23 des Ónýtt tækifæri
Ný tækifæri flestra þjóða byggjast fyrst og fremst á því hvernig þær koma ár sinni fyrir borð í alþjóðasamskiptum.
Ísland er í sérstöðu að þessu leyti. Í fyrsta lagi eigum við afkomu okkar undir utanríkisviðskiptum í ríkari mæli en flestar aðrar þjóðir. Í öðru lagi erum við alfarið háð samningum við aðrar þjóðir um varnir landsins.
Í þessu ljósi er mjög sérstakt að í síðustu kosningum var Viðreisn eini stjórnmálaflokkurinn sem ræddi utanríkismál að einhverju marki.
Um þessar mundir er það kappsmál flestra þjóða að finna nýjar leiðir í alþjóðasamskiptum til þess að styrkja stöðu sína og skapa ný tækifæri. Við erum með öflugt og sterkt utanríkisráðuneyti en pólitísk forysta þess hefur ekki beint athyglinni að nýjum tækifærum í nokkurn tíma.
Alþjóðasamstarf og betri lífskjör
Flest stærstu skrefin fram á við fyrir hagsæld þjóðarinnar, búskap hennar og samkeppnishæfni hafa verið stigin á grundvelli alþjóðlegs samstarfs.
Aðildin að norræna myntbandalaginu var grundvöllur atvinnubyltingarinnar í byrjun síðustu aldar. Útfærsla landhelginnar byggðist á staðfestu og þrautseigju, en þátttaka í alþjóðlegu samstarfi um þróun hafréttarins réð á endanum úrslitum.
Aðildin að NATO jók viðskipti vestur um haf. Þátttaka í alþjóðlega gjaldmiðlasamstarfinu, sem kennt var við Bretton Woods, réð miklu um upphaf erlendrar fjárfestingar í stóriðju. EFTA-aðildin skapaði ný tækifæri fyrir atvinnulífið. EES-samningurinn réð síðan miklu um gott efnahagslegt gengi í lok síðustu aldar.
Í gegnum EES-samninginn erum við aðilar að innri markaði Evrópusambandsins, sem er kjarninn í hugmyndafræði þess. Þrátt fyrir að full aðild að sambandinu yrði minna skref en við tókum með EES-samningnum þá eigum við enn mörg ónýtt tækifæri í Evrópu.
Samstarf í gjaldmiðilsmálum gæti haft einna mest jákvæð áhrif til að treysta stöðugleika og auka hagvöxt. En við myndum líka brjóta niður tollahindranir, meðal annars fyrir sjávarútveginn.
Kjarni málsins er sá að við myndum auka viðskiptafrelsi einstaklinga og fyrirtækja. Það er jarðvegur nýrra hugmynda og framfara, nýsköpunar og þekkingar.
Ekkert að frétta
Það er okkar að vera á tánum og kortleggja hvernig og hvar hagsmunum okkar er best borgið. Þess vegna hefur Viðreisn lagt fram tillögu sem felur í sér úttekt á stöðu Íslands í svæðisbundinni og fjölþjóðlegri samvinnu. Hvernig styrkja megi stöðu Íslands á alþjóðavettvangi til framtíðar. Á sviði menningar, stjórnmála, varna og efnahags.
En einhverra hluta vegna er utanríkisráðuneytið ekki á fullu við að kanna þau tækifæri sem við eigum ónýtt í Evrópu og annars staðar. Af hverju er ekkert að frétta?
Svarið er þröngsýni. Við þurfum víðtæka umræðu til að ryðja henni úr vegi. Það er í þágu almannahagsmuna. Viðreisn mun halda því merki á lofti.
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 23. desember 2021