Að láta drauminn rætast

Guðmundur Ragnarsson alþingiskosningar 2021 Reykjavíkurkjördæmi Norður RN 4. sæti

Flestir Íslendingar hafa í áratugi átt sér þann draum að hér kæmist á efnahagslegur stöðugleiki. Þannig yrði það ekki eins og að spila í fjárhættuspili þegar teknar væru ákvarðanir um fasteignakaup einstaklinga og fjárfestingar fyrirtækja. Kaupmáttaraukning sem skilar sér við gerð kjarasamninga yrði varanleg en hyrfi ekki á einni nóttu þegar krónan tæki dýfu með tilheyrandi hækkunum á vöruverði og verðbólguskoti, að ógleymdum vaxtahækkunum sem fylgja í kjölfarið sem auka greiðslubyrði lána.

Það kostar mikla orku, áhyggjur, ómæld fjárútlát og gjaldþrot margra að vinna okkur út úr efnahagslægðunum sem íslenska krónan veldur eða magnar upp.

Að viðurkenna staðreyndir

Allt eru þetta þekktar staðreyndir og aldrei rætist draumurinn. Það er ótrúlegt hvað sérhagsmunahópi krónunnar og fákeppninnar hefur oft tekist að sannfæra kjósendur um að nú sé búið að finna nýja leið til að komast í hinn langþráða stöðugleika og lága vexti.

Aðgerð Seðlabankans að lækka vexti er heldur betur að koma í bakið á okkur og ekki sér fyrir endann á því hvernig hann ætlar að vinda ofan af henni. Þótt ég sé ekki hagfræðimenntaður tel ég í ljósi reynslunnar að fullreynt sé með krónuna og að leiðir Seðlabankans til að gera eitthvað varanlegt til að koma á stöðugleika séu ekki til. Með íslensku krónuna verður ekki komið á efnahagslegum stöðugleika og eðlilegri samkeppni í þessu landi.

Það er sorglegt að hugsa til þess að á síðustu áratugum eru íslensk heimilli og fyrirtæki búin að greiða þúsundir milljarða í kostnað vegna krónunnar og vaxtakostnað. Fjármuni sem hefði mátt nota til að bæta hagsæld okkar og efla fyrirtækin í landinu.

Það hefur verið draumur minn lengi að koma hér á breytingum svo að börnin mín og barnabörn þurfi ekki að að búa í hagkerfi með gjaldmiðil sem veldur okkur skaða þótt inn á milli komi smá friður.

Það er hægt að láta drauminn rætast

Við getum látið þennan áratuga gamla draum okkar rætast með því að gera breytingar. Komast inn í stöðugleika, lága vexti og varanlega kaupmáttaraukningu.

Til að láta drauminn rætast þurfum við að gera breytingar sem byrja í kjörklefanum í komandi alþingiskosningum.

Fyrsta skref er að koma krónunni í skjól og stöðugleika með því að tengja hana við evru. Næsta skref er að ljúka aðildarviðræðum við Evrópusambandið og gera samning sem kynntur verður fyrir þjóðinni og kosið um.

Það er spennandi tilhugsun að fá að sjá innihald svona samnings eftir allt þrasið og rangfærslurnar sem settar hafa verið fram í umræðunni um hann. Að halda því fram að þjóðin sé ekki fær um að taka afstöðu til svona samnings, sýnir fyrirlitningu á okkur af þeim pólitísku öflum sem harðast hafa rekið áróður á móti því að ljúka viðræðunum.

Það sorglega er að þessi pólitísku öfl hafa engar aðrar betri lausnir en að halda áfram vonlausum tilraunum til að búa til stöðugleika með krónunni með þeim gífurlega fórnarkostnaði sem ég benti á. Ég myndi glaður taka þátt í að ræða og skoða aðrar leiðir ef þeir sem dásama og vilja halda í krónuna hefðu einhverja aðra leið til að bjóða.

Allir verða að axla ábyrgð á stöðugleikanum

Auðvitað er það ekki þannig að við það að komast í stöðugan gjaldmiðill og gera samning við Evrópusambandið þá verði hér sól alla daga. Við þurfum að tileinka okkur nýja hugsun og vinnubrögð í ríkisfjármálum sem og við gerð kjarasamninga.

Við þurfum að koma á félagslegum stöðugleika sem byggir á skýrri framtíðarsýn til að styðja við þá sem lökust hafa kjörin og og efla þau stuðningskerfi sem við viljum hafa. Viðreisn er tilbúin að leiða þá vinnu með aðilum vinnumarkaðarins og öðrum stjórnmálaflokkum sem vilja byggja hér upp stöðugt efnahagsumhverfi öllum til heilla.

Við leggjum áherslu á að þetta haldist í hendur og vegi jafn þungt, efnahagslegur og félagslegur stöðugleiki, til að tryggja jöfnuð í samfélaginu. Þetta er mikil áskorun en framkvæmanlegt; við höfum fyrirmyndirnar sem við getum lært af hjá þjóðum sem hefur tekist að komast út úr efnahagslegum óstöðugleika.

Við höfum val

Ætlum við að halda áfram með óstöðugleika í efnahagsmálum, með verðbólguskotum, vaxtaokri og rýrnun kaupmáttar eða viljum við láta drauminn rætast og leggja af stað í þessa vegferð?

Óbreytt krónuhagkerfi er fullreynt og mun halda áfram að valda okkur, börnum og barnabörnum ómældum skaða.

Öflugt atvinnulíf er undirstaða velferðar okkar og hagur fyrirtækjanna í landinu mun fylgja með í þessari vegferð. Það er allra hagur að við förum þessa leið.

Látum drauminn rætast og kjósum Viðreisn.

Höfundur skipar fjórða sæti Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum 16. júlí 2021