Saga Uppreisnar – Ungliðahreyfingar Viðreisnar

Ungt fólk hafði áberandi áhrif á tilurð og mótun Viðreisnar. Mörg þessara ungmenna áttu það sameiginlegt að hafa upplifað sig landlaus í íslenskum stjórnmálum og höfðu rætt um þann möguleika að stofna nýtt framboð frjálslyndra ungmenna. Á þeim tímapunkti fóru að berast fregnir af mögulegum nýjum flokki sem hefði frjálslyndi, almannahagsmuni og alþjóðasamstarf í öndvegi. Vorið 2014 mættust þessir hópar og stjórnmálaaflið Viðreisn leit dagsins ljós.

Haustið 2014 hittist áhugafólk hvaðanæva úr íslensku þjóðfélagi á samstöðufundi. Þar á meðal var ungt fólk sem lét vel í sér heyra varðandi sínar áherslur og hvað vantaði í íslenskum stjórnmálum. Niðurstaðan var að tilefni væri til að stofna flokk sem setti málefni neytenda á dagskrá. Á þeim tíma áttu neytendur sér engan öflugan málsvara í íslenskum stjórnmálaflokki og þurftu gjarnan að lúta í lægra haldi fyrir kerfinu. Á fundinum var jafnframt tíundað mikilvægi þess að flokkur, sem stæði vörð um neytendur, hefði jafnréttismál í fyrirrúmi á öllum sviðum. Fram að þeim tíma voru jafnréttismál fyrst og fremst eyrnamerkt vinstri stjórnmálum en raunin er sú að jafnrétti nær til beggja ása stjórnmálanna. Vöntun væri hins vegar á frjálslyndum áherslum í jafnréttismálum, hægra megin við ásinn.

Að samstöðufundi loknum hafði Jóna Sólveig Elínardóttir frumkvæði að því að kalla saman þann hóp ungmenna sem mætti á fundinn, auk fleiri sem kynnu að hafa áhuga. Ungmennin mættu saman á Sjávarklasann og ræddu mögulega ungliðahreyfingu Viðreisnar, áherslur hennar og nafnagift. Undirritaður stakk upp á nokkrum misgóðum nöfnum en eitt þeirra, Uppreisn, var á endanum valið sem vinnuheiti fyrir aflið. Stofnaður var hópur á Facebook undir sama heiti og óx hann jafnt og þétt. Undirritaður tók í kjölfarið við keflinu og leiddi starfsemina með öðru öflugu fólki fram að formlegri stofnun.

Á næstu misserum varð Uppreisn að sjálfstæðri hreyfingu sem óx samhliða Viðreisn og hafði alla tíð sæti við sama borð og aðrir þegar kom að mótun flokksins. Langt var í næstu Alþingiskosningar og því var tíminn nýttur í að halda reglulega málefnafundi og móta starf beggja hreyfinga í vönduðum skrefum. Einn slíkur málefnafundur, um menntamál, var haldinn alfarið af Uppreisn og átti félagið sérstaklega ríkan þátt í mótun stefnu flokksins á því sviði.

Þegar líða tók á haustið 2015 var í fullri alvöru farið að leggja drög að stofnun Viðreisnar og Uppreisnar og fór tíðni funda því að aukast. Ekki var aðeins hugað að málefnum heldur líka umgjörð og skipulagi flokksins og ungliðahreyfingarinnar. Farið var út á land, meðal annars til Akureyrar og fleiri kynningarfundir haldnir. Húsnæði var tekið á leigu í janúar og þá fór boltinn að rúlla mjög hratt. Fulltrúar Uppreisnar héldu áfram að láta til sín taka og áttu ríkan þátt í mótun grunnstefnu flokksins, settu svip sinn á orðfæri og tóku við formennsku í ýmsum málefnanefndum sem lögðu drög að stefnuskrá. Að mati margra var rúmt ár til kosninga ansi skammur tími og því mikilvægt að byggja starfið hratt og örugglega.

 

Vorið 2016 birtust nöfn ráðherra þáverandi ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í Panamaskjölum sem leiddi til stjórnarslita og þingkosninga strax um haustið. Það kom sér því vel að Viðreisn hafði undirbúið sig hratt og vel: Flokkurinn var tilbúinn fyrir kosningar og ungliðahreyfingin sömuleiðis. Ákveðið var að flýta formlegri stofnun flokksins og kom þá í ljós að ungliðahreyfingin var komin nokkrum skrefum lengra í undirbúningi en flokkurinn. Því var Ungliðahreyfing Viðreisnar stofnuð þann 20. maí 2016, fjórum dögum fyrir stofnun Viðreisnar. Það má því með sanni segja að ungliðahreyfingin sé móðurfélag flokksins.

 

 

Í kjölfar formlegrar stofnunar setti ungt fólk svip sinn á stofnun Viðreisnar. Ungliðar opnuðu stofnfundinn, stýrðu honum og átti formaður ungliðahreyfingarinnar sérstakt ávarp þar að auki. Nýskipuð stjórn flokksins skipaði þó nokkurn fjölda ungmenna og hlaut ungt fólk úr grasrót Viðreisnar sæti ofarlega á öllum framboðslistum flokksins fyrir alþingiskosningarnar 2016.

 

uppreisn Starri Kolfinna

Ungliðahreyfingin hefur vaxið allar götur síðan og átt frumkvæði að alþjóðastarfi Viðreisnar, meðal annars með því að sækja fundi erlendis með frjálslyndum stjórnmálaöflum í Evrópusambandinu, sem leiddi síðar til aðildar Viðreisnar að ALDE, samtökum frjálslyndra flokka í Evrópu og þar með aðildar hreyfingarinnar að ungliðahreyfingunni LYMEC. Þá hefur ungliðahreyfingin staðið fyrir Uppreisnarverðlaununum, stjórnmálaskóla og fræðslufundum svo fáein dæmi verði nefnd.

Á aðalfundi hreyfingarinnar, þann 22. september 2017 var samþykkt að breyta nafni ungliðahreyfingar Viðreisnar í Uppreisn – Ungliðahreyfing Viðreisnar. Tveimur vikum síðar var nýtt kennimark, eftir þáverandi formann, Dagbjart Gunnar Lúðvíksson, afhjúpað ásamt nýju nafni.

Uppreisn hefur verið burðarafl Viðreisnar frá árdögum beggja hreyfinga og verður það um ókomna tíð svo framarlega sem Viðreisn vill festa sinn sess sem frjálslynt og áhrifaríkt stjórnmálaafl.

Geir Finnsson tók saman.