23 sep Valkostirnir eru skýrir
Á kjördag blasa skýrir valkostir við kjósendum: kyrrstöðustjórn eða stjórn með almannahagsmuni í fyrirrúmi. Fjármálastjórn núverandi stjórnar skilaði ósjálfbærum ríkissjóð jafnvel áður en heimsfaraldurinn skall á. Þess vegna er broslegt að hlusta nú á ríkisstjórnarflokkana þrjá tala um að stöðugleiki sé nauðsynlegur. Efnahagslegur stöðugleiki er vitaskuld mikilvægur en sá stöðugleiki sem þessi ríkisstjórn stendur fyrir fer einfaldlega gegn hagsmunum almennings í landinu. Stöðugleiki má ekki vera skjól fyrir sérhagsmuni. Og það er sá stöðugleiki sem þessi ríkisstjórn færir okkur.
Háir skattar á Íslandi
Sjálfstæðisflokkurinn leggur nú allt kapp á að sannfæra kjósendur um að með honum fái fólk og fyrirtæki skattalækkanir. Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá 1995 stýrt fjármálaráðuneytinu í heil 22 af 26 árum. Þegar skatttekjur hins opinbera sem hlutfall af landsframleiðslu eru bornar saman við önnur OECD-ríki blasir skýr niðurstaða við. Árið 2019 var meðaltal OECD-ríkjanna 25% en 33% á Íslandi. Aðeins Svíar voru með hærra hlutfall. Niðurstaðan er að skattar á Íslandi eru háir. Það er því engin innistæða fyrir orðum formanns Sjálfstæðisflokksins að flokkur hans færi fólki skattalækkanir. Viðreisn mun ekki hækka skatta á þessu kjörtímabili. Atkvæði greitt Viðreisn er þess vegna atkvæði sem er til að forða almenningi og fyrirtækjum frá frekari skattahækkunum.
Markaðsgjald fyrir afnot af fiskimiðunum
Arfleifð Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum er að stórútgerðin greiðir allt of lágt verð fyrir afnot af fiskimiðunum. Árum og áratugum saman hefur almenningur kallað eftir breytingum á þessu. Ríkissjóður og almenningur verða af milljörðum á hverju einasta ári vegna þessa kerfis sem ríkisstjórnin stendur vörð um. Stöðugleikaloforð ríkisstjórnarflokkanna í þessu máli felst í því að ganga samhentir gegn hagsmunum almennings en með hagsmunum hinna fáu. Kvótakerfið sem slíkt hefur sannað gildi sitt og gagnsemi til að stýra veiðum og tryggja sjálfbæra auðlind. Út af stendur að innheimta eðlilega gjaldtöku fyrir afnot af fiskimiðunum á markaðsvirði. Viðreisn vill að hluti kvótans fari á frjálsan markað á ári hverju og markaðurinn svari því hvert verðmætið er. Með þessu munu ríkissjóður og almenningur fá umtalsvert hærri tekjur sem nýta má til samfélagslegra verkefna. Þessi leið mun jafnframt skapa greininni stöðugleika og fyrirsjáanleika, en gerðir verða langtímasamningar við útgerðina um nýtingu á auðlindinni. Sjálfstæðisflokkurinn sem í orði kveðnu kveðst markaðssinnaður berst hvergi harðar fyrir óbreyttu ástandi en hér.
Daglegt líf fólksins í landinu
Í kosningabaráttunni hefur Framsóknarflokkurinn reynt að sannfæra fólk um að hann sé rétt að byrja. Flokkurinn ætli að bæta hag barna. Dag eftir dag greina fjölmiðlar frá átakanlegum sögum barna í bið eftir grundvallarþjónustu. Börn eru á biðlista alls staðar í kerfinu. Foreldrar þessara barna þekkja þennan veruleika. Framsóknarflokkurinn hefur frá 1995 stýrt félagsmálaráðuneytinu í 20 af 26 árum. Það er því hárrétt sem Framsóknarflokkurinn segir: hann virðist nefnilega varla byrjaður – þrátt fyrir að hafa haft til þess áratugi.
Efnahagsmál snúast um daglegt líf fólks
Efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs eru yfir þúsund milljarða ríkisskuldir. Fólk er aftur farið að sjá mynd sem við þekkjum. Vextir á húsnæðislánum fara hækkandi. Þrátt fyrir að vextir séu lægri en áður eru vextir hér engu að síður margfalt hærri en t.d. á Norðurlöndunum. Almenningur veit að lágir vextir hérlendis eru aldrei annað en tímabundið ástand. Stöðugleiki Sjálfstæðisflokksins er ekki meiri en það.
Fyrir venjulegt fólk, fjölskyldur og einstaklinga, hefur mesta þýðingu í daglegu lífi að hafa atvinnu og að kostnaðurinn við að reka heimili sé viðráðanlegur og fyrirsjáanlegur. Fyrir fyrirtækin er grundvallaratriði að geta gert áætlanir og að vissa sé um helstu útgjaldaliði. Svo er ekki í íslensku umhverfi. Þess vegna er íslenskt samfélag ekki samkeppnishæft til lengri tíma litið. Það er stjórnvalda að skapa skilyrði til að daglegt líf fólks og fyrirtækja í landinu sé gott, stöðugt og samkeppnishæft. Til að þess þarf stöðugan gjaldmiðil. Viðreisn vill tengja krónuna við evru, líkt og Danir hafa gert. Það mun færa stöðugleika sem hér vantar. Dæmigerð fjölskylda með 31 milljónar króna húsnæðislán gæti með þessari leið haft 72.000 krónum meira á milli handanna í mánuði hverjum.
Gefðu framtíðinni tækifæri
Valkostirnir á kjördag eru skýrir. Spurningin er hvernig viljum við sjá Ísland vaxa og hvaða tækifæri við viljum færa æsku landsins. Viðreisn vill fjárfesta markvisst í menntun og nýsköpun og gefa heilbrigðisþjónustunni tækifæri. Við viljum forða almenningi og fyrirtækjum frá frekari skattahækkunum og skapa þeim skilyrði til að sækja fram. Verkefnið er einfaldlega að skapa samfélag sem býður fólkinu í landinu lífskjör og lífsgæði sem eru góð og samkeppnishæf og fyrirtækjum umhverfi þar sem þau geta staðist samkeppni að utan. Þess vegna á að kjósa Viðreisn.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. september 2021