05 nóv Verum hluti af lausninni
Framtíð Íslands byggist að miklu leyti á alþjóðasamstarfi, ekki síst á sviði loftslagsmála. Í hinni sameiginlegu alþjóðlegu sýn, sem skerpist ár frá ári, er viðurkenning á þeim verðmætum sem felast í hreinu andrúmslofti og virkum og stöðugum vistkerfum. Þetta er einfaldlega forsenda lífsviðurværis okkar. Parísarsáttmálinn frá 2015 veitir skýra leiðsögn, þ.e. að meðalhitastig jarðar skuli ekki hækka meira en 2°C miðað við upphaf iðnbyltingar og helst haldast við 1,5°C. Þessar tölur eru ekki dregnar úr hatti heldur eru niðurstaða okkar fremsta vísindafólks.
Framlag Íslands felst ekki einungis í því að draga úr losun heldur getum við orðið mikilvæg fyrirmynd til dæmis með því að verða fyrst þjóða til að losa okkur algjörlega við jarðefnaeldsneyti. Það þýðir orkuskipti bíla, skipa og flugvéla. Stærsta hindrunin er flugið en hér á Íslandi erum við þó þegar farin að skoða rafvæðingu innanlandsflugsins. Skipin eru komin vel á veg þar sem danska skipafélagið Mærsk og fleiri stórir aðilar í flutningum eru þegar komnir með skip knúin endurnýjanlegri orku. Hér á landi snýst áskorunin ekki síst um uppbyggingu innviða.
Mikilvægi einkageirans
Einkageirinn er vettvangur til að breyta áskorunum í tækifæri. Til þess þarf þó hvata bæði frá stjórnvöldum og neytendum. Fyrirtæki þurfa að finna að ætlast sé til þess að loftslagsmál séu tekin alvarlega í öllum þeirra rekstri og framtíðaráformum.
Fyrirtæki sem hreyfa sig hratt og afgerandi í sínum loftslagsmálum munu standa uppi sem sigurvegarar. Þau hafa samkeppnisforskot og þar verða til lausnir og hugmyndir sem fleyta samfélaginu í rétta átt. Þar vill metnaðarfyllsta og hæfasta fólkið starfa.
Tækifærin eru auðvitað ekki eingöngu fólgin í hagsmunum einstakra fyrirtækja heldur í miklu stærra samhengi. Heilbrigð vistkerfi og hreint andrúmsloft eru vissulega afleiðing af samdrætti gróðurhúsalofttegunda; en þau eru líka forsendur færri náttúruhamfara, færri sjúkdóma og aukinnar velmegunar, bæði fyrir okkur og heimssamfélagið.
Jarðefnaeldsneytislaust Ísland er mögulegt, við þurfum einfaldlega að sýna frumkvæði. Íslensk stjórnvöld þurfa að þora að taka af skarið. Ekki bara búa til stefnur og vegvísa heldur beita sér markvisst fyrir stórum skrefum. Taka þátt í uppbyggingu innviða um allt land. Styrkja myndarlega fyrstu orkuskiptaverkefnin í þeim geirum þar sem orkuskipti eru ekki enn farin af stað. Enda eru þau skref oft áhættusöm og óhagkvæm og alls ekki á færi allra einkaaðila að stíga. Ríkið getur lækkað þröskuldinn fyrir breytingar í orkunotkun og stutt sérstaklega slíka nýsköpun. Þetta er verkefnið sem bíður stjórnvalda núna.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 5. nóvember 2021