13 des Í skugga brottkasts
Grundvallarhlutverk fiskveiðistjórnunarkerfisins okkar er að koma í veg fyrir ofveiði og tryggja þannig að nýting auðlindarinnar sé sjálfbær. Við höfum fulla ástæðu til að vera stolt af því hvernig þar hefur tekist til. Nú þegar fréttir berast sem gefa innsýn í óviðunandi stöðu mála varðandi brottkast á fiski fellur hins vegar skuggi á ímyndina af hinni ábyrgu fiskveiðiþjóð. Þetta þarf að laga.
Í upphafi þessa árs hófu veiðieftirlitsmenn hjá Fiskistofu að beita drónum við eftirlit með veiðum. Fram að því höfðu brottkastsmál verið að jafnaði um 10 á ári, en það sem af er þessu ári hefur Fiskistofa tekið til meðferðar að minnsta kosti 120 mál sem varða ætlað brottkast afla frá fiskiskipum, stórum og smáum.
Það er mikil einföldun að halda að hér sé um skyndilega, jafnvel mögulega tilfallandi, aukningu að ræða. Líklegra er að hér sé einfaldlega verið að standa menn að verki með brot sem hafa tíðkast lengi. Í því sambandi má rifja hér upp að í upphafi árs 2019 skilaði Ríkisendurskoðun stjórnsýsluúttekt um eftirlitshlutverk Fiskistofu. Þar fékk stofnunin töluvert bága umsögn fyrir framkvæmd þess eftirlits sem henni er ætlað að hafa með höndum. Eftirlit með brottkasti var sagt takmarkað, veikburða og ómarkvisst.
Sterkara eftirlit
Nú hefur Fiskistofa hins vegar með breyttum vinnubrögðum fært okkur aðra sýn á umgengni okkar við sjávarauðlindina. Enn sem komið er er eftirlitið að mestu frá landi en þó eru í tölum Fiskistofu líka togarar að veiða með botnvörpu.
Upplýsingar sýna þannig svart á hvítu að það er full þörf á því að auka eftirlitið þannig að það nái yfir stóru skipin líka.
Í nýjum stjórnarsáttmála VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar er mikið talað um að efla eftirlit af ýmsu tagi. Minna fer fyrir vísbendingu um slíkt í fjárlagafrumvarpinu en Alþingi ræðir nú fjárlög næsta árs í mikilli tímapressu. Það er mikilvægt að sú pressa komi ekki í veg fyrir að farið verði vel yfir þörf Fiskistofu fyrir auknar fjárlagaheimildir strax á næsta ári. Ég hygg að fáir vilji standa í vegi fyrir því opinberlega að stofnunin fái eftirlitsbúnað sem hægt er að nýta lengra úti í landhelginni. Skugga brottkasts þarf að afmá sem fyrst.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. desember 2021