland, ódýrari og betri flugsamgöngur, betri og öruggari vegsamgöngur til og frá Djúpavogi um Öxi, veggöng um Hellisheiði eystri og bætta vetrarþjónustu t.d. til og frá Borgarfirði eystri.

Draumalandið Austurland

Hugmyndina um Draumalandið Austurland þekkja flestir íbúar landshlutans en hún snýst um hringtengingu milli Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar, Norðfjarðar, Eskifjarðar, Reyðarfjarðar og Héraðs. Segja má að hugmyndin sé nú fyrst komin á framkvæmdastig með veggöngum milli Eskifjarðar og Norðfjarðar.

Hér þarf að taka næstu skref, setja alla framkvæmdina á áætlun og ljúka henni. Framkvæmdin mun tryggja öflugri tengingar milli íbúakjarnanna á miðausturlandi og renna styrkari stoðum undir fjölbreytni í þjónustu og öryggi fyrir íbúana. Verkefnið þekki ég vel frá mínum fyrri störfum á Austurlandi.

Flugvellir

Efling innanlands- og millilandaflugs um Egilsstaðaflugvöll og bætt þjónusta á Norðfjarðarflugvelli var hitamál sem við bæjarstjórarnir í Fjarðabyggð og á Fljótsdalshéraði börðumst saman fyrir í upphafi 21. aldarinnar. Skoska leiðin hefur nú verið innleidd en betur má ef duga skal. Allir eru sammála um eflingu flugsamgangna í fjórðungnum en of lítið er að gert.

Á meðan lagðir eru verulegir fjármunir í markaðssetningu ferðaþjónustu á suðvesturhorninu má Norðausturland bíða og kannski njóta brauðmolanna. Þetta er óásættanlegt.

Við eigum að efla millilanda- og varaflugvelli svæðisins og bæta þjónustu á öðrum flugvöllum eins og t.d. lýsingu á Norðfjarðarflugvelli. Þetta þarf ekki að gera á kostnað annarra flugvalla í landinu.

Veggöng til og frá Vopnafirði, Öxi og vetrarþjónusta

Hversu lengi eiga íbúar á Austurlandi að bíða eftir vetrarþjónustu og vegtengingum sem duga? Veggöng til og frá Vopnafirði um Hellisheiði eystri þurfa að komast á framkvæmdastig strax. Veggöng auka tengingu alls Norðausturlands og tengja vel helstu jaðarbyggðir landshlutans á austurhorni landsins. Axarvegur er svo loks kominn á dagskrá og má hvergi slá slöku við að ljúka lagningu þeirrar mikilvægu samgöngubótar á milli Héraðs og Djúpavogs, sem nú telst samgöngubót innan sama sveitarfélags.

Þá er ekki hægt að horfa fram hjá aukinni vetrarþjónustu þegar fjallað er um eflingu samgangna á milli byggðarkjarna og sveitarfélaga. Það þjónar ekki tilgangi að tala um heilsársferðamennsku í landshlutanum nema að tryggja öryggi vegfarenda. Það gerum við með bættri vetrarþjónustu.

Þessi verkefni eru öll brýn, gömul og þekkt. Hlustum á íbúana og þeirra óskir í samgöngumálum og fylgjum þeirra framtíðarsýn eftir.

Höfundur er fyrrverandi bæjarstjóri á Fljótsdalshéraði, skipar 1. sæti Viðreisnar í Norðausturkjördæmi

Greinin birtist fyrst í Austurfrétt 17. maí 2021