25 ágú Kosningaloforð með innistæðu
Ríkisfjármálin verða erfiðasta úrlausnarefni stjórnvalda á næstu árum. Mestallt annað, sem við ræðum í kosningabaráttunni, veltur á því hvernig við tökumst á við þann vanda.
Lykillinn að skynsamlegum ákvörðunum og samkomulagi ólíkra flokka um ríkisfjármálastefnu byggist á glöggum upplýsingum og raunsæju mati á öllum efnahagslegum forsendum. Sjaldan hefur jafn mikið verið í húfi í þessum efnum.
Ég tel því að ekki verði hjá því komist að gerð verði óháð úttekt á stöðu ríkisfjármála, hagvaxtarmöguleikum og áhrifum þeirrar miklu lántöku, sem óhjákvæmilegt var að ráðast í vegna faraldursins.
Horfum fram á við, ekki aftur
Lögbundnar fjármálareglur verða ekki í gildi næsta kjörtímabil vegna þessara óvenjulegu aðstæðna.
Brýnast er þess vegna að stjórnmálafólk geti glöggvað sig á því hvaða svigrúm við höfum. Við vitum að skuldirnar verða ekki sjálfbærar nema vextirnir af lánunum verði til lengri tíma lægri en árlegur hagvöxtur. Og það er ekki sjálfgefið eins og sagan segir okkur.Til þess að sjá þessa mynd þarf meiri upplýsingar en fyrir liggja. Hinn tælandi máttur kosninga opnar nú hvert loforðaboxið á fætur öðru. En þá verður líka innistæða að vera fyrir loforðunum. Við skuldum kjósendum að tala hreint út.
Fjármálaráð, sem stjórnvöld skipa, hefur vakið athygli á því að fjármálaáætlunin er í ríkum mæli byggð á framreikningi á gömlum tölum. Þar er með öðrum orðum horft í baksýnisspegilinn eins og ráðið orðar það.
Þetta þýðir í reynd að við þurfum að endurmeta forsendurnar með því að horfa meira fram á við.
Við getum ekki tekið ákvarðanir fyrir framtíðina með því einu að líta í baksýnisspegilinn. Það er hættulegur leikur.
Veikleiki í fjármálaáætlun
Veikleikinn er sá að ríkisstjórnin skildi eftir gat í fjármálaáætluninni sem nemur allt að fimmtíu milljörðum króna. Hún segir það eitt að í það gat þurfi að stoppa með tvinna sem hún kallar afkomubætandi aðgerðir.Verði hagvöxtur ekki mun meiri en fjármálaáætlunin segir til um er ríkisstjórnin í raun að segja að þetta þýði niðurskurð og skattahækkanir.
Til viðbótar þarf að hafa í huga að sum fyrirheit í samgöngumálum eru ekki fjármögnuð og endurtekin loforð um stóraukin framlög til uppbyggingar og reksturs hjúkrunarheimila standa fyrir utan áætlunina, svo dæmi séu tekin.
Þá hefur fjármálaráð bent á að ójafnvægi var komið í rekstur ríkissjóðs fyrir Covid og áður en núverandi efnahagsvandi raungerðist. Staðan sé því verri en hefði þurft að vera.
Aðvaranir sérfræðinga
Í Markaði Fréttablaðsins síðastliðinn fimmtudag skrifa tveir sérfræðingar um hættumerkin sem þarf að hafa í huga varðandi ríkisfjármálin.Agnar Tómas Möller bendir á að líklegt sé að Seðlabankinn hækki vexti á níu af tíu næstu vaxtaákvörðunarfundum. Hann telur að það dragi úr einkaneyslu og fjárfestingu í atvinnulífinu. Stór og vaxandi hluti skulda ríkissjóðs sé til skamms tíma. Væntanlegar vaxtahækkanir munu því þyngja vaxtabyrði ríkisjóðs verulega og kalla á aukið aðhald í rekstri og skattahækkanir. Þessi breytta staða kallar á endurmat á forsendum. Fyrir ríkissjóð, fólk og fyrirtæki.
Helgi Vífill Júlíusson segir að fámenn þjóð með litla mynt geti ekki leyft sér að skulda jafn mikið og stór hagkerfi. Þetta er rétt. Þess vegna skiptir svo miklu að við vitum hvað þessi staða heftir möguleika okkar. Hversu mikið þessi litla mynt skerðir tækifærin í stöðunni.
Mat á áhrifum nýrra leiða
Fjármálaráð bendir á að hagvaxtarspár í fjármálaætlun byggist nær eingöngu á endurreisn ferðaþjónustu.
Við þurfum óháð mat á því hvort líklegt sé að við getum einnig aukið hagvöxt á öðrum sviðum eins og í nýsköpun og þekkingariðnaði. Að hve miklu leyti mun mögulegt samstarf við Evrópusambandið um gengisstöðugleika geta örvað slíkan vöxt? Að tengja krónuna við evru. Og að hve miklu leyti getur það dregið úr vaxtakostnaði ríkissjóðs?
Markmið okkar er að auka hagvöxt eins og hægt er til þess að geta styrkt og viðhaldið öflugu velferðarkerfi. Þannig að þungbærar vaxtagreiðslur ríkissjóðs fari frekar í innviði, menntun, velferð.
Óháð úttekt á stöðunni er nauðsynleg
Er það vont að stjórnmálaflokkar lofi ákveðnum hlutum, sýni á spilin? Nei, enda eiga kosningar að draga fram áherslur flokkanna og gefa kjósendum valkosti. Flokkar þurfa hins vegar að koma hreint fram og segja hvort innistæða sé fyrir loforðunum eða hvort senda eigi reikninginn inn á framtíðarkynslóðir. Viðreisn vill þess vegna tryggja kjósendum yfirsýn hvað raunverulega er hægt að gera í ríkisfjármálum. Við viljum að kjósendur hafi tækifæri á að sjá hver staðan er í reynd. Svo hægt sé að tryggja samkeppnishæf lífskjör.Verði úrslit kosninganna á þann veg að Viðreisn taki þátt í viðræðum um nýja ríkisstjórn munum við gera kröfu til þess að óháð endurmat á þessum álitaefnum verði lagt til grundvallar samningum um nýja ábyrga ríkisfjármálastefnu.
Best hefði farið á því að ríkisstjórnin hefði látið vinna óháða úttekt um stöðuna fyrir kosningar. Það er því áskorun mín til forsætisráðherra að hún beiti sér tafarlaust fyrir því í samráði við stjórnarandstöðuna. Það er hið rétta að gera í þágu almennings í landinu.
Höfundur er formaður Viðreisnar.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 25. ágúst 2021