13 ágú Margur verður af auðlind api
Eitt skiptir meginmáli í komandi kosningum og um alla framtíð. Að þjóðin fái sinn sanngjarna hluta af verðmætinu sem felst í fiskimiðunum: Sjávarútvegur borgi markaðstengt auðlindagjald með því að árlega fari ákveðinn hluti kvótans á markað. Flóknara er það ekki.
Skoðum álitaefnin:
1. Þjóðin á auðlindina. Útgerðarmenn nýta hana og eiga því að borga fullt verð fyrir afnotin.
2. Útgerðin borgar nú þegar auðlindagjald. Er það ekki nóg? Svarið er einfalt. Engum dytti í hug að það væri sanngjarnt að borga 50 þúsund krónur í leigu á mánuði fyrir 200 fermetra íbúð. Það væri gjöf en ekki gjald. Sama gildir um málamyndagjald útgerðarmanna fyrir fiskimiðin.
3. Væri þá ekki rétt að afkomutengja auðlindagjaldið? Þessi hugmynd er jafnfráleit og að afkomutengja húsaleigu, þannig að fyrirtæki skussanna borgi lægri leigu fyrir verslunar- eða skrifstofuhúsnæði en þau sem eru rekin af hagkvæmni.
4. Fyrir daga kvótakerfisins var útgerðin rekin sem næst á núlli og í óefni stefndi á fiskimiðunum vegna ofveiði. Afnám kvótakerfis er afturhvarf til þeirra tíma. Nú er fólk almennt mun meðvitaðra um sjálfbæra nýtingu náttúrunnar og engum dytti í hug að snúa aftur til daga rányrkjunnar.
5. En varð veiðirétturinn verðmeiri við það að nýtt kerfi var tekið upp? Já, einmitt vegna þess að nú er viðurkennt að veiðiréttur er takmörkuð gæði er hann mikils virði. Auk þess er auðlindin í heild nú meira virði vegna skynsamlegrar stjórnunar.
6. Hagfræðingar tala um auðlindarentu, en það hugtak skilja fáir og enginn veit hvernig á að reikna hana. Þess vegna er borin von að setja á sanngjarnt gjald, segja fulltrúar útgerðarmanna á Alþingi. Þetta er rétt og þess vegna er best að láta markaðinn ráða. Verð á hlutabréfum, húsnæði, olíu og nánast öllu öðru sem selt er á frjálsum markaði ræðst af framboði og eftirspurn. Hvers vegna ekki veiðirétturinn?
7. Hækkar markaðsverð auðlindagjaldið frá því sem nú er? Um slíkt er vandi að spá, en samt ekkert mikill vandi. Samkvæmt Hagstofunni var árlegur hagnaður sjávarútvegsins á föstu verðlagi 2019 um 55 milljarðar króna áratuginn 2010-19. Veiðirétturinn er greinilega mikils virði. Árið 2020 var veiðigjald samkvæmt ákvörðun stjórnmálamanna alls 4,8 milljarðar króna. Á leigumarkaði fer kvótinn á margföldu því verði, en mismunurinn fer í vasa útgerðarmanna.
8. Uppboð skapar óvissu, segja útgerðarmenn. Allur atvinnurekstur er óvissu háður, en ef hluti aflaheimilda er settur á markað á ári hverju, til dæmis 5%, fylgir nýtingarsamningur í 20 ár. Öryggið eykst því, en minnkar ekki.
Hristum af okkur óréttlætið sem felst í veiðigjaldi sem ákveðið er að pólitíkusum og hefur milljarða af þjóðinni á ári hverju. Setjum kvótann á markað.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. ágúst 2021