22 des Ríkisfjármál og ábyrgð
Verðbólga er orðin alvarlegt vandamál fyrir heimilin og atvinnulífið. Ríkisstjórnin virðist hins vegar kannast lítið við þann vanda. Flest ríki í Evrópu og Ameríku glíma líka við vaxandi verðbólgu. En viðbrögðin eru ólík.
Ný ríkisstjórn í Þýskalandi ákvað að virkja aftur fjármálareglur, sem teknar voru úr sambandi vegna Covid fyrr en ætlað var. Ríkisstjórn Íslands ákvað hins vegar að fresta því lengur en í upphafi var ráðgert.Þetta gerir ríkisstjórnin þó að hún staðhæfi að viðsnúningurinn gangi betur en hún reiknaði með.
Víða erlendis beina hagfræðingar nú athyglinni að hlutverki ríkissjóða í baráttunni við verðbólguna. Hér heima skrifaði aðalhagfræðingur Seðlabankans nýverið í Vísbendingu að verðbólguhorfur gætu verið of bjartsýnar. Hann nefnir ríkisfjármálin sem einn af helstu óvissuþáttunum. Þetta þýðir að bankinn telur að ríkisfjármálastefnan miði ekki að því að lækka verðbólgu.
Í Morgunblaðsviðtali í byrjun desember segir Ragnar Árnason hagfræðiprófessor að hreinar skuldir ríkissjóðs aukist. Hækki vextir aukist vaxtagreiðslur ríkissjóðs. Þeir peningar verði ekki notaðir í opinberan rekstur. Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um fjárlagafrumvarpið.
Yfirskrift hennar er: „Ríkið kyndir undir verðbólgu.“ Býsna þungur dómur um ríkisfjármálastefnuna frá einni helstu hugveitu atvinnulífsins.
Í umsögn Samtaka atvinnulífsins segir að óbreytt stefna í ríkisfjármálum muni „hafa í för með sér ósjálfbæra skuldasöfnun. Þau benda á að vaxtabyrðin er þyngri hér en í samanburðarríkjunum. Þá gagnrýna samtökin að ríkisstjórnin ýti fjármálareglum á undan sér með þeim afleiðingum að brekkan verði brattari. Þau ganga svo langt að staðhæfa að ríkisstjórnin sé að ýta vandamálunum yfir á næstu ríkisstjórn.
Það væri unnt að skilja harkalega áfellisdóma af þessu tagi ef um væri að ræða kosningafjárlög. En við erum að tala um fimmtu fjárlög ríkisstjórnar sem er að hefja nýtt kjörtímabil. Þegar ríkissjóður kyndir undir verðbólgu hvílir allur þunginn á aðgerðum Seðlabankans. Vaxtahækkanir hans verða því meiri.
Ríkisstjórn, sem frá fyrsta degi kjörtímabilsins ýtir vandamálunum yfir á næstu stjórn, er meira en stefnulaus. Hún er óábyrg.