13 jan Eigum við bara að slökkva?
Auðvitað varð að grípa í taumana. Við gengum einfaldlega illa um auðlindina okkar í sjónum. Ofveiði var orðin staðreynd og gjaldþrot útgerða hringinn í kringum landið blasti við. Það var því flestum ljóst að við þurftum að stýra sókn í fiskistofnana okkar.
Fyrir fjörutíu árum sá það enginn fyrir að mörg sjávarþorpanna sem þá lifðu á sjósókn og fiskvinnslu myndu eiga undir högg að sækja. Að íbúunum væri meinað að draga bein úr sjó því fiskveiðiheimildin væri í höndum annarra. Að bátarnir hyrfu og að fiskvinnslurnar stæðu auðar af því að kvótinn var kominn á örfárra hendur einhvers staðar annars staðar. Fjarri flestum sjávarþorpum.
Sú framtíðarspá, að fjörutíu árum síðar væru nokkrir útvaldir eigendur útgerða orðnir svo auðugir af kvótanum að þeir væru nánast í vandræðum með að koma þeim auði fyrir í annarri starfsemi alls ótengdri sjávarútvegi, hefði verið hlegin í kaf. Að útgerðarisar væru ráðandi i verslunum og bönkum, í matvælavinnslu og matvælainnflutningi, í flutningafyrirtækjum og fjölmiðlum, í fasteignafélögum og tryggingafélögum, í ferðaþjónustu, í veitingarekstri, í heilbrigðisþjónustu.
Það hlæja fáir í dag. Flestum ofbýður það tangarhald sem stórútgerðin hefur á íslensku samfélagi í skjóli ótímabundins einkaleyfis til nýtingar á sameiginlegri auðlind okkar. Myndin er þó ekki eins skýr og hún gæti verið því ríkisstjórnin hefur þrjóskast við að svara ákalli Alþingis um upplýsingar þar að lútandi. Rúmt ár er nú liðið frá því ég hafði forgöngu um að Alþingi óskaði eftir skýrslu sem sýndi svart á hvítu hvernig hagnaði og arði af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar hefði verið varið til fjárfestinga utan sjávarútvegsins. Það fer því miður að verða útséð með að ríkisstjórnin veiti Alþingi þessar upplýsingar.
Önnur mynd hefur þó teiknast býsna vel upp; myndin af því hvernig ríkisstjórn VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar vill verja sérhagsmunina í núverandi stöðu. Á vakt þessara þriggja samstarfsflokka hefur verið unnið gegn því að ákvæði í stjórnarskránni okkar taki af allan vafa um að ekki verði heimilt að afhenda auðlindir nema með tímabundnum samningum.
Fleiri atlögur að sérhagsmunagæslunni hafa verið reyndar. Þannig hefur þingflokkur Viðreisnar t.d. ítrekað lagt fram tillögur um tímabindingu veiðiréttarins, eðlilegt gjald með uppboði á markaði, aukið gegnsæi og dreifðari eignaraðild. Á ríkisstjórnarheimilinu hefur verið lítill áhugi á slíku. Mögulega breytist það eftir því sem hinum stórgóðu og vinsælu Verbúðarþáttum á RÚV vindur fram. Þótt þetta séu vissulega ekki heimildarþættir má ímynda sér hvaða mynd verður dregin upp í þeim sem enn á eftir að sýna. En sennilega teygja ráðherrarnir sig bara í fjarstýringuna og slökkva
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 13. janúar 2022