Bætum íþróttaaðstöðu í Mosfellsbæ

Það birtist frétt fyrir nokkru af krökkum í Reykjabyggð í Mosfellsbæ að spila fótbolta með höfuðljós á óupplýstum fótboltavelli.

Þau höfðu sent bæjarráði handskrifað bréf þar sem þau óskuðu eftir lýsingu á völlinn og helst gervigras líka. Þessi frétt barst víða og var meira að segja sýnd í sjónvarpinu í Danmörku. Þessu erindi þeirra var vel tekið í bæjarráði og vísað til umsagnar í stofnunum bæjarins. Það er aðdáunarvert þegar ungir krakkar taka sig til og fara með mál til bæjarráðs og biðja um úrbætur eins og þau gera.

En við ættum öll að biðja um úrbætur því að aðstaða til íþróttaiðkunar er alls ekki nógu góð í Mosfellsbæ og við eigum að gera betur. Það er nokkuð ljóst.

Það er á fjárhagsáætlun fyrir næsta ár að hefja byggingu á félagsaðstöðu við Varmá. Löngu tímabær bygging því það hefur skort félagsaðstöðu og búningsklefa í langan tíma. Það vantar líka ýmislegt annað. Það eru tvær sundlaugar í Mosfellsbæ og hvorug er lögleg keppnislaug. Aðstaða fyrir frjálsar íþróttir hefur drabbast niður vegna þess að viðhaldi hefur ekki verið sinnt. Fótboltinn hefur ekki almennilegan keppnisvöll og vantar svæði til þess að æfa.

Helsta afrek meirihlutans á síðasta kjörtímabili er viðhald á íþróttasal á Varmá sem sami meirihluti hefur látið sitja á hakanum. Það sem var gert á kjörtímabilinu fyrir utan viðhald var bygging á knattspyrnuhúsi sem er mun minna en önnur sveitarfélög hafa verið að byggja og uppsetning á bráðabirgða áhorfendastæði við fótboltavöllinn. Áhorfendasvæðið er sunnan meginn við völlinn þar sem áhorfendur eru með vindinn í fangið og sólina í bakið.

Þetta eru þessi stórkostlegu afrek sem meirihlutinn getur státað sig af. Jú og reddað fjárhag golfklúbbsins. Löngu fyrirséður vandi sem golfklúbburinn var kominn í vegna byggingar golfskálans.

Við þurfum að gera betur. Það þarf að skipuleggja Varmársvæðið til framtíðar. Fjölga völlum á svæðinu og byggja upp aðstöðu fyrir frjálsar íþróttir. Nú hefur verið tekin ákvörðun um að byggja löngu tímabæra félagsaðstöðu og hefst vinna við það á þessu ári. Það verður verkefni næstu bæjarstjórnar sem og að byggja íþróttahús við Helgafellsskóla.

Við þurfum líka að gera betur við að byggja göngu og hjólastíga í nágrenni Mosfellsbæjar. Það er leyndur fjársjóður sem við eigum í náttúrunni í kringum Mosfellsbæ. Þannig opnum við fellin fyrir útivist. Við þurfum að tryggja að aðstaða til hreyfingar og íþrótta fyrir börn, fullorðna, eldri borgara og allra annarra íbúa sé til fyrirmyndar og standa þannig undir nafni sem heilsueflandi samfélag.

Greinin birtist fyrst í Mosfelling 3. febrúar 2022