01 sep Ég skal gera þér greiða – en þú borgar
Sögð er saga af ungum stjórnmálamanni sem var nýkominn á þing fyrir tæplega 40 árum. Honum barst til eyrna að í sjávarplássi einu í kjördæmi hans væri útgerðin í vandræðum, einu sinni sem oftar. Hann brást snöggt við og mætti á skrifstofu eins útgerðarmannsins sem spurði úrillur: „Hvað ert þú að gera hér?“
Stjórnmálamanninum upprennandi brá við, en stamaði að hann hefði heyrt að allt væri í hönk hjá sjávarútvegsfyrirtækjum. Forstjórinn svaraði þá um hæl: „Láttu okkur um að reka fyrirtækin. Sjá þú um þín störf á Alþingi.“
Viðbrögð útgerðarmannsins voru sannarlega óvenjuleg, en þau voru hárrétt. Stjórnmálamenn eiga ekki að leysa hvers manns vanda heldur sjá um að þjóðfélagið sé réttlátt og starfi eftir sanngjörnum reglum þar sem allir hafa jafnan rétt.
Nú keppast stjórnmálamenn við að auglýsa hvað „þeir“ ætli að gera fyrir fólk. Flestir láta sér fátt um finnast, en einstaka falla samt fyrir fagurgalanum.
Miðflokkurinn, sem á kjörtímabilinu gat sér einkum frægðarorð fyrir næturvökur á Alþingi og í nærliggjandi öldurhúsum, reynir nú aftur að koma sér í umræðuna. Í þetta sinn vill formaður flokksins útdeila afgangi af ríkissjóði til allra, ekki í formi skattalækkana heldur sem gjöf. Hann vill eflaust gera líkt og átrúnaðargoð hans í Bandaríkjunum, Donald Trump, sem krafðist þess að hans undirskrift væri á endurgreiðslum til skattgreiðenda.
Hinn íslenski Trump ætlar að deila hagnaði til almennings en „ríkið“ má hirða tapið. Hugmyndirnar hafa ekki fengið verðuga athygli vegna þess að fáir taka flutningsmanninn alvarlega. En snúum tillögunum við. Í stað þess að láta nægja að dreifa hagnaðinum eins og karamellum til íbúa landsins væri vert að senda öllum íbúum reikning vegna rekstrarhalla ríkisins. Þegar sagt er frá því að hallarekstur hins opinbera hafi verið rúmlega 200 milljarðar króna árið 2020 eru tölurnar svo háar að fæstir skilja þær. En ef hvert mannsbarn fengi í framhaldinu reikning upp á um 600 þúsund krónur vegna hallans er líklegt að ýmsir létu í sér heyra.
Einhver kann að segja að hallinn árið 2020 segi lítið um fjármálastjórnunina, kórónuveiran sé sökudólgurinn. En þá er hægt að horfa á árið 2019 þegar reikningurinn vegna hallans hefði verið um 125 þúsund krónur á hvern íbúa. Þá hefði það varla farið framhjá neinum að stjórnin sem tók við góðu búi var búin að koma ríkinu í hallarekstur í góðærinu rúmu ári síðar.
Stundum er ágætt að skoða tillögur sem virðast hlægilegar aðeins betur, því þær gætu borið í sér frjókorn skynsemi. Auðvitað búa engir stjórnmálamenn til verðmæti þegar þeir færa peninga ríkisins úr einum vasa í annan. En ef kjósandinn yrði meðvitaðri um það hvað „gjafirnar“ kosta hugsaði hann sig kannski tvisvar um í kjörklefanum.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 1. september 2021