30 des Umræðan má ekki vera tabú
Fara Rússar inn í Úkraínu á nýju ári? Enginn veit það. Hitt vitum við, að spennan í Evrópu er meiri en nokkru sinni frá lokum kalda stríðsins.
Kemur það okkur við? Svarið er, já.
Rússar virtu fullveldi Úkraínu að vettugi með innlimun Krímskaga. Af hugsjónaástæðum stóðum við með NATO og ESB í refsiaðgerðum vegna þeirra atburða. Fyrir vikið settu Rússar innflutningsbann á sumar íslenskar vörur.
Vopnafjörður og Kænugarður
Úkraínudeilan er gott dæmi um það hvernig fullveldi og viðskipti takmarkast ekki við lögsögumörk. Utanríkismálin eru flókið samspil hugsjóna og hagsmuna. Þannig eru Vopnafjörður og Kænugarður ekki aðskilin pláss.
Þessi deila er áminning um að þjóð, sem er í svo ríkum mæli háð fjölþjóðlegri samvinnu til að verja fullveldi sitt og tryggja viðskiptahagsmuni sína, má ekki vanrækja pólitíska umræðu um utanríkispólitík.
Á undanförnum árum hefur utanríkisþjónustan verið efld í samræmi við mikilvægi hennar. Ekki fer á milli mála að hún er vel í stakk búin til að gæta hagsmuna landsins. Það sýnir styrkleika.
En á pólitískum vettvangi höfum við vanrækt að ræða forsendur utanríkisstefnunnar, nýjar ógnir og ný tækifæri, í ljósi breyttra aðstæðna. Það er merki um veikleika.
Nýtt hlutverk í varnarmálum órætt
Í ágúst, mánuði fyrir kosningar, komu B-2 sprengjuþotur bandaríska flughersins til æfinga á Keflavíkurflugvelli.
Um miðjan nóvember skrifaði Albert Jónsson, fyrrum sendiherra, grein á vefsíðu sína, sem fjallar um rannsóknir og greiningu á alþjóðamálum og utanríkismálum. Þar segir að samkvæmt yfirlýsingum Bandaríkjahers hafi koma vélanna verið merki um nýtt og aukið hlutverk Íslands í hernaðar- og fælingarstefnu Bandaríkjanna og NATO.
Samt ræddi enginn flokkur varnar- og öryggismál í kosningunum.
Þó að nýtt hlutverk Íslands sé í eðlilegu samræmi við breyttar aðstæður, þarf að ræða og rökstyðja ákvarðanir af þessu tagi opinberlega.
Það er einn af veikleikum stjórnarsamstarfsins að það þolir ekki opinbera umræðu um forsendur fjölþjóðlegs samstarfs í varnar- og öryggismálum. Sú þögn er hættuleg fyrir þetta mikilvæga samstarf.
Ný tækifæri í Evrópusamvinnu órædd
Engin ný stór skref hafa verið stigin í Evrópusamvinnu á sviði efnahags- og viðskiptamála í þrjá áratugi. Þar liggja þó margvísleg ný sóknarfæri.
Stærsta tækifærið liggur í myntsamstarfinu. Með þátttöku í því má ná betri stöðugleika og styrkja samkeppnisstöðu Íslands. Tvívegis á síðustu öld átti Ísland aðild að fjölþjóðlegu gjaldmiðlasamstarfi með góðum árangri.
Vaxandi fyrirferð Kína og annarra ríkja, sem ekki byggja á lýðræðislegum gildum, veldur nú aukinni spennu í alþjóðaviðskiptum. Þessi nýja staða kallar einnig á að Ísland valdi pólitíska stöðu sína betur í Evrópu.
Undarleg rökleysa
Í síðustu kosningum var Viðreisn eini flokkurinn, sem ræddi og rökstuddi möguleika á nýjum tækifærum í þessu samhengi.
Andsvarið felst í einfaldri staðhæfingu um að hagsmunum Íslands sé best borgið utan Evrópusambandsins. Það er undarleg rökleysa í því ljósi að með aðild að innri markaði þess tökum við fullan þátt í sjálfum kjarna samstarfsins. Evrópulöggjöfin er grundvöllur alls viðskipta- og fjármálalífs í landinu.
Innan stjórnarflokkanna þriggja eru aftur á móti skiptar skoðanir um aðild Íslands að innri markaðnum. Meiri og dýpri umræða ýfir því upp þann innri veikleika. Lausnin er að setja pottlok á umræðuna.
Betur færi á hinu, að stjórnarflokkarnir segðu sem er, að kyrrstaða henti þeim bara best í stöðunni.
Skaðlegt fyrir lýðræðið
Fræðasamfélagið er komið miklu lengra en pólitíkin í að greina nýjar aðstæður í alþjóðamálum og meta stöðu Íslands í breyttum heimi.
Pólitíkin blasir svona við: Í varnar- og öryggismálum ganga nýir hlutir fram án umræðu. En á sviði Evrópusamvinnu í efnahags- og viðskiptamálum ríkir kyrrstaða án umræðu.
Hvort tveggja er skaðlegt fyrir lýðræðið. Umræðan er jafn mikilvæg hvort heldur menn eru með eða á móti breytingum.
Uppgjör við áramót snýst því ekki bara um þau mál sem eru mest rædd. Það á líka að taka til þeirra mála, sem eru of lítið rædd. Umræðan má ekki verða tabú.