07 des Ábyrg sýn
Fyrir nokkrum árum voru sett sérstök ákvæði um fjármál sveitarfélaga í landslög. Þar var kveðið á um að a) útgjöld samstæðu mættu ekki verða hærri en reglulegar tekjur yfir 3 ára tímabil, svokallað jafnvægisviðmið og að b) skuldaviðmið samstæðu ætti ekki að fara yfir 150%. Þetta eru góðar reglur sem eiga að stuðla að jafnvægi og varfærni í rekstri sveitarfélaga.
Þegar Covid-krísan skall á af fullum þunga varð ljóst að mörg sveitarfélög hefðu átt erfitt með að fylgja umræddum ákvæðum laga. Eina leiðin til þess væri í raun að skera niður í fjárfestingum og dýpka efnahagslægðina enn frekar. Það var nokkuð sem fáir ef nokkrir fagaðilar, hvorki innan lands né utan, hafa mælt með.
Langtímasýn í fjármálum á að vera skýr
Ríkið hefði sannarlega getað auðveldað sveitarfélögum að fjármagna fjárfestingar með öðrum hætti en lántöku, til dæmis með tímabundnum en almennum aðgerðum til að mæta tekjutapi vegna Covid. Sú leið sem ríkið valdi að fara fól í sér að reglurnar um afkomu og skuldir sveitarfélaga voru numdar úr gildi næstu fimm árin. Sveitarfélögum var beinlínis sagt að skuldsetja sig frekar og að ríkið myndi leyfa því að viðgangast.
Langtímasýn í fjármálum verður engu að síður að vera skýr. Reykjavík setti sér því sínar eigin reglur um afkomu og skuldir í stað þeirra sem ríkið nam úr gildi. Þar má finna þau viðmið að a) halli á rekstri skuli ekki verða meiri en 10% af tekjum. b) Að jafnvægisviðmiði verði náð frá og með 2026. Og c) að skuldaviðmið samstæðu fari ekki yfir 200% af tekjum hvers árs.
Ekki er útlit fyrir að þetta rými verði nýtt. Skuldaviðmiðið á hæst að fara í 155%, með OR meðtaldri á næsta ári, jafnvægisviðmið á að vera jákvætt allan tímann og halli á rekstri er innan áætlunar. Við höfum, á erfiðum tíma, sýnt aga í fjármálum Reykjavíkurborgar og er staðan mun betri en á horfðist þegar Covid skall á fyrir einu og hálfu ári síðan.