09 des VG valdar stöðuna býsna vel
Sumir stjórnmálaskýrendur telja að VG hafi farið halloka í samningum stjórnarflokkanna um nýjan stjórnarsáttmála og uppstokkun ráðuneyta.
Til að komast að þessari niðurstöðu verða menn þó að horfa á VG eins og hún var. Þá má segja sem svo að VG hefði líklega fengið meira út úr því að taka Framsókn með í samstarf við Samfylkingu og Flokk fólksins.
Veruleikinn er hins vegar allt annar.
Flóknara dæmi
VG er ekki lengur róttækur flokkur nema í náttúruvernd. Fyrir fjórum árum náði hann þeirri stöðu að ráða hvernig ríkisstjórn yrði mynduð og hélt henni þrátt fyrir verulegt tap í kosningunum.
Þorri kjósenda VG er sáttur við kyrrstöðupólitík í efnahagsmálum. Atvinnulífið er hins vegar viðkvæmara fyrir henni. Að því leyti gæti Sjálfstæðisflokkurinn verið í þrengri stöðu en VG eftir endurnýjun samstarfsins.
Ýmsir telja að VG hafi fórnað drottningu með því að láta umhverfisráðuneytið af hendi til Sjálfstæðisflokksins og fallast á að orkumálin yrðu hluti af þeim pakka. En dæmið er aðeins flóknara.
Auðvelt þóf
Á sumum sviðum er löggjöf svo opin að ráðherra getur án lagabreytinga og samráðs við samstarfsflokka breytt stefnunni í grundvallaratriðum. Heilbrigðisráðherra nýtti sér þetta á síðasta kjörtímabili.
Í orkumálunum getur ráðherra hins vegar ekki hreyft sig um hænufet án nýrra lagaheimilda og samkomulags við samstarfsflokka. VG hefur því fullkomið stöðvunarvald á þessu sviði, sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekki í heilbrigðismálunum á síðasta kjörtímabili.
Ekki verður því annað séð en að VG hafi valdað þessa stöðu býsna vel. Þau þurfa ekki að hafa meira fyrir því að þæfa orkumálin en Sjálfstæðisflokkurinn hafði fyrir því að bregða fæti fyrir stjórnarskrármál forsætisráðherra á síðasta kjörtímabili.
Þverstæðan
Loftslagsmálin og orkumálin eru eitt stærsta viðfangsefni næstu ára. Þverstæðan í íslenskri pólitík endurspeglast með afar skýrum hætti á þessu málasviði.
Án orkuskipta ná menn takmörkuðum árangri í að koma í veg fyrir kolefnislosun. Og án nýrra virkjana verður lítið úr orkuskiptum.
Ungir umhverfissinnar gáfu Sjálfstæðisflokknum falleinkunn í loftslagsmálum fyrir kosningar. En VG kom út með láði.
Veruleikinn er hins vegar sá að VG er á móti nauðsynlegum virkjunum til þess að orkuskiptin geti átt sér stað. En leifarnar af gömlu stóriðjustefnunni gera það að verkum að Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn til þess að virkja til þess að ná settum loftslagsmarkmiðum.
Við erum á þeim tímapunkti að komast ekki hjá því að forgangsraða eða miðla málum milli náttúruverndar og loftslagsverndar. En VG getur það ekki.
Í raun og veru hefur VG því komið innri pólitískum veikleika í þessu efni yfir á Sjálfstæðisflokkinn.
Ábyrgðin
Mjög ólíklegt er að VG muni nota neitunarvaldið til þess að stöðva allar virkjanaframkvæmdir. En ákvarðanir verða dregnar á langinn og þær munu á endanum hvorki duga til þess að fullnægja kröfum um orkuskipti né til þess að ná framsæknum hugmyndum um að nota orku í ríkari mæli til verðmætasköpunar.
Náist loftslagsmarkmiðin ekki situr Sjálfstæðisflokkurinn uppi með ábyrgðina. En VG verður í skjóli.
Að auki mun það reynast Sjálfstæðisflokknum erfitt ef hann getur ekki nýtt þetta kjörtímabil til þess að virkja fyrir nýja verðmætasköpun.
Viðsnúningur
Hætt er við að skilaboðin um fjölgun ráðuneyta fari illa í þorra kjósenda Sjálfstæðisflokksins. En útþensla báknsins og fjölgun ríkisstarfsmanna veldur forystu VG ekki erfiðleikum gagnvart kjósendum sínum.
Gagnrýni úr atvinnulífinu á ríkisfjármálastefnuna fyrir að leggja ekkert af mörkum til þess að ná niður verðbólgu og verja lágvaxtaumhverfið, bitnar fyrst og fremst á Sjálfstæðisflokknum. Hún skemmir aftur á móti minna fyrir VG.
Spár um að utanríkisviðskiptin dragi hagvöxt niður eftir næsta ár, benda til þess að Sjálfstæðisflokknum hafi ekki tekist að tryggja samkeppnishæfni atvinnulífsins nægjanlega vel. Það er auðveldara fyrir VG að segja að nóg sé til og við getum lifað á aukinni einkaneyslu.
Niðurstaðan er sú að líkur eru á að samstarfið á þessu kjörtímabili verði Sjálfstæðisflokknum erfiðara en VG. Það yrði viðsnúningur.